Af gömlu Alþýðublaði, Vilhjálmi Bjarnasyni og 270 áhrifamönnum

Þessi saga byrjar fyrir mörgum áratugum þegar ég sat við gamla skrifborðið hans afa og var að róta í gömlu dóti. Í skrifborðinu höfðu leynst ýmsar gersemar. Meðal annars fálkaorður, riddarakrossar og stjörnur sem afi og amma höfðu fengið fyrir sín afrek í þjóðmálum. Þessum heiðursmerkjum skreytti ég mig með sem strákur, þangað til í Morgunblaðinu birtist frétt um að einhver hefði selt fálkaorðuna til forngripasala í Kaupmannahöfn. Þá tók mamma sig til og skilaði öllum dýrgripunum, mér til sárra leiðinda og ráðuneytisfólkinu til mikilla vandræða, því að enginn hafði áður skilað þessum orðum, þó að samkvæmt lögum eigi að gera það.

Í þetta sinn blasti við mér gamalt, samanbrotið dagblað. Þegar ég fletti því sundur sá ég að þetta var Alþýðublaðið frá 25. september árið 1943. Í blaðinu var næstum heil blaðsíða tekin undir eftirfarandi yfirlýsingu:

ÁSKORUN TIL ALÞINGIS

VÉR undirritaðir alþingiskjósendur í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði, skorum á hið háa Alþingi að ganga ekki frá formlegum sambandsslitum við Danmörku að óbreyttum þeim aðstæðum, sem Íslendingar og Danir eiga nú við að búa.

Undir þetta skrifuðu 270 einstaklingar sem margir hverjir voru þekktir í þjóðlífinu.

En hvers vegna var þetta blað í skrifborðinu hans afa eins og sérstök gersemi? Það var auðskilið. Hann var manna einarðustur í baráttunni fyrir fullum aðskilnaði milli Dana og Íslendinga. Blaðið geymdi hann til þess að minna sig á það hverjir það hefðu verið sem hefðu svikist undan merkjum og vildu fresta lýðveldisstofnun á Íslandi fram yfir stríðslok. Blaðið var geymt svo engu yrði gleymt.

Nú kann fólki að þykja þetta saklaus, jafnvel sanngjörn áskorun. En þá voru aðrir tímar. Sjálfstæðið var loksins í sjónmáli og ekkert mátti tefja það.

Fyrir skömmu sat ég að spjalli með nokkrum félögum mínum og lýðveldisstofnunin kom til tals, meðal annars að Sveinn Björnsson ríkisstjóri, sem svo varð fyrsti forseti lýðveldisins, vildi bíða með að slíta sambandinu við Dani. Allt þetta ræddum við Vilhjálmur Bjarnason, nefndum menn, samræður og atburði, rétt eins og við værum að tala um atburði gærdagsins. Kannski jafnvel af meiri nákvæmni. Slæ ég því svo fram í hita leiksins að lýðveldisstofnunin sé auðvitað viðkvæmt mál fyrir Villa, því að pabbi hans hafi skrifað undir áskorunina um að ganga ekki frá sambandsslitum meðan Danmörk (og Ísland reyndar líka) væri hersetin.

Aldrei þessu vant þagnaði Vilhjálmur í andartak og talið leiddist að öðru. Daginn eftir hringdi hann í mig og sagðist ekki finna áskorunina á timarit.is. Af því að ég hafði drukkið í mig nöfn þeirra sem undir skrifuðu tók það mig minna en mínútu að finna ávarp þessara 270 „áhrifamanna“ sem voru kannski eins og „áhrifavaldar“ í samtímanum, nema að þetta var allt hið merkasta fólk, þó að hefði þessa skoðun.

Til þess að hughreysta Vilhjálm sagði ég honum að hann þyrfti ekki að taka þetta nærri sér. Halldór Blöndal þarf að lifa með því að pabbi hans var rekinn úr Kommúnistaflokki Íslands. Villi tók gleði sína á ný.

Ég ákvað að rifja upp söguna bakvið þetta skjal sem ekki má gleymast.

Í Alþýðublaðinu birtist stutt frétt laugardaginn 25. sept. 1943:

270 áhrifamenn úr öllum flokkum skora á alþingi að fresta sambandsslitum.

Vilja ekki láta ganga formlega frá skilnaði við núverandi aðstæður Íslendinga og Dana.

TVÖ HUNDRUÐ OG SJÖTIU ÁHRIFAMENN úr öllum flokkum, búsettir í þremur stærstu kaupstöðum landsins Reykjavík, Hafnarfirði og Akureyri, sendu alþingi í fyrradag svohljóðandi áskorun í sambandi við afgreiðslu sjálfstæðismálsins:

„Vér undirritaðir alþingiskjósendur í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði skorum á hið háa alþingi að ganga ekki frá formlegum sambandsslitum við Danmörku, að óbreyttum þeim aðstæðum, er Íslendingar og Danir eiga nú við að búa.“

Undir þessa áskorun hafa skrifað, eins og sagt var, 270 áhrifamenn úr öllum flokkum: háskólaprófessorar, prestar, læknar, lögfræðingar, hagfræðingar, skáld og listamenn, útgerðarmenn, kaupsýslumenn, kennarar og skólastjórar, trúnaðarmenn ýmissa samtaka, svo sem verkalýðsfélaga og menningarsamtaka. svo og forgöngumenn á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins.

Undirskrifta undir áskorun þessa mun, að því er blaðið veit bezt, ekki hafa verið leitað meðal almennings. Hún er fram komin fyrir samtök einstakra áhrifamanna.

Áskorunin, ásamt nöfnum þeirra, sem undir hana hafa skrifað, er birt á fjórðu síðu blaðsins í dag.

Meðal þeirra sem undir skrifuðu má nefna frú Aðalbjörgu Sigurðardóttur, sem var framarlega í baráttusveit kvenna, mikil vinstrikona og móðir Jónasar Haralz hagfræðings, Árna Jónsson frá Múla, fv. þingmann Sjálfstæðisflokksins og afa Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, feðgana Ágúst Bjarnason og Bjarna Jónsson dómkirkjuprest, föður og afa Guðrúnar Ágústsdóttur fv. borgarfulltrúa, Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörð og forseta, föður þeirra listamannanna Sigrúnar og Þórarins, Sigurð Nordal prófessor, afa Guðrúnar og Salvarar Nordal, Stein Steinarr, rithöfund og Gylfa Þ. Gíslason, síðar prófessor og ráðherra, afa Guðrúnar Vilmundardóttur útgefanda. Einnig var þarna Bjarni Vilhjálmsson, cand. mag., en hann varð seinna þjóðskjalavörður og merkur fræðimaður. Gaf meðal annars út málsháttasafn og heildarútgáfu af þjóðsögum Jóns Árnasonar, faðir Vilhjálms Bjarnasonar fv. alþingismanns og Kristínar stærðfræðikennara. Bjarni var líka æskuvinur pabba og skólabróðir.

27074

Stór hluti þeirra sem skrifuðu undir var kratar (Alþýðuflokksmenn) en mikið samband var við jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndunum, einkum í Danmörku. Aðrir höfðu lært í Danmörku eða dvalið þar langdvölum. Flest var þetta fólk enn vel þekkt aldarfjórðungi síðar þegar ég fann blaðið samanbrotna. Mér sýnist ég hafi hitt milli 10 og 15 af þessu fólki og jafnvel komið heim til að minnsta kosti þriggja. En líklega segir þetta meira um hversu mikill nörd ég var, jafnvel sem unglingur.

Morgunblaðið tók þessu ávarpi ekki vel og daginn eftir kom svar þess bæði í ritstjórnargrein og Reykjavíkurbréfi, en á árum áður voru þau mikið lesin og vöktu athygli í samfélaginu.

Leiðarinn hét: Ofar almenningi. Þar var hæðst að listanum og sér í lagi viðbrögðum Alþýðublaðsins við honum:

„270 alþingiskjósendur hafa sent hinu háa Alþingi áskorun um það að ganga ekki frá formlegum sambandsslitum við Danmörku, að óbreyttum þeim aðstæðum, er Íslendingar og Danir eiga nú við að búa. Alþýðublaðið birtir í gær nöfn heiðursmannanna um leið og það gefur nánari skýringar á undirskriftasöfnuninni að þessari áskorun. Alþýðublaðið nælir með alúðlegri nostursemi því ilmríka blómi í hnappagat hinna fáu kjósenda, að alt sjeu þetta „áhrifamenn“ í þjóðfjelaginu. „Undirskrifta undir áskorun þessa mun, að því er blaðið veit best, ekki hafa verið leitað meðal almennings“. segir Alþýðublaðið. Það var þá tilefni fyrir Alþýðublaðið til þess að smjatta á, að alþýðan þótti ekki þess verð að leitað væri álits hennar.

Nei, — það er ekki verkamaðurinn Klemens Tryggvason eða sjómaðurinn Gylfi Þ. Gíslason, sem skrifa undir hið smekklega skjal. Ekki bóndinn Valdimar Jóhannesson- Nei — sei, sei; hagfræðingar og dósentar og „fyrverandi ritstjórar“(!) — Það var annar handleggur! Fínir og miklir menn, — Hrólfur minn! En hverju skipta svo þessi ósköp?

Alþýðublaðið er ef til vill búið að gleyma því, að lýðræðið hefir gefið mönnum jafnan kosningarjett í þessu landi titlar og nafnbætur hossa ekki einum ofar öðrum. Þessir 270 kjósendur verða aldrei nema 270 kjósendur! Þegar þeir ganga að kjörborði með öðrum 70—80 þús- kjósendum þessa lands, — með allri alþýðu, — verður lóð hvers og eins einstaklings jafnt á vogarskálinni.

Reykjavíkurbréfið var kurteislegra á yfirborðinu, en sendi „áhrifamönnunum“ samt tóninn og segir að þeirra verði minnst sem „hinna tryggustu Danavina meðal Íslendinga“ en á þessum árum var varla hægt að velja neinum meiri skammaryrði en að hann væri Danavinur.

„Undanfarna mánuði hafa nokkrir menn lagt stund á að safna undirskriftum undir áskorun til Alþingis um það, að ganga ekki formlega frá sambandsslitum við Danmörku að óbreyttum þeim aðstæðum, sem báðar þjóðirnar eiga nú við að búa. Undirskriftaskjal þetta hefir nú verið sent Alþingi. Undirskrifendur eru um 270.

Þó ósennilegt sje, að þessi velmeinta bænaráminning hafi áhrif  á hug og gerðir þingmanna, er hún til þess fallin að geymast í stjórnmálasögu þjóðarinnar-

Enginn vafi er á því, að bænaskrá þessi er gerð í góðum hug í garð beggja þjóðanna. Allir þessir alþingiskjósendur, er þarna hafa ritað nöfn sín, jafnt konur sem karlar, eru þess fullviss, að þegar núverandi styrjöld lýkur, og Ísland er orðið lýðveldi, þá verði þeirra minst sem hinna tryggustu Danavina meðal Íslendinga, er haldið hafi í heiðri hinum norrænu sambúðarvenjum í lengstu lög.

Alþýðublaðið var ekki ánægt með meðhöndlunina sem þetta tromp lögskilnaðarmanna fékk. Lögskilnaðarmenn voru þeir kallaðir sem vildu draga sambandsslitin, en hinir sem vildu flýta þeim voru kallaðir hraðskilnaðarmenn. Ástæðan var sú að margir vildu lýsa yfir fullu sjálfstæði sem fyrst eftir að Danmörk var hernumin, því að Danir gætu þá ekki lengur uppfyllt sinn hluta sambandssáttmálans frá 1918. Hann sagði aftur á móti að eftir 25 ár, það er eftir 1. desember 1943, gæti hvor þjóðin sem er einhliða slitið sáttmálanum. Eftir það varð ekki um það deilt að aðskilnaðurinn yrði samkvæmt lögum og samningum milli þjóðanna.

Í leiðara Alþýðublaðsins sagði meðal annars:

„Ekkert af því, sem fram hefir komið í umræðunum um sjálfstæðismálið síðustu mánuði, hefir vakið eins gífurlega athygli og áskorun sú, sem 270 áhrifamenn úr öllum flokkum sendu alþingi fyrir þremur dögum og birt var hér í blað í gær, um að ganga ekki formlega frá sambandsslitum við Danmörku að óbreyttum þeim aðstæðum, sem Íslendingar og Danir eiga nú við að búa. Mánuðum saman hefir Morgunblaðið haldið því fram í umræðunum um sjálfstæðismálið, að það væru ekki nema einstaka „hjáróma raddir,“ eins og það hefir oftast orðað það, sem væru því andvígar að fara óðagotsleið þeirra Ólafs Thors, Jónasar frá Hriflu og hinna kommúnistísku hjálparmanna þeirra í því máli.

En hver lætur lengur segja sér slíkt, eftir að 270 þekktir áhrifamenn úr öllum flokkum hafa opinberlega skorað á alþingi, að fara ekki þá leið? Þær eru þá að minnsta kosti farnar að verða nokkuð margar, „hjáróma raddirnar“ í sjálfstæðismálinu, sem Morgunblaðið hefir verið að tala um! Það fer ekki hjá því, að það veki töluverða eftirtekt, að hvorki MorgunblaðiðÞjóðviljinn hafa birt þessa stórathyglisverðu áskorun, þó að hún hafi verið send þeim báðum til birtingar.

Hins vegar hafa menn tekið eftir því, að Morgunblaðið hefir í ritstiórnargreinum sínum tvo undanfarna daga reynt að gera sem allra minnst úr þýðingu hennar og beinlínis veitzt að hinum mörgu mætu mönnum úr öllum flokkum, sem undir hana hafa skrifað, með hinum óviðurkvæmilegustu orðum eins og þeim, að þeir hefðu látið ginnast af „margskonar fortölum“, vissu ekki, hvað þeir hefðu verið að gera, aða væru jafnvel vísvitandi að vinna á móti „íslenzka málstaðnum“ í sjálfstæðismálinu!

Verður ekki annað sagt um slík skrif Morgunblaðsins, en að þá fari skörin að færast upp í bekkinn, þegar hámenntuðum mönnum og forystumönnum á flestum sviðum þjóðlífsins, eins og þeim, sem undir áskorunina til alþingis hafa skrifað, er borið það á brýn, að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera, eða séu vísvitandi að svíkja þjóð sína!“

Blaðið minnir á að Íslendingar í Kaupmannahöfn hafi varað við því „að hrapa að sambandsslitum við Danmörku eins og nú er ástatt. … Og fyrir þetta er þeim brigzlað af Morgunblaðinu, eins og Íslendingum í Kaupmannahöfn í vor, um það, að þeir séu að vinna á móti hinum íslenzka málstað! Það er smekklegur málflutningur, eða hitt þó heldur, gagnvart mætustu mönnum þjóðarinnar.“

Mogginn svarar fullum hálsi:

„Í forystugrein Alþýðublaðsins í gær er talað um þá „fáheyrðu framkomu Morgunblaðsins, að halda leyndum fyrir lesendum“ nöfnum þeim, er skrifuðu undir margumtalaða áskorun til Alþingis að ganga ekki frá formlegum sambandsslitum við Dani. Getur verið, að rjettast hefði verið að birta umrædd nöfn, en það skal Alþýðublaðinu sagt, að Morgunblaðið telur sig hafa gert undirskriftarmönnunum meiri greiða, með því að lofa nöfnum þeirra hvíla í friði, en að státa með þau á þann hátt, sem Alþýðublaðið hefir gert.“

Umræðan fjaraði fljótlega út um þessa áskorun og meira en 98% kjósenda vildi aðskilnað frá Dönum í þjóðaratkvæði vorið 1944. Niðurstaðan varð sú að „óðagotsleið þeirra Ólafs Thors, Jónasar frá Hriflu og hinna kommúnistísku hjálparmanna þeirra“ varð ofan á.

En Alþýðublaðið samanbrotna var geymt þangað til þess þurfti ekki lengur. Nú tryggir timarit.is að þessi áskorun gleymist aldrei.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.