Sérfræðingateymið sem spáð hefur fyrir um útbreiðslu Covid 19 á Íslandi hefur ekki gefið út spá um fjölda látinna. Sóttvarnarlæknir reiknaði á sínum tíma með 15 látnum hér með því að nota tölur frá Wuhan (sem nú hafa verið hækkaðar um 50%). Ég ber saman tölur á Íslandi og víða erlendis.
Tölur dagsins
Tölur dagsins af Covid-veirunni hér á landi eru flestar í rétta átt. Virkum smitum fækkaði um 66 eða 11% og hefur fækkað um helming á tíu dögum. Á sama tíma hafa 168 ný smit greinst eða 17 á dag. Í gær voru þau 15 þannig að líklega er þetta talan sem sóttvarnarlæknir lítur á þegar hann segir að „faraldurinn rýrni hægt“. Svo er á það að líta að þeir sem veikastir verða munu líklegast líka verða lengst með virkt smit, þannig að jafnvel þó að nýsmitum fækki (og þó að þau færu niður í núll) má búast við því að virk smit verði þó nokkur langt fram eftir maí.
Það hefur líka fækkað á gjörgæslu niður í átta og nú eru 35 á sjúkrahúsi vegna veirunnar. Þetta er undir spám um stöðuna á þessum tíma, sem eru góðar fréttir. Því miður kom líka fram að látnum hefði fjölgað um einn og nú hafa níu alls dáið af völdum veirunnar.
Ég hef alloft vísað í viðvörun á síðu spálíkansins: „Smávægileg hliðrun aldursdreifingar í átt að fleiri greindum smitum meðal einstaklinga yfir sextugt myndi auka álag á heilbrigðisþjónustu talsvert.“ Síðar í þessum pistli mun ég fara yfir alvarleika þessa máls, ekki síst vegna þess að í dag bárust fréttir um að heimsóknabann hefði verið rofið á Ísafirði. Samkvæmt frétt var heimsóknarbannið var rofið með þeim hætti að aðstandendur hittu ástvin utandyra og héldu að það væri óhætt. Ekki eru fregnir af því hvernig heimsókninni var háttað að öðru leyti, en ef aldrað fólk smitast eru dánarlíkur svo miklar að engin ástæða er til þess að storka örlögunum.
Það eru ekki of fáir dánir af veirunni á Íslandi. Með ábyrgri hegðun getum við haldið þeim í lægri kantinum, en eins og við sjáum hér á eftir er það ekki sjálfgefið.
Mælaborðið góða er nú allt jákvætt, rauntölur eru allar undir 80% af spá. Það er auðvitað jákvætt að spárnar séu fremur íhaldssamar, en við höfum líka verið heppin (og örugglega verið farið varlega og skynsamlega að miklu leyti vegna leiðsagnar sérfræðinga).
Hvar batnar fólki hraðast?
Eins og bent var á hér að framan hefur fjöldi virkra smita helmingast á 10 dögum. Ef við horfum á alla þá sem hafa smitast (staðfest smit) þá hefur nærri 70% þeirra þegar batnað. Það hefur komið fram ítrekað að hér á landi er mjög mikið prófað og því líklegt að miklu hærra hlutfall smitaðra finnist hér en annars staðar. Þess vegna eru tölurnar á myndinni hér á eftir ekki fyllilega samanburðarhæfar milli landa. Svo er líka hugsanlegt að tölfræðin sé ekki jafnvönduð í öllum löndum. Kínverjar tilkynntu til dæmis í dag að þeir hefðu vantalið látna um 50%.
Í fyrradag sagði landlæknir „að heilbrigðisyfirvöld hefðu ekki ástæðu til annars en að leggja traust á tölur um smit frá Kína. Við höfum auðvitað byggt mikið af okkar þekkingu á gögnum sem komu þaðan. Hingað til hef ég ekki hnotið um neitt sem ekki stenst.“
Ég veit ekki hvort landlæknir var að svara fullyrðingu Kára Stefánssonar á sama fundi um að mótefnamælingar „sýni fram á að um sex sinnum fleiri smit hafi komið upp en yfirvöld hafa greint frá“. Fréttirnar í dag frá Kína benda til þess að ýmislegt hafi ekki staðist í tölunum frá Kína. Samkvæmt grein í New York Times telur CIA í Bandaríkjunum að stjórnvöld í Kína viti ekki sjálf hvaða tölur eru réttar. Embættismenn í Wuhan og annars staðar ljúgi til um tölur um smitaða, próf og dauðsföll af ótta við refsingar ef tölurnar eru háar.
Ástæða er til þess að ætla að víða sé tölfræðinni ábótavant, líka í Bandaríkjunum, en myndin hér á eftir gefur engu að síður hugmynd um hvar þjóðir eru staddar í sýkingaferlinu. Ég litaði súlurnar fyrir Norðurlöndin og Grænland þannig að þær eru fljótfundnar.
Samkvæmt þessu standa Færeyingar og Grænlendingar afar vel. Nokkur Asíulönd koma næst með um og yfir 70% hafi batnað. Ísland er á góðum stað í þessum samanburði. Til dæmis segja Danir og Finnar að einungis helmingur smitaðra sé laus við veiruna og í Svíþjóð og Noregi eru það innan við 10% samkvæmt þessum tölum. Helst dettur manni í hug að þarna hafi stjórnvöld gleymt að skila skýrslum eða fylgist ekki vel með smituðum.
Bretar og Bandaríkjamenn hafa átt erfitt með að fá próf sem virka. Bretar hafa eytt tugum milljóna dala á gölluð próf frá Kína. Bretar skila greinilega ekki tölum um þá sem hefur batnað og Bandaríkjamenn hljóta að vera á eftir með það.
Hvort er dánartíðni á Íslandi há eða lág?
Miðað við tölur víða annars staðar ættu miklu fleiri að hafa látist á Íslandi en raun ber vitni. Við berum okkur oft saman við Bandaríkin og deilum með þúsund (sem er ekki alveg rétt lengur, en gefur hugmynd). Þar hafa samkvæmt nýjustu tölum dáið 36 þúsund manns. Samkvæmt því ættu dauðsföll á Íslandi að vera milli 36 og 40.
Við getum farið yfir mörg lönd og skoðað dánartíðni. Í langflestum tilvikum eru dauðsföll hér á landi miklu færri en vænta mætti ef borið er saman við þau lönd þar sem faraldurinn hefur höggvið stærst skörð.
Á myndinni hér að neðan hef ég reiknað hve mörg dauðsföll væru á Íslandi miðað við fólksfjölda samanborið við nokkur Evrópulönd og Bandaríkin.
Það er greinilegt að staðan hér er býsna góð, enn sem komið er. En hvað skýrir þessa góðu stöðu? Meginskýringin er að hér á landi hefur tekist vel að vernda viðkvæma hópa, aldraða og þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma.
Í gær voru níu látnir á Íslandi. Enginn veit hver er „rétt“ dánartíðni eftir aldri. Eins og kom fram hér að framan skortir mikið upp á nákvæmni í tölfræði um smitaða og jafnvel látna. Á vefsíðu tókst mér að finna tölur sem byggðar eru á fjórum löndum, Spáni, Ítalíu, Kína og Suður-Kóreu. Ég hef enga sérstaka trú á þessum tölum, nema sem fyrstu nálgun við raunveruleikann, enda er talsverður munur eftir löndum. Tölurnar eru líka frá því í mars og gætu hafa breyst síðan. Að öllu þessu sögðu eru þær svona:
Þetta þýðir að undir fimmtugu er dánartíðni þeirra sem smitast mjög lítil, en hækkar svo og fer upp í 16% fyrir fólk yfir áttræðu sem smitast. Íslenska kúrfan er svipuð, en lægri.
Ef útlenda dánarkúrfan er notuð til þess að finna út væntanlegan fjölda látinna á Íslandi miðað við raunveruleg smit sést á myndinni hér á eftir að í nánast öllum aldurshópum hafa dáið færri hér á landi en búast hefði mátt við.
