Ekki er mark að tölum

Próf halda áfram á fullu og enn eru ný tilvik um 10 á dag. ÍE hefur undanfarna daga prófað um þúsund manns á dag og er nú með úrtak í gangi. Undanfarna 13 daga hafa rúmlega 0,2% að meðaltali komið út jákvæð í prófum ÍE. Næstu 13 daga þar á undan voru álíka mörg próf en prósentan 0,9%, um fjórum sinnum hærri. En þó að fjöldi tilvika og prósentan virðist ekki há er hún samt ekki komin niður undir núllið.

Um líkön og spár

Enn eru rauntölur um virk smit undir nýjustu spá, en lagið á kúrvunni en nánast það sama og spáð var. Með þessu áframhaldi verða virk smit komin nálægt 200 eftir viku.Virk og raun 18.4Enn eru ferlarnir um þá sem hefur batnað og þá sem smituðust 15 dögum áður nánast í takt, en eins og sést hér að neðan hefur myndast svolítið bil á milli ferlanna. Þetta skýrist af því að þeir sem eru mjög alvarlega veikir hækka meðaltímann.

Sýktir og batnað 18.4

Íslenskur tölfræðingur hefur að orðtaki: „Ekki er mark að tölum.“ Þetta táknar ekki að hann hafi enga trú á sinni fræðigrein, heldur hitt að við vitum mjög oft ekki hvað tölurnar tákna, tölur sem við sjáum af ýmsum uppruna.

Um allan heim velta menn fyrir sér spám og hve erfitt er að spá þegar töluleg gögn eru mjög víða gölluð. Sum lönd telja bara þá sem deyja á sjúkrahúsum og hafa sleppt hinum sem deyja í heimahúsum eða á elliheimilum. Margir deyja án þess að sjúkdómsgreining sé rétt og svo eru sum lönd sem líklega falsa tölur af einherjum ástæðum eins og rakið var í síðasta pistli.

Í þessari grein fjallar höfundur um erfiðleikana við að teikna S-laga kúrvur, en þær lýsa til dæmis heildarfjölda þeirra sem smitast (og dauðsföllum), hröð fjölgun fyrst, svo línuleg þróun og loks fletjast þær út. Hún vitnar í tölfræðinginn George Box sem sagði: „Öll líkön eru röng, en sum eru gagnleg.“

Hinn merki sérfræðingur dr. Anthony S. Fauci, sem Trump leyfir stundum að vera með sér á fundum tekur í sama streng: „Öll líkön eru bara líkön. Þegar maður fær ný gögn breytir maður þeim.“

Þetta er eðli tölfræðinnar. Hún kemur inn sem feikilega gagnlegt tæki til aðstoðar, en hún verður aldrei betri en upplýsingarnar sem hún byggir á. Líkönin verða aldrei betri en gögnin. Nýjar mælingar leiða mjög oft til nýrra líkana, en þau verða líka röng þó að þau séu nákvæmari og gagnlegri en þau fyrri.

Á hvaða aldri eru þeir sem smitast?

Á fundi þríeykisins svonefnda var á laugardaginn bent á að hér á landi eru tiltölulega margir ungir smitaðir. Skýringar geta verið tvær. Annars vegar sú sem gefin var í skyn á fundinum að ungt fólk færi ekki nógu varlega. Hins vegar að hér eru miklu fleiri próf á fólki en víðast annars staðar sem ekki verður mjög alvarlega veikt. Á myndinni hér á eftir sést hvernig smit dreifast eftir tímabilum. Fyrst eru skoðaðar tæplega þrjár vikur í lok febrúar og mars. Svo tímabilið frá 18. mars til 1. apríl og loks tíminn þangað til í gær.
Aldur og tími
Tölurnar eru hlutfall af aldurshópnum sem mælst hefur með smit. Á fyrsta tímabilinu (blái ferillinn) voru sárafáir aldraðir og ungir smitaðir. Miðtímabilið (appelsínuguli ferillinn) var virkasta smitskeiðið (til þessa). Lagið á honum er ekki ólíkt þeim fyrsta, en hann hefur allur lyfst upp, þar með taldir endarnir. Grái ferillinn, sem sýnir undanfarnar vikur, er svo tiltölulega flatur. Allir aldurshópar virðast smitast nokkuð jafnt. Enn og aftur er það áhyggjuefni að ekki tekst að halda efsta hópnum alveg í núlli, því að þar er viðkvæmasta fólkið.

Hve margir veikjast alvarlega?

Eins og svo margt annað er svarið við þessari spurningu óljóst vegna þess að sums staðar eru próf annað hvort í molum eða verulega ábótavant. Engu að síður birtist eftirfarandi mynd á erlendri vefsíðu sem veltir fyrir sér tölum:

Alvarleiki Kína

Myndin sýnir skiptingu samkvæmt kínverskum tölum í mild einkenni, sjúkrahúslegu og gjörgæslu. Nú er ég ekki viss um að allir þeir sem hafa smitast skrifi upp á að sjúkdómurinn hafi verið „mildur“, þó að þeir hafi ekki þurft að leggjast á sjúkrahús. Þvert á móti hafa sumir sagt að þeir myndu ekki einu sinni óska versta óvini sínum slíkra einkenna.

Ég teiknaði því mynd sem sýnir skiptinguna á Íslandi fram til þessa í þá sem hafa lagst á spítala, farið í gjörgæslu og látist. Gera má ráð fyrir því að alvarlegu tilvikin séu hlutmengi í hinum, þ.e. þeir sem hafa dáið hafi flestir verið á gjörgæslu og allir á gjörgæslu að sjálfsögðu á sjúkrahúsi.

Alvarleiki 18.4

Íslensku tölurnar eru þá þannig að 6% hafa verið lögð á sjúkrahús, 1,7% farið í gjörgæslu og loks hálft prósent sem hefur látist. Þetta eru miklu lægri tölur en frá Kína, sem styrkir enn þá kenningu að tölurnar þaðan séu ekki allar sem áreiðanlegastar, hvort sem það var viljandi eða ekki.

Fyrri greinar mínar um Covid 19:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.