Flestar tölur voru jákvæðar á Íslandi í dag. Nýsmit voru aðeins fimm og í gær voru þau bara tvö. Sífellt fjölgar þeim sem batnar og á gjörgæslu eru nú aðeins fimm og 25 liggja á sjúkrahúsi. Því miður bárust líka fréttir af dauðsfalli á Vestfjörðum. Alls hafa nú 10 látist á Íslandi. En eins og staðan er í dag er faraldurinn á lokastigi. Spurningin er þá: Slöppum við af og fáum næstu bylgju? Og hvað næst? Hvenær er hægt að slappa af á ný? Gagnast það okkur?
Enn sjáum við að virkum smitum fækkar hratt, nokkurn veginn á sama hraða og spá sérfræðinga sagði til um, en toppurinn á þeirra spá er ofan við raunverulegan feril, en nánast á sama stað.
Næstu dagar verða vissulega mjög spennandi. Fara nýsmitin alveg niður í núll og ef svo verður, haldast þau þá þar?
Smit eftir landshlutum
Ein framsetning á þróun veirunnar er svonefnd hitakort. Þau sýna hvenær smitið breiðist hratt út og hvenær hægir á því. Á myndinni hér að neðan er græni liturinn þá daga sem ekkert smit bætist við og sá rauði þegar smitið breiðist hratt út.
Kassinn byrjar í lok febrúar og fyrstu dagana var veiran bara á höfuðborgarsvæðinu. Tilvikin voru fá, en hvert nýtt smit vó þungt. Um miðjan mars berst veiran til annarra landsvæða, síðast til Vestfjarða og Austfjarða. Fyrir austan eru smitin enn innan við tíu, en á Vestfjörðum urðu byggðarlög illa úti.
Í byrjun apríl færast flest byggðarlög í hægara smit (gula litinn) nema fyrir austan sjást einstaka gulir blettir, en það er eitt og eitt staðfest smit. Og auðvitað á Vestfjörðum sem er undanfarna viku sá staður sem verst hefur orðið úti. Neðsta línan sýnir landið allt, sem fer úr rauðu yfir í gult, en kemst ekki í grænan lit fyrr en smitin eru engin orðin. Þessi mynd er samt mjög uppörvandi.
S-kúrvan og dreifing smita
Í síðasta pistli nefndi ég svonefnda S-kúrvu sem kemur mjög við sögu í stærðfræðilíkönum í faraldsfræði. Hún lýsir ferli þar sem er hröð fjölgun fyrst, svo línuleg þróun og loks flest kúrvan út. Ég ákvað að sýna hana, en ef við skoðum útbreiðslu smita á Íslandi kemur hún einmitt út.
Á myndinni eru tveir ferlar. Annar (sá brúni) sýnir ný smit á hverjum degi (ég tek fimm daga meðalatal til þess að jafna út ferilinn) og sá blái sýnir uppsöfnuð smit. Tölurnar á vinstri ásnum sýna ný smit, þær á hægri ásnum smit samtals.
Við sjáum að fyrst fjölgar daglegum smitum hratt til 19. mars eða þar um bil. Þau haldast svo stöðug í hálfan mánuð eða til 3. apríl, en svo fer þeim fækkandi aftur. Blái ferillinn er því nærri fullkomin S-kúrva. Falleg uppsveifla fyrst, svo kemur beini kaflinn, þar sem fjöldi smita er stöðugur, og loks flest ferillinn út í lokin. Enn einu sinni er ekki annað en hægt að dást að því hvað stærðfræðilíkön fara nærri raunveruleikanum.
Hvenær er óhætt að ferðast?
Margir velta því fyrir sér hvenær lífið verði venjulegt aftur. Ekki vegna þess að yfirvöld leyfi samkomur og nálægð, heldur hvenær venjulegt fólk þorir að nálgast hvert annað með sama hætti og áður.
Í Washington Post í dag birtist könnun um skoðun Bandaríkjamanna á þessu. Niðurstöðurnar sjást á myndinni hér á eftir.
Aðeins um þriðjungur heldur að samkomubanni verði aflétt í lok maí. Um það bil sami fjöldi telur að það verði ekki fