Hverjar eru líkurnar á smiti?

Nýjustu tölur um fjölda smita (á covid.is) eru ekki alslæmar. Smituðum heldur áfram að fjölga, en próf ÍE eru aftur komin inn í myndina og samkvæmt tölunum hefur bara einn af tæplega 600 greinst smitaður þaðan. Þó verður að hafa fyrirvara á því að ég veit ekki hvort niðurstöður þaðan koma jafnhratt inn og frá Landspítalanum.

Á upplýsingasíðunni birtast nú áhugaverðar tölur um hve stór hlutfall þeirra sem greinast eru þegar í sóttkví. Út frá því má geta sér til um hve stórt hlutfall þeirra sem eru í sóttkví eru smitaðir (nei þetta er ekki það sama). Óvissan er talsverð, en mér sýnist að talan sé nálægt 5%.

Hlutfallið af hinum sem ekki eru í sóttkví er miklu lægra eða 0,1 til 0,2% þeirra sem ekki eru í sóttkví. Það er að um 350 manns sem ekki voru þegar í sóttkví hafa staðfest smit af 350 þúsund manns sem ekki eru í sóttkví.

Ef þessi kenning er rétt gæti staðfestum nýsmitum fjölgað talsvert á næstu dögum eða um nálægt 550 á fimm dögum. Þetta gerir ráð fyrir því að prófanir verði svipaðar og að undanförnu.

Á sama tíma er líklegt að þeim sem batnar fjölgi líka, kannski um nálægt 100 eða um 20 á dag. Samkvæmt þessu gætu staðfest smit að frádregnum þeim sem hafa losnað við veiruna verið um 1.000 til 1.100 um næstu helgi. Það er ekki fjarri líklegustu spá sérfræðinga Háskólans og Landlæknis frá því í fyrradag.

Svo kemur að því að þeim sem eru í sóttkví fækkar og jafnvægi kemst á.

Ísland og útlönd

Sumir hafa bent á að samkvæmt tölum um smit virðist veiran útbreiddari hér á landi en víða annars staðar, til dæmis á Ítalíu, sem eru væru auðvitað afleitar fréttir. Myndin hér á eftir sýnir hlutfall smitaðra í nokkrum löndum, meðal annars á Íslandi, Ítalíu og Suður-Kóreu. Samkvæmt þessu er staðan verst á Íslandi.

Smit í ýmsum löndum

Þetta segir þó alls ekki alla söguna. Hér á landi hafa rúmlega 3% þjóðarinnar verið prófuð gagnavart smiti, en það er líklegt að þetta hlutfall sé miklu lægra annars staðar, jafnvel þó að smit sé jafnútbreitt og hér.

Jafnframt verður að undirstrika að aðalhættan er gagnvart áhættuhópum, öldruðum og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Íslendingum hefur hingað til tekist nokkuð vel að vernda þessa hópa.

Á Ítalíu er sagt að 1.150 af hverjum milljón íbúum séu smitaðir. Á Íslandi er hlutfallið um 2.200 staðfest smit. Þegar litið er á dauðsföll hafa 113 af hverri milljón íbúa á Ítalíu fallið fyrir veirunni en 6 af milljón (2 dauðsföll sinnum þrír) á Íslandi.

Í Lúxemborg er álíka hátt hlutfall staðfestra smita og á Íslandi, en dauðsföll tvöfalt fleiri hlutfallslega.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vandanum hér heldur að benda á að í samanburði við útlönd þarf að horfa á fleira en bara fjölda staðfestra smita. Eins og sóttvarnarlæknir hefur bent á er það jákvætt að finna smitin.

Dánartíðnin

Komið hafa fram háar tölur um dánartíðni og þá hafa menn reiknað saman fjölda þeirra sem batnar og þeirra sem látast. Þetta er mjög villandi meðan enn eru margir veikir. Þetta hlutfall ofmetur dánartíðnina. Auk þess er það mjög misjafnt eftir löndum hve margir eru prófaðir, þannig að staðfest smit eru víðast hvar vanmetin.

Á sama hátt vanmetur það dánartíðnina ef litið er á fjölda þeirra sem hafa dáið af heildarfjölda staðfestra smita meðan enn eru margir veikir og ekki vitað hver afdrif þeirra verða.

Sjúkdómurinn er vissulega mjög hættulegur, en eins og oft hefur komið fram skiptir miklu máli hverjir veikjast. Dánartíðnin er þeim mun hærri eftir því sem fólk er eldra.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.