Eftir hádegið komu nýjustu tölur um útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Eftir stutta umfjöllun um tölur dagsins fjalla ég um stöðu Íslands miðað við útlönd og útbreiðsluhraða veirunnar erlendis.
Staðan á Íslandi
Enn fjölgar smituðum en þó fjölgar þeim sem hefur batnað hraðar. Ef þessi þróun heldur áfram má búast við því að spár um að fjöldinn staðfestra smita nái hámarki í fyrstu viku apríl geti gengið eftir. Fjölgunin er um 6% sem er með minnsta móti. Hún er mjög svipuð í öllum aldurshópum, nema í elsta hópnum (fólk yfir áttrætt). Enn eru aðeins tíu manns á Íslandi yfir áttrætt með staðfest smit, en þeim fjölgaði um fjóra og reynsla annarra segir að dánartíðnin hækki eftir aldri.
Alvarlegu fréttirnar eru þær að sjúklingar á gjörgæslu eru nú níu (þar af sjö í öndunarvél) og hefur fjölgað um þrjá síðan í gær. Svartsýnisspá sagði að fjöldinn yrði 6-7 núna. Þetta er auðvitað sá hluti sem mestu máli skiptir. Fólki í skráðri sóttkví hefur fækkað. Þannig að á mörgum vígstöðvum lítur út fyrir að tökin á ástandinu séu allgóð, en eins og tölurnar um fjölgun sjúklinga á gjörgæslu sýna megum við alls ekki leggja árar í bát, heldur verðum öll á leggjast á árar um að vernda aldraða.
Flestir muna að fyrir fáeinum vikum talaði Bandaríkjaforseti af miklu gáleysi um veiruna og líkti henni við flensu. Morgunblaðið gengur skrefi lengra í Reykjavíkurbréfi dagsins: Það eru erfiðir tímar, það er ömurlegt kvef er fyrirsögnin, sem bendir til þess að þessi fyrrum áhrifamikli fjölmiðill átti sig ekki á alvarleika málsins. Covid-19 er ekki alvarlegt kvef eða orðaleikur heldur dauðans alvara.
Skráðum í sóttkví fækkar um 4% sem eru ágætar fréttir, en ekki er gott að segja hvort vel er haldið utan um tölfræði þessa hóps, því að eins og ég hef vikið að áður eru nú rúmlega 20% hópsins sögð „óstaðsett“. Þetta er ekki traustvekjandi og fróðlegt væri að vita skýringu.
Nú voru aðeins 36% nýrra smita frá fólki í sóttkví og það er visst áhyggjuefni, því það fólk sem ekki var í sóttkví hefur þá getað smitað aðra, en þó eru svo margir komnir í sjálfskipaða sóttkví að kannski hefur þetta ekki jafnmikil áhrif og fyrstu dagana.
Undanfarna fimm daga hafa 0,6% af þeim 2.500 sem ÍE hefur prófað verið sýktir. Í því sambandi er rétt að minna á orð Kára Stefánssonar í viðtali 15. mars: „Aðspurður segir Kári ljóst að þeir sem séu hræddir um að bera veiruna séu líklegri til að gangast undir skimun. Þá sé talið að veiran sé algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðar, og þeir fyrrnefndu líklegri til að gera sér ferð suður í Kópavog í skimun. Þetta kalla fræðimennirnir valbjögun (e. selection bias).“ Þessi ábending Kára á enn við. Því má segja að tölurnar gefi til kynna að smitaðir séu vel innan við 0,6% þjóðarinnar.
Eins og undanfarna daga sýni ég stöðuna miðað við spá sérfræðinga. Þó að innlögnum á spítala hafi fjölgað eru þær enn talsvert undir spánni. Segja má að spáin um virk smit sé eins nákvæm og hægt er að búast við um tölfræðilega spá, staðfest smit heldur færri en líkanið sagði fyrir um. Spáin um innlögn á gjörgæslu brást aftur á móti eins og þegar er sagt frá.
Hvernig stendur Ísland miðað við útlönd?
Margir hafa bent á það að fjöldi staðfestra smita á Íslandi sé hlutfallslega miklu hærri en til dæmis á Spáni eða Ítalíu, svo nefnd séu tvö lönd sem fara illa út úr drepsóttinni. Smit á íbúa séu næstum tífalt fleiri en í Bandaríkjunum, sem virðast stefna í skelfilegt ástand, sem þegar er komið fram í New York. Þetta segir ekki alla söguna. Flest lönd hafa prófað miklu færri hlutfallslega en Íslendingar. Hér á landi hafa meira en 4% íbúa verið prófuð, sem er mjög hátt hlutfall.
En þó er engin ástæða til þess að neita því að veiran kom hingað með trompi vegna þess að stórir hópar íslenskra ferðamanna voru svo óheppnir að vera á svæðum á Ítalíu og Austurríki, sem sýktust snemma. Þessir hópar voru á „heppilegum“ aldri og það hefur hjálpað okkur hingað til að veiran ekki hefur sýkt stóra hópa aldraðra. Hingað til hefur aðeins einn Íslendingur dáið af völdum veirunnar og einn erlendur ferðamaður sem var sýktur.
Sýktum fjölgar tífalt á rúmri viku
Hér á eftir birti ég niðurstöður úr athugun sem ég gerði á því hve hratt veiran breiðist út. Vegna þess að próf fyrir smiti eru misútbreidd ákvað ég að skoða hve hratt dauðsföllum fjölgaði í þeim löndum þar sem flestir hafa sýkst.
Ég byrjaði á því að skoða hve hratt dauðsföllum fjölgaði úr 10 í 100, það er hve margir dagar liðu frá því að alls voru 10 látnir í að þeir voru orðnir 100. Ætla verður að dauðsföll séu bæði nokkuð áreiðanleg og sambærileg stærð til þess að bera saman milli landa.
Á myndinni hér að neðan má sjá útbreiðsluhraðann á Ítalíu, Spáni, Kína, Íran, Frakklandi og Bandaríkjunum, en í þessum löndum hafa flestir dáið til þessa.
Myndin sýnir að hraðinn í upphafi var mestur á Spáni þar sem fjöldinn tífaldaðist á aðeins fimm dögum. Í Kína tók það sex daga, en í hinum löndunum 8-10 daga. Hægast fjölgaði dauðsföllum í upphafi í Bandaríkjunum. Án þess að ég viti það dettur mér í hug að dauðsföll hafi einfaldlega verið flokkuð rangt í upphafi. Hver sem skýringin er þá er líklegt, að þetta hafi gert ráðamenn í Bandaríkjunum værukærari en ella og mátti síst við því.
Þegar hugað er að næstu tíföldun, það er frá hundrað upp í þúsund skiptir hraðinn miklu máli. Ef þetta tekur jafnmarga daga og stökkið frá 10 upp í 100 er veiran í jöfnum veldisvexti sem kallað er. Sú var raunin á Ítalíu og Frakklandi, heldur hægði á henni á Spáni og í Íran, það er dauðsföll tífölduðust á tveimur dögum lengur en áður. Í Kína hægði mikið á vextinum, úr 6 í 14 daga (ef marka má tölurnar).
En í Bandaríkjunum tífölduðust dauðsföll á átta dögum þegar komið var á þetta stig. Þetta er einmitt það sem allir hafa reynt að forðast, því veiran ber heilbrigðiskerfið ofurliði ef menn stemma ekki stigu við henni. Vonandi tekst þeim að hægja á útbreiðslunni því ella stefnir í upplausnarástand eins og Cuomo ríkisstjóri í New York er óþreytandi að benda á.
Ítalía er eina landið með 10 þúsund dauðsföll enn sem komið er. Sem betur fer hefur heldur hægt á útbreiðsluhraðanum. Fjölgunin úr 1.000 í 10.000 tók sextán daga.
Hver er útbreiðsluhraðinn á Íslandi?
Sem fyrr segir eru dauðsföll á Íslandi sem betur fer enn svo fá, að útilokað er að reikna sambærilegar tölur fyrir okkur. Þess í stað reiknaði ég tíföldunartíma á staðfestum smitum, en þau fóru yfir þúsund í tölunum sem birtar voru í dag. Hann er á myndinni hér að neðan borinn saman við breytingu á dauðsföllum í þeim löndum þar sem flestir hafa dáið til þessa.
Á Íslandi liðu tæplega níu dagar frá tíunda smiti að því hundraðasta. Það er ekki ósvipað flestum löndum á myndinni. Suður-Kórea sker sig, en þar hefur tekist að hægja mikið á veirunni. Því ákvað ég að gera myndina aftur þar sem Suður-Kóreu er sleppt.
Munum að best er að súlan sé sem hæst, það er að dauðsföll (eða smit) tífaldist á sem lengstum tíma. En óhætt er að fullyrða að á fyrra tímabilinu sker árangur Íslands sig ekki úr (auðvitað með það í huga að við erum ekki að tala um sama hlutinn, annars vegar dauðsföll, hins vegar smit). Aftur á móti þegar litið er á aukninguna frá 100 í 1.000 eru tölurnar ánægjulegar fyrir Íslendinga. Það tók 18 daga á Íslandi, en 10 daga á Bretlandi og 8 daga í Bandaríkjunum, á Spáni og Ítalíu. Nokkur landanna eru ekki komin í 1.000 dauðsföll, (Holland, Þýskalandi, Belgía og Sviss) en þar miða ég við hraðann eins og hann er núna.
Niðurstaða
Þróunin að undanförnu bendir til þess að ekki sé langt í að útbreiðsla smita nái hámarki á Íslandi (að því gefnu að fólk fari áfram varlega). Þetta hámark gæti náðst eftir viku til tíu daga.
Tölur samkvæmt prófunum ÍE benda til þess að fjöldi smitaðra sé núna vel innan við 0,6% af þjóðinni.
Því miður eru alvarleg tilvik fleiri en búist hafði verið við. Mér sýnist að nokkrir dagar líði þangað til áreiðanlegar spár um þau líti dagsins ljós. Hér skiptir öllu hve vel tekst að vernda elliheimili.
Erlendis er vírusinn enn á fullu og er jafnvel að sækja í sig veðrið í Bandaríkjunum. Samanburður við Ísland er annmörkum háður, en svo langt sem hann nær höfum við náð bærilegum árangri. Enn er þó of snemmt að fagna.