Veiran vinnur ekki á okkur …

„Erdogan segir að veiran komi ekki til okkar.“ Sonur minn var að tala við leigubílstjóra í Tyrklandi fyrir tveimur og hálfri viku. Erdogan, Trump og Bolsonaro sögðu allir að þetta yrði ekkert mál. Einu sinni var talað um upplýst einveldi. Nú búa þessi lönd við óupplýst lýðræði forsetanna.

Ekki fækkaði virkum smitum á Íslandi í þetta sinn. En innlagnir á spítala eru færri í nýjustu tölum en í gær og tólf á gjörgæslu, þar af átta í öndunarvél. Staðfestum smitum fjölgaði nokkuð meira en undanfarna tvo daga, en próf voru líka fleiri en nokkru sinni áður.

Aðeins um þriðjungur þeirra sem smit fannst hjá var í sóttkví, sem er óvenju lítið, en skýringin er líklega sú að ÍE hefur staðið fyrir handahófsúrtaki á höfuðborgarsvæðinu og 13 fundust þar af 2.300 sem prófaðir voru af fólki sem ekki er í sóttkví. Miðað við þetta erum við 95% örugg um að raunverulegt hlutfall smitaðra er á milli 0,26% og 0,87%. Líklegast er að það sé einhvers staðar þarna á milli, nálægt 0,5%. Ég stóðst ekki freistinguna að teikna líkindadreifingu sem sýnir öryggisbilið.

Dreifing á hlutfalli smitaðra

Verri fréttirnar eru að það bættust við sjö smitaðir yfir sjötugt. Líklega þarf ekki að brýna það fyrir lesendum þessara pistla mikilvægi þess að fólk á þessum aldri hitti sem fæsta meðan á þessu stendur. Við sjáum hvers vegna síðar í pistlinum. En nú er ekki tíminn til að hitta sem flesta eða bjóða fjölskyldu og vinum í mat.

Staðan 4.3

Hlutfallslega fjölgaði smitum mest á Vestfjörðum eins og fram hefur komið í fréttum.

Staðan í Evrópu

Á þremur myndum hér á eftir sést staðan í Evrópu. Á fyrstu myndinni sést fjöldi dauðsfalla á milljón íbúa. Myndin sýnir greinilega að staðan er langverst á Spáni og Ítalíu, en Frakkland, Belgía og Holland skera sig greinilega úr öðrum löndum. Staðan í Austur-Evrópu er enn sem komið er miklu betri en í vesturhluta álfunnar.

Fjölgun dauðsfalla í Evrópu

Næsta mynd sýnir hvar dauðsföllum hefur fjölgað mest í álfunni. Þau lönd sem verst líta út eiga það flest sameiginlegt að þar eru fá dauðsföll fyrir. Myndin sýnir að í Belgíu er staðan verst, en í Frakklandi, á Bretlandi og í Portúgal er hraðinn meiri en að meðaltali í álfunni. Hann er enn mestur í Bretlandi.

Fjölgun dauðsfalla í Evrópu

Þegar skoðuð er fjölgun smita sést að hún er almennt hraðari í Austur-Evrópu en í Mið-Evrópu, en frá Portúgal og norður til Finnlands sést „ás hraðra smita“ vestanmegin.

Fjölgun smita í Evrópu

Oftalin dauðsföll eða ekki?

Í gær skrifaði ég um pælingar um hvort dauðsföll vegna Covid-19 væru vantalin. Þetta vakti nokkrar umræður á FB, meðal annars þessa athugasemd: „Þetta er flókið. Margt fólk með undirliggjandi sjúkdóma deyr úr lungnabólgu. Ef sjúklingur með langt gengið krabbamein fær Covid19 og lætur lífið, deyr hann úr veirusjúkdómnum eða krabbameininu? Meðfylgjandi eru gögn frá Sviss sem segja 97% þeirra sem deyja, vera með undirliggjandi alvarlegt ástand.“

Myndin er þessi:

Dauðsföll í Sviss eftir aldri

Einföld snörun á íslensku segir að miðaldur þeirra sem látast í Sviss sé 83 ár, en 97% hafi átt við undirliggjandi vandamál að etja. Háan blóðþrýsting (69%), hjarta- og æðasjúkdóma (55%) og sykursýki (29%).

Myndin er áhugaverð því að hún sýnir að hættan er fremur lítil fyrir fólk undir sextugu (og líklega undir 65 ára).

Túlkunin er auðvitað spurning um greiningu. En Cuomo ríkisstjóri í New York sagði eitthvað á þessa leið: „Jú, þetta fólk var líklegra til að deyja, en ekki endilega núna.“

Þeim sem ekki eru gamlir eða með undirliggjandi sjúkdóm líður betur að sjá svona tölur, en margt fólk með undirliggjandi sjúkdóma, astma, sykursýki, hjartveiki hefði kannski átt langt líf eftir.

Dánartíðnin er óneitanlega hærri en í venjulegu ári á gröfunum sem ég birti í gær, þannig að hvort sem fólkið deyr af Covid-19 eða Covid flýtir fyrir, þá kemur það eins út fyrir þá sem deyja. Þeir deyja fyrr en ella.

Með þessari nálgun er hugsunin sú að fólk sem hefði átt skammt eftir ólifað deyi fyrr en ella. Í grein á Medium.com er viðbótaráhættan metin sem eins árs dánarálag. Greinin er að vísu skrifuð fyrir nokkrum vikum þannig að hugsanlega þarf að skoða forsendur upp á nýtt þegar upp verður staðið.

Aðeins í lokin. Í Bandaríkjunum er útbreiðslan enn á miklum krafti og líklega fer heildarfjöldi látinna yfir 10 þúsund í dag. Nú eru um 500 Tyrkir látnir og hraðinn á útbreiðslu veirunnar er mikill. Erdogan reyndist ekki sannspár.

Breska drottningin var glæsileg í sjónvarpsávarpi í kvöld. Hún flutti líka ávarp í seinni heimsstyrjöldinni. Á sama tíma var Boris Johnson lagður á sjúkrahús vegna sjúkdómsins. Þeir sem efast um að veikin sé skæð ættu að horfa á myndbönd af honum undanfarna daga.

Fyrri greinar mínar um Covid-19:

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.