Tímamót

Það er með trega sem ég tilkynni aðdáendum pistla minna að þessi verður sá síðasti sem ég skrifa á þessum vettvangi. Ég veit að lesendur hlakka sífellt til þess morguns sem skrif mín birtast hér á leiðaraopnu Morgunblaðsins. En nú er komið að leiðarlokum.

En örvæntið eigi. Sérhver endir er jafnframt upphaf (nema síðasti endirinn, en vonandi langt í hann ennþá). Ástæðan fyrir því að pistlar mínir munu ekki birtast lengur á þessum stað er að þeir munu færast til vinstri á síðunni. Stjórn Árvakurs hefur sem sé boðið mér að taka við ritstjórn blaðsins og ég hef fallist á það.

Þessir atburðir hafa ekki átt sér langan aðdraganda af minni hálfu. Ég get þó upplýst að fyrir skömmu hafði framkvæmdastjóri Samherja samband við mig. Í ljósi mikilla rekstrarerfiðleika blaðsins hefur hverjum steini verið velt við til þess að finna nýtt rekstrarlíkan. Í upphafi snerust viðræðurnar fyrst og fremst um að sameina vefmiðlana mbl.is og miðil minn bjz.is, en þegar við fundum að hjörtun slógu í takt varð það úr að ég var beðinn um að taka við blaðinu.

Lengi hafa legið þræðir milli mín og míns fólks og Morgunblaðsins. Afabróðir minn, Baldur Sveinsson, var höfundur að gælunafninu Mogginn og Bjarni, móðurbróðir minn, var ritstjóri blaðsins um skeið. Reyndar talinn besti ritstjórinn til þessa. Sjálfur bar ég út blaðið um árabil frá því að ég var níu ára og var síðar sendill á afgreiðslu þess.

Einhverjir lesendur bera kannski ugg í brjósti um að ritstjórnarstefnan breytist, en það er ástæðulaus ótti. Blaðið mun áfram berjast fyrir hugsjónum hins ofurgreinda leiðtoga í Washingtonborg, hafna bullinu um hlýnun af mannavöldum (ekki það að hún sé ekki hið besta mál) og berjast af krafti gegn villukenningum um að jörðin snúist um sólina, þegar hver maður sér að það er öfugt.

Mér er gefið algjörlega frítt spil um skrif, en verð að sjálfsögðu að leggja handrit fyrir ráðgefandi ritnefnd sem í sitja þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Páll Vilhjálmsson og Styrmir Gunnarsson, sem allir hafa verið fráfarandi ritstjóra til halds og trausts. Sjálfum hefur mér þó dottið í hug hvort bráðum mætti hugsa sér afturhvarf til fortíðar og endurvekja úrelt slagorð: Blað allra landsmanna og Getur þú ímyndað þér morgun án Moggans? 

Hvað verður þá um núverandi ritstjóra? Á þessari stundu er það trúnaðarmál, en sjá, ég boða yður mikinn fögnuð. Hann hyggst gefa þjóðinni kost á að leiðrétta mistökin frá 2016 og bjóða sig fram á ný í sumar. Ég bið lesendur þó fyrir þetta að sinni.


Birtist ekki í Morgunblaðinu 1. apríl 2020.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.