Samkvæmt þessari mynd hefðu dauðsföll átta vera 19 til þessa en eru nú níu. Einhver kann að benda á að ekki séu öll kurl komin til grafar um dauðsföll hér á landi, en það á líka við erlendis, þannig að myndin gefur til kynna að vel hafi tekist til hér á landi við hjúkrun og lækningu smitaðra. Vel að merkja hafa mörg próf á Íslandi sitt að segja. Við höfum fundið smitaða sem annars staðar hefðu ekki verið prófaðir.
Fyrir nokkrum vikum heyrði ég í Bandaríkjamanni sem hringdi inn til BBC og sagðist vera staddur í Eistlandi. Þar voru þá um 300 smitaðir að hans sögn og menn gerðu ekkert mál úr þessu. Ekki veit ég hvað var rétt í hans frásögn en hann virtist vera á svipaðri línu og forseti hans hafði verið eilítið fyrr. Þetta væri bara flensa.
Eistar gefa út nákvæmar tölur eins og Íslendingar. Þar eru staðfest smit 1.469 sem er svipuð stærðargráða og á Íslandi. Þeir hafa þó prófað miklu færri en Íslendingar. Á vefsíðu má finna kyn- og aldursdreifingu smitaðra þar. Ég ber hana á myndinni hér á eftir saman við dreifinguna á Íslandi.
Það er sláandi að á Íslandi eru miklu fleiri ungir sem hafa smitast svo staðfest sé. Að öðru leyti er dreifingin svipuð upp á sjötugu. Eftir það er mikill munur. Á Íslandi eru 5% hópsins yfir sjötugu, á Eistlandi 20%.
Miðað við tölurnar um dánartíðni er þetta sláandi munur. Á Íslandi hefur verið lögð mikil áhersla á að verja aldraða og samkvæmt myndinni hefur það tekist bærilega. Ef smitin hefðu dreifst eins hér á landi og hjá Eistum væru dánartölur sem hér segir:
Við værum komin yfir 50 látna, en talan er 9. (Rétt er að fram komi að sambærilegur útreikningur á Eistland gefur 45 látna miðað við fjölda smitaðra, en raunverulegur fjöldi látinna þar er 38 í dag). Þetta undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að halda veirunni frá elli- og hjúkrunarheimilum. Ein heimsókn getur breytt rauðu línunni í þá bláu. Þess vegna skulum við hlusta á Þórólf, Víði og Gylfa Ólafsson á Ísafirði.
Fyrri greinar mínar um Covid-19:
- AF LITLUM NEISTA VERÐUR MIKILL ELDUR
- HÁLFLEIKUR?
- ÍSLAND Í HÓPI FIMM HÆSTU
- ER HÁPUNKTI NÁÐ?
- ÞAÐ ER ERFITT AÐ SPÁ, SÉRSTAKLEGA UM FORTÍÐINA
- GJÖRGÆSLA
- VEIRAN VINNUR EKKI Á OKKUR …
- ER FJÖLDI DAUÐSFALLA VANMETINN?
- ÞAÐ GÆTI VERIÐ VERRA. HVAÐ EF …
- HVENÆR ENDA ÞESSI ÓSKÖP – OG HVERNIG?
- HVERNIG VERÐUR SEINNI BYLGJAN?
- ÞETTA ER ALLT AÐ KOMA – NÝTT LÍKAN OG FÓLKI BATNAR
- HVERNIG STENDUR ÍSLAND SIG MIÐAÐ VIÐ ÖNNUR LÖND?
- GÓÐAR COVID FRÉTTIR OG VERRI
- ER EITTHVAÐ AÐ MARKA SPÁR UM COVID?
- HVERJAR ERU LÍKURNAR Á SMITI?
- SMIT OG SÓTTKVÍ NÆR TVÖFALDAST Á FJÓRUM DÖGUM – STAÐAN EFTIR LANDSHLUTUM
- FLEIRI SMITAÐIR EN SPÁR GERÐU RÁÐ FYRIR