Áratugagömul gáta leyst

Fyrsti forseti Íslands var ekki kosinn í almennum kosningum heldur á þingfundi á Þingvöllum þann 17. júní árið 1944. Tugþúsundir Íslendinga höfðu mætt til þess að vera viðstaddir þennan einstaka viðburð. Fólk var sannarlega einhuga um að fagna saman þennan dag. Flutt voru ávörp og sungin ættjarðarlög og þrátt fyrir grenjandi rigninguna var mikil gleði í brjóstum allra viðstaddra. Pólitíkin var ef eitthvað er bitrari á þessum árum en núna, en þetta vor höfðu 97,4% þjóðarinnar sameinast í því að lýsa yfir sjálfstæði landsins og aðskilnaði frá Dönum.

Atkvæðagreiðslurnar voru tvær. Önnur um sambandsslitin og hin um nýja stjórnarskrá en eina breytingin í henni var að forseti kom í stað konungs, þ.e. Íslandi yrði lýðveldi en ekki konungdæmi.

Reyndar voru um 5% sem ekki vildu lýðveldi, en það munu aðallega hafa verið Alþýðuflokksmenn sem vildu halda í danskan konung. Einhverjum mun hafa dottið í hug að gera Knút, yngri bróður Friðriks erfðaprins (sem síðar varð Friðrik IX.), að kóngi, en fáir studdu það í alvöru, því bæði var Knútur danskur og svo var hann hálfgerður kjáni, sem kannski var ekki á allra vitorði.

Flestir bjuggust við því að Sveinn Björnsson ríkisstjóri yrði einróma kjörinn forseti. Sveinn hafði verið lögmaður, þingmaður um skamma stund, fyrsti formaður Eimskipafélagsins, Sjóvár og Brunabótafélagsins og fyrsti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Hann var valinn ríkisstjóri vorið 1941 sem eins konar bráðabirgðaforseti.

Mörgum fannst hann þó gerast full gírugur til valda þegar hann skipaði fyrstu (og einu) utanþingsstjórnina árið 1942, þegar þingmenn gátu ekki komið sér saman um stjórnarmyndun, en Framsóknarmenn voru í mikilli fýlu yfir því að kjördæmaskipan var breytt vorið 1942, en hún hafði verið þeim mjög hagstæð þannig að þeir fengu þingstyrk langt umfram fylgi meðal þjóðarinnar.

Sveinn hafði líka viljað draga sambandsslitin á langinn að minnsta kosti fram yfir stríðslok, en enginn stjórnmálaflokkur studdi það nema Alþýðuflokkurinn, sem barðist hart gegn slitum nema að undangengnum viðræðum við Dani, sem ekki gátu farið fram meðan nasistar héldu Danmörku hernuminni.

Utanþingsstjórnin

Utanþingsstjórnin með Svein Björnson ríkisstjóra við borðendann, Björn Þórðarson forsætisráðherra standandi.

Þrátt fyrir þetta hafði allur almenningur ekki hugmynd um annað en að um forsetakjörið ríkti eining. Þess vegna kom það mjög á óvart þegar Gísli Sveinsson, forseti sameinaðs þings, las upp atkvæðaseðlana, en atkvæðagreiðslan var leynileg. Fjölmargir skiluðu auðu og fimm þingmenn kusu Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, skrifstofustjóra Alþingis.

Í Alþýðublaðinu sagði Hannes á horninu (sem hét reyndar Vilhjálmur S. Vilhjálmsson) frá kjörinu:

„Ég gleymi ekki undrunarsvipnum á fólkinu, sem ég horfði á, þegar fyrsti auði seðillinn kom fram og ekki minnkaði þessi undrunarsvipur, eftir því, sem þeir urðu fleiri, og atkvæði fóru að falla á annan mann. Svo vék þessi undrun úr svipnum — og gremja kom í staðinn — og það fóru að heyrast háðsyrði:

„Auður hefur það!“

„Alltaf eru þeir góðir, nú ætla þeir að gera herra auðan að forseta. Það verður dáfallegur forseti það!“

„Hver er þessi Jón Sigurðsson?“

„Hvað er þetta eiginlega?“

„Hvað meina mennirnir?“

Auðvitað þarf að hafa það í huga að hér skrifar Alþýðuflokksmaður, en samt er örugglega ekki ofmælt að úrslitin komu á óvart. Sveinn Björnsson fékk 30 atkvæði, 15 skiluðu auðu og Jón Sigurðsson fékk fimm eins og fyrr er sagt.

Ekkert bendir til þess að Jón Sigurðsson hafi sóst eftir því að vera í kjöri, en hann var nokkuð þekktur maður, aðallega fyrir þýðingar sínar á bókum Knúts Hamsuns, sem eru afbragðsgóðar og voru vinsælt lesefni á þessum tíma. Kannski hefur hann ekki einu sinni verið spurður. Vel má vera að Ólafi Thors hafi þótt það fyndið að nota nafn manns sem var alnafni frelsishetjunnar miklu.

Bjarni Benediksson segir svo frá í grein um Ólaf Thors í Andvara:

Ólafur Thors og nánustu samstarfsmenn hans voru … lítt hrifnir … af skipun utanþingsstjórnarinnar. Engu að síður tóku þeir málefnalega afstöðu til hennar og studdu allar hennar tillögur, er þeir hugðu horfa til góðs. Þeir fögnuðu þess vegna heilshugar, þegar stjórnin tók veturinn 1943-1944 – gagnstætt því, sem óttazt hafði verið eftir 1. desember-ræðu dr. Björns [Þórðarsonar, forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar] – mjög skelegga afstöðu með sambandsslitum og lýðveldisstofnun árið 1944.

En þá brá svo við að ríkisstjóri … gerði tillögu um að bera málið undir þjóðfund. … Sú tillaga fékk þó engan hljómgrunn.

Bjarni segir svo frá því að í framhaldi af þessu hafi ýmsir nánir samstarfsmenn Ólafs viljað kjósa Sigurð Eggerz sem hafði verið í framvarðasveit í sjálfstæðismálinu á sínum tíma til forseta. Pétur Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi aftur á móti beitt sér eindregið fyrir kosningu Sveins, en Pétur hafði tekið við lögmannsstofu Sveins (sem er einn af forverum Logos sem starfar enn). Sigurður baðst undan kjöri og kusu sumir sem ætlað höfðu að greiða honum atkvæði Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi en aðrir skiluðu auðu. En það voru fleiri en Sjálfstæðismenn sem ekki kusu Svein. Sósíalistum þótti engin ástæða til þess að verðlauna hann með æðta embætti þjóðarinnar.

Nokkur orðaskipti urðu í fjölmiðlum um málið, en ekki mjög mikil. Alþýðublaðið skrifaði í leiðara:

Hins vegar hefir það ekki farið svo dult, að þeir, sem bezt fylgjast með, hafi ekki vitað, að langvarandi makk hefir farið fram meðal einstakra manna úr tveimur flokkum þingsins, Sjálfstæðisflokknum og Kommúnistaflokknum með það fyrir augum að ná þeim tökuna á hinu þýðingarmikla embætti forsetans, sem vonlaust var, að þeir gætu náð, ef Sveinn Björnsson yrði valinn í það.

Vísir sagði aftur á móti:

[Á Þingvöllum]  var forsetinn hylltur sem æðsta tákn íslenzku þjóðarinnar, sem öllum ber að sýna tilhlýðilega virðingu og meta hann sem tákn öllu frekar en einstakling, þótt hvorttveggja geti farið saman. Forsetinn á að vera og er hafinn upp yfir þras dægurmálanna, og einkum verða blöð og stjórnmálamenn að gætá þess að draga aldrei nafn hans inn i deilurnar, hversu harðar, sem þær kunna að verða’. Almenningur á að standa á verði gegn öllu slíku, ef fram kemur, og gera veg forsetans sem mestan í hvívetna. Hann er tákn sjálfstæðis þjóðarinnar, — kjölfestan i þjóðlifinu þegar að herðir, — táknið, sem allir eiga að skipa sér um i baráttu fyrir frelsi og tilveru.

Alþýðumaðurinn, málgagn krata á Akureyri, skóf ekki utan af hlutunum:

Vitað var fyrirfram, að AÐEINS EINN maður, hr. Sveinn Björnsson ríkisstjóri, átti meirihluta í þinginu. Samt auglýsir þessi göfugasta samkunda lýðveldisins ástandið innan þingsins á þann hátt, AÐ FYRSTI FORSETI LÝÐVELDISINS ER KOSINN MEÐ TÆPLEGA 3/5 HLUTA ÞINGMANNA. 15 skila auðum seðlum, 5 kasta atkvæðum -á mann, sem vitað er að ekkert fylgi hefir. SVO GAGNSÝRÐ ER ÞESSI VIRÐINGARLEYSI FYRIR ALÞINGI OG LITILSVIRÐINGU Á HINU NÝMYNDAÐA LÝDVELDI, AÐ SJALFT LÖGBERG ER VALID TIL AÐ AUGLÝSA ÞAD FYRIR UMHEIMINUM Hvernig geta þeir alþingismenn, sem haga sér svona, vænst trausts og virðingar þjóðarinnar?

