Það er gaman þegar vel gengur

Í þrengingum eins og núna skiptir ekki litlu máli að starfsmenn leggist á eitt með stjórnendum fyrirtækja að sigla út úr kreppunni. Vísindin frá því fyrir kreppu voru, að til þess að fyrirtæki græddu, þyrfti að borga stjórnendum bónusa, helst himinháa. Nú hafa komið upp miklar efasemdir um gildi slíkra bónusa. Ofurlaunin eru talin ýta undir firringu sem leiðir aftur til þess að stjórnendurnir fjarlægjast það raunveruleikamat á peningum sem þeim er nauðsynlegt. Hófleg umbun er hins vegar góð hvatning.

Í könnun meðal stjórnenda sem sagt er frá í Harvard Business Review kemur fram að þeir töldu flestir að hvatning og umbun væri það sem gæfi starfmönnum mesta ánægju. Þetta reyndist ekki rétt.

Best að ná árangri

Það kann að koma stjórnendum á óvart að stór könnun sem sagt er frá í sama blaði leiddi í ljós að ánægðastir voru starfsmenn þá daga sem þeim miðaði vel með verkefni sín. Þetta eru góðar fréttir. Á slíkum dögum voru 76% starfsmanna ánægð, en á dögum þar sem lítið miðaði var aðeins fjórðungur kátur. Það er sannarlega ánægjuefni því að þarna fer saman það sem skiptir fyrirtækin mestu og það sem gleður starfsmanninn mest. Í þessu sambandi skiptir það miklu máli að árangur sé mælanlegur þannig að við verkefnin sjái starfsmenn högg á vatni. Fyrir löngu er þekkt að þegar menn vinna dægrin löng við sömu verkefnin, til dæmis á færibandi, getur það haft niðurdrepandi áhrif á starfsmanninn. Það gæti hins vegar breytt viðhorfi hans ef hann sæi í lok dags framleiðsluna (til dæmis fullbúna bíla í bílaverksmiðju eða fulla gáma til útflutnings á fiski) og vissi að það væri m.a. hans framlagi að þakka. Oft er þetta ekki praktískt en upplýsingar um hve mikið er framleitt á hverjum degi skipta miklu máli.

Í fræðslumynd um veiðiferð ensks togara kom fram að á hverjum degi fylgdust sjómennirnir náið með því hver heildaraflinn var orðinn. Þeir voru lúpulegir þegar þeir þurftu að halda til heimahafnar með hálffullt skip, en brúnin léttist aftur þegar óveðri slotaði og þeir gátu siglt út á miðin aftur og fyllt dallinn. Kannski segir þessi saga okkur að hvort tveggja hjálpar: Meðvitund um hvernig gengur og hlutdeild í árangri. Það er gaman þegar vel gengur

Takið á með fólkinu

Kannski kemur mörgum stjórnendum það á óvart að starfsmenn vilja ekki bara fá hrós heldur skiptir það þá líka miklu máli að fá stuðning. Ef yfirmaðurinn brettir upp ermar og hellir sér út í verkefnið með starfsmönnum er líklegt að betur gangi en venjulega. Ekki bara vegna þess að yfirmaðurinn fylgist með að aðrir vinni eða að margar hendur vinni létt verk, heldur ekki síður að hópurinn skynjar að það er mikilvægt að ná árangri. Þess vegna skiptir það miklu máli að skipta verkum upp í áfanga sem hægt er að ljúka innan skynsamlegra tímamarka. Í húsbyggingum er leiðinlegast að vinna við grunninn vegna þess að þá sést lítið hvernig gengur. Þegar hæðirnar rísa hins vega hver af annarri fara starfsmenn glaðir heim á kvöldin.

Það er mikilvægt að samskipti yfir- og undirmanna séu mikil og skýr. Ef menn vita hvers er vænst af þeim og fá skýr markmið og aðstoð til þess að ná þeim eru góðar líkur á því að þeir nái betra verki, meiri afköstum og fari glaðari heim en ella. Auðvitað finnst öllum lofið gott. En meiru skiptir þó að þeir finni sjálfir að þeir hafi náð góðum árangri.


Birtist fyrst í 5. tbl. Vísbendingar 2010.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.