Nefndir, ráðalaust sukk og óhófleg skriffinnska

Spilling og sukk eru ekki glænýtt fyrirbæri, en ég hélt í einfeldni minni að það að þæfa málin í nefnd væri nýtt fyrirbæri, líklega upprunnið frá krötum í Svíþjóð. Nú í vetur hef ég lesið heimsbókmenntirnar af kappi (bækur sem maður verður að hafa lesið áður en maður deyr) og ein þeirra er Anna Karenina eftir Tolstoy. Í 2. bindi þess stórvirkis er kafli sem sannar að í stjórnsýslunni er ekkert nýtt á 21. öldinni.

Ég styðst við íslenska þýðingu eftir Magnús Ásgeirsson, 2. bindi af fjórum í íslensku útgáfunni, útgefið 1942. Feitletranir og greinaskil eru frá mér til þess að auðvelda lestur. Annað er upprunalegt. Rétt er að taka það fram að allir atburðir og persónur sögunnar eru uppspuni frá rótum og líkindi við Ísland á 21. öldinni eru bara til í hugskoti lesandans.


Nú hafði svo borið við í hinni frægu nefnd frá 2. júní, að áveitumálum Sarajskfylkis, er ráðuneyti Karenins átti um að fjalla að réttu lagi, hafði verið hreyft þar af öðru ráðuneyti. Átakanleg dæmi um ráðalaust sukk og óhóflega skriffinnsku höfðu verið dregin fram í sambandi við þessi mál, og Karenin vissi, að sú gagnrýni átti við rök að styðjast. Stofnað hafði verið til áveitunnar á akurlöndin í Sarajskfylki af þeim ráðherra sem næstur var á undan fyrirrennara Karenins.

Stórfé hafði verið og var enn ausið í fyrirtækið til engra nytja, og augljóst var, að það mundi aldrei geta borið sig né komið að gagni. Þegar Karenin hafði tekið við ráðherraembætti sá hann þetta von bráðar og hugðist stöðva þessar fjárveitingar, en jafnframt gerði hann sér ljóst að ekki væri hyggilegt að skerast í leikinn fyrr en hann væri orðinn fastur í sessi, þar eð málið varðaði hagsmuni fjölda manna.

Síðan hafði hann haft svo mörgu öðru að sinna, að hann hafði hreint og beint gleymt málinu. Allt hafði því hjakkað í sama farinu af gömlum vana, í samræmi við aldeyfulögmálið, svo sem títt er í þessum efnum. (Fjöldi manna hafði lífsviðurværi sitt af fyrirtækinu, einkanlega mjög siðavönd og sönghneigð fjölskylda, þar sem heimasæturnar léku allar á strengjahljóðfæri. Þessa fjölskyldu þekkti Karenin og hafði jafnvel verið svaramaður einnar systurinnar, þegar hún giftist.)

Í augum Karenins var það drengskaparlaust atferli, að óvinveitt stjórnardeild skyldi fara að fitja einmitt upp á þessu máli, því að í sérhverju ráðuneyti mátti benda á misfellur, miklu alvarlegri en þessa, án þess að nokkur maður hreyfði við þeim, þar eð slíkt hefði þótt brot á viðurkenndu velsæmi innan embættisstéttarinnar. En nú, er á hann hafði verið leitað, hafði hann brugðist harðmannlega við og farið fram á skipun sérstakrar nefndar til að rannsaka og gefa skýrslur um störf Sarajskáveitunefndainnar.

Jafnframt hugðist hann ná sér niðri á þeim höfðingjum, sem vakið höfðu málið. Hann hafði því einnig krafist þess, að skipuð yrði sérstök nefnd til þess að rannsaka stjórnarfarslega aðbúð minnihlutaþjóðflokkanna. Þetta þjóðflokkamál hafði borið á góma við umræður í nefndinni frá 2. júní og hafði Karenin þá lagt á það allmikla áherslu að það mál þyldi enga bið, svo bág kjör ættu þessir minnihlutaþjóðflokkar við að búa.

Málið hafði leitt til hvassra orðaskipta í nefndinni meðal ráðherranna. Þeir ráðherrar, sem andvígir voru Karenin höfðu haldið því fram að hagur þessara margnefndu þjóðflokka væri með hinum mesta blóma og fyrirhugaðar stjórnarfarsbreytingar myndu koma þeim á vonarvöl. Væri hins vegar kjörum þeirra að einhverju leyti ábótavant, ætti það aðeins rætur að rekja til þess að ráðuneyti Karenins hefði vanrækt að framfylgja fyrirmælum gildandi laga.

Nú ætlaði Karenin að fara fram á þessar aðgerðir:

Í fyrsta lagi: Að skipuð yrði ný nefnd til þess að kynna sér sem rækilegast hag hinna fámennu þjóðabrota heima fyrir á hverjum stað:

Í öðru lagi: Að skipuð yrði önnur nefnd, ef svo skyldi reynast við rannsókn fyrri nefndarinnar, að kjör þjóðernisminnihlutanna væru jafnbágborin og ráða mátti af þeim skýrslum og gögnum, er þegar voru fram komin, og skyldi þessi síðari nefnd vera skipuð mönnum með vísindalega þekkingu og hafa að hlutverki að rannsaka, hverjar væru orsakir ófremdarástandsins frá

  1. stjórnaréttarlegu,
  2. umboðsstjórnarlegu,
  3. hagfræðilegu,
  4. þjóðfræðilegu,
  5. efnalegu og
  6. andlegu sjónarmiði

Í þriðja lagi: Að skýrslu yrði krafist af hinu óvinveitta ráðuneyti um þær ráðstafandi, sem gerðar hefðu verið á síðast liðnum tíu árum til þess að koma í veg fyrir þau óhagstæðu kjör, sem þjóðabrotin ættu nú við að búa.

Og í fjórða og síðasta lagi: Að ráðuneytið yrði krafið skýringa um þær ástæður, er til þess lægju, að það hefði hagað aðgerðum sínum gersamlega andstætt orðum og efni stjórnskipunarlanganna (18. gr. B og athugasemd við 36. gr.), ein og berlega kæmi fram í greinargerður, sem lagðar hefðu verið fyrir nefndina, merktar tölunum 17015 og 18308, dagsettar 5. desember 1863 og 7. júní 1864.

Karenin roðnaði í framan af fjöri og kappi, meðan hann hripaði upp ágrip af hugleiðingum sínum. Þegar hann hafði fullskrifað stóra örk, reis hann á fætur, hringdi og sendi með miða til skrifstofustjóra síns, þar sem hann lagði fyrir hann að afla sér nauðsynlegra upplýsinga í viðbót.


Svona var ástandið í ráðuneytum í Rússlandi fyrir rúmlega 150 árum. Í Útvarpi Matthildi var frétt eitthvað á þessa leið árið 1972: „Til þess að einfalda starf hins opinbera hyggst ráðherra láta skrá umfang og fjölda allra nefnda ríkisins og hefur hann ákveðið að skipa nefnd til þess að stjórna úttektinni. Verður þessi nefnda nefnd nefnd nefnd nefndanna.“

Hvað ætli við séum komin langt á leið í framþróun á Íslandi árið 2020?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.