Fjöldi virkra smita er innan við spá sérfræðinga sem vekur vonir um að hámarki verði náð á næstu viku. Það eru góðu fréttirnar. Staðfestum smitum á Vestfjörðum fjölgar þó mikið á einni nóttu, úr 6 í 17.
Slæmu fréttirnar eru að tveir hafa látist í viðbót frá því síðustu tölur voru birtar. Það fjölgaði um einn á gjörgæslu en fjöldinn er enn talsvert yfir spám eða 12 í stað sex sem spáð var. Fjöldinn er við svartsýnisspá. Enn fjölgar nokkuð hratt innlögnum á spítala en þær eru þó rétt innan við spána. Á móti kemur að ekki komu fram nein ný smit í einstaklingum eldri en 70 ára.
Samkvæmt opinberum tölum hefur fólki í sóttkví fækkað um 28% frá hámarki fyrir sex dögum. Vel yfir helmingur þeirra sem mælast smitaðir eru í sóttkví.
Stöðumyndin er svipuð og undanfarna daga. Spáin er mjög raunsæ nema um fjölda í gjörgæslu. Ekki hefur verið birt opinberlega spá um fjölda látinna, en fjögur dauðsföll minna okkur á hve stórhættulegur sjúkdómurinn getur verið.
Mjög margir hafa verið prófaðir undanfarna þrjá daga eða um 4.500 manns. Það kann að skýra hve mörg ný smit hafa fundist.
Á myndinni hér að neðan er sýnt hvernig ferillinn yfir virk smit gæti verið næstu þrjár vikur. Ég geri ráð fyrir því að fólki batni með sama hraða og það veiktist 15 dögum áður. Jafnframt reikna ég með að næstu daga verið álíka mörg ný smit og undanfarna daga, eða 75 til liðlega 90, en fari fækkandi.
Ferillinn er líkur spá sérfræðinga HÍ, Landspítala og Landlæknis. Virk smit ná hámarki eftir nokkra daga.
Bull er skaðlegt
Það er magnað hve margir þykjast vita miklu meira eða að minnsta kosti jafnmikið og fremstu sérfræðingar um stjórnun á faraldri.
Sóttvarnarlæknir benti í dag á að í stýringu á faraldri nefndar tvær leiðir, annars vegar bæling eða einangrun (e. suppression/containment) og hins vegar skaðaminnkun (e. mitigation).
Bæling fæli í sér „að greina hratt, einangra sjúka, setja útsetta í sóttkví, setja ákveðin fjarlægðarmörk milli fólks, samkomutakmarkanir, útgöngubann og ferðatakmarkanir.
Skaðaminnkandi aðgerð felur í sér að lágmarka skaðann af faraldrinum, hægja á honum. Vernda viðkvæma hópa og undirbúa heilbrigðiskerfið sem best.
„Allt af þessu höfum við verið að gera frá byrjun, nema útgöngubann og ferðatakmarkanir, sem við höfum áður farið í gegnum að við teljum að muni ekki skila miklum árangri, nema kannski tefja faraldurinn eitthvað örlítið.“
Þórólfur sagðist „hvetja alla til að standa saman þessar vikur sem við eigum eftir, alla vega út aprílmánuð og náttúrlega lengur, eins og þurfa þykir“.
Lítið hægir á útbreiðslu í Bandaríkjunum og á Bretlandi
Fréttir af dauðsföllum hafa verið mest áberand frá Ítalíu og Spáni, sem eðlilegt er því að í báðum löndum er tala látinna komin yfir 10 þúsund. En ef maður skoðar hraða útbreiðslunnar kemur í ljós að í báðum löndum hefur hægt á dauðsföllum, sérstaklega á Ítalíu. Á Spáni er hraðinn býsna mikill ennþá.
Fréttirnar frá Bandaríkjunum og jafnvel Bretlandi eru ekki eins góðar. Útbreiðsluhraðinn í Bandaríkjunum virðist vera sá hraðasti í heiminum eftir 1.000 dauðsföll. Þar eru dauðsföll nú rúmlega 5.000, en miðað við þennan hraða verða þau orðin 10 þúsund eftir þrjá daga. og ef því linnir ekki verður landið komið fram úr Ítalíu í dauðsföllum á miðvikudaginn kemur og verða þá farin að nálgast 20 þúsund.
Bretar eru að átta sig á því hve alvarlegt ástandið er þar. Dauðsföll þar stefna í að verða 10 þúsund eftir viku og fleiri en í Frakklandi strax eftir páska.
Komumst við einhverntíma út úr þessu?
Mikið er rætt um það milli sérfræðinga hvenær ætla megi að faraldrinum linni og hvort ætla megi að önnur bylgja taki við. Verður heimsbyggðin í spennitreyju í allt sumar og fram á næsta vetur? Ef svo er þá gera efnahagsaðgerðir lítið gagn. Prósentur hér og prósentur þar hafa lítið að segja, ef enginn getur unnið vegna veikinda eða sóttvarna.
Svo eru líka vangaveltur meðal sérfræðinga um hvaða spálíkan sé heppilegast, fyrir utan auðvitað umræðuna sem mestu máli skiptir, hvaða aðgerðir nái mestum árangri. Aðgerðir stjórnvalda nú beinast að því að jafna álagið sem mest út þannig að heilbrigðiskerfið ráði við það, en hvað svo?
Í New York Times birtist eftirfarandi mynd sem átti að sýna áhrif þess að halda bili milli fólks í tvo mánuði í stað tveggja vikna:
Samkvæmt myndinni verður kúfurinn mjög hár ef aðgerðirnar standa bara í hálfan mánuð. Tveir mánuðir virðast vera málið. Samt vekur endirinn á grafinu til hægri upp spurningu. Hvaða hækkun er þetta sem við sjáum í október?
Í grein eftir Wesley Pagden sem nálgast má á netinu sést myndin öll:
Eftir hið huggulega sumar kemur kúfur í haust, miklu verri en áður.
Auðvitað eru þetta bara stærðfræðilíkön og í haust yrði örugglega gripið til aðgerða aftur, en fleiri og fleiri spyrja sig spurningarinnar: Hvað svo?
En svo má auðvitað ekki gleyma því að allar drepsóttir hingað til hafa endað. Svarti dauði, bólusótt, spænska veikin hurfu á endanum. Við þykjumst vita að þessi endi líka. En fólk spyr sig líka: Verð ég í hópi þeirra sem upplifa þann endi?
Fyrri greinar mínar um Covid-19:
- HVERNIG VERÐUR SEINNI BYLGJAN?
- ÞETTA ER ALLT AÐ KOMA – NÝTT LÍKAN OG FÓLKI BATNAR
- HVERNIG STENDUR ÍSLAND SIG MIÐAÐ VIÐ ÖNNUR LÖND?
- GÓÐAR COVID FRÉTTIR OG VERRI
- ER EITTHVAÐ AÐ MARKA SPÁR UM COVID?
- HVERJAR ERU LÍKURNAR Á SMITI?
- SMIT OG SÓTTKVÍ NÆR TVÖFALDAST Á FJÓRUM DÖGUM – STAÐAN EFTIR LANDSHLUTUM
- FLEIRI SMITAÐIR EN SPÁR GERÐU RÁÐ FYRIR