Víðir í Vestmannaeyjum var líka hneykslaður:

Forseti Alþingis, Gísli Sveinsson, hikaði við er hann las nafnið Jón Sigurðsson. Og enn meira virtist honum bregða þegar dauði punkturinn kom, auði seðillinn. Flestum hlustendum mun líka hafa brugðið mjög í brún þegar úrslitatölurnar og auðu seðlarnir (dauðu punktarnir) urðu 15. Ef það upplýsist hvaða dáðleysingjar hafa skilað auðu seðlunum, ættu þeir aldrei framar að fá atkvæði til setu á þingi þjóðarinnar.

Alþýðublaðið vitnaði í Jón Sigurðsson [sjálfstæðishetjuna, en ekki skrifstofustjóra Alþingis] því til stuðnings að auðu seðlarnir hefðu verið„Fávizka, ódrengskapur, svik við kjósendur og vanvirðing við sjálft alþingi.“

Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, brást ókvæða við, enda höfðu allir þingmenn Sósíalista skilað auðu. Hann sagði:

Og þessir svikahrappar reyna svo að breiða nafn Jóns Sigurðssonar yfir svívirðilegt athæfi sitt, eins og leiðtogi þeirra Hannibal hinn ísfirzki, sem skoraði á þjóðina að greiða atkvæði gegn lýðveldinu í nafni Jóns Sigurðssonar.

Blaðið hélt svo áfram og skýrði að Alþýðuflokkurinn hefði einmitt svikið hugsjón Jóns Sigurðssonar og öll sín loforð með því að beita sér gegn lýðveldisstofnuninni.

En hvernig kusu einstakir þingmenn í leynilegum kosningum til forseta árið 1944? Í athugasemd við grein sem ég skrifaði um daginn um áskorun 270 áhrifamanna sem vildu fresta sambandsslitum sagði Vilhjálmur Bjarnason:

Ágreiningur um lögskilnað og hraðskilnað varð þess valdandi að Sveinn Björnsson var kosinn forseti á Alþingi með 30 atkvæðum. 5 kusu Jón Sigurðsson og 15 atkvæði voru auð. 2 alþingismenn voru fjarverandi. Ég veit með vissu um 10 auð atkvæði, en 5 auð atkvæði og 5 atkvæði greidd Jóni Sigurðssyni er engum ljóst með fullri vissu.

Um þetta ræddum við Vilhjálmur nokkuð, en þóttumst vita allnokkra af þessum 10 en ekki alla. Gátan var leyst í tölvupósti frá höfundi bókar um Gunnar Thoroddsen til Vilhjálms (lausnin er reyndar komin fram fyrir áratug, en ég verð að játa að ég hef ekki lesið bókina þar sem þetta kemur fram):

Man þá að Gunnar Thor. skrifaði um það í sína minnisbók. Sjá bls. 190 í bók minni um hann:

Gunnari virtist auðvelt að reikna út hvernig atkvæði féllu í forsetakjörinu á Lögbergi. Hann skrifaði hjá sér að Svein Björnsson hefðu kosið 11 sjálfstæðismenn, allir sjö þingmenn Alþýðuflokksins og allir 13 þingmenn Framsóknarflokksins sem voru á Þingvöllum nema einn, Jónas Jónsson frá Hriflu. Jónas kaus Jón Sigurðsson og fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis: Sigurður Kristjánsson, Jón Pálmason, Pétur Ottesen og Ólafur Thors.

Auk sósíalistanna tíu skiluðu svo fimm sjálfstæðismenn auðu: Þorsteinn Þorsteinsson, Garðar Þorsteinsson, Gísli Jónsson, Jakob Möller og Bjarni Benediktsson. Síðar heyrði Gunnar frá Jóni Pálmasyni að Bjarni hefði ætlað að kjósa Jón Sigurðsson en Pétur Magnússon, og jafnvel Gísli Sveinsson, hefðu talið hann á að skila auðu.

(GTh. „Forsetakjör 17. júní ’44“. Minnisblað án dags. en hugsanlega frá 17. júní 1944. Dagbók, færsla án dags. en um samtal við Jón Pálmason, 20. des. 1967.)

Sjá Gunnar Thoroddsen 2010, höfundur Guðni Th. Jóhannesson.


Á myndinni efst sést Benedikt Sveinsson, fv. forseti neðri deildar Alþingis og stafnbúi í sjálfstæðisbaráttunni flytja ávarp á Þingvöllum 17. júní 1944. Benedikt var afi minn.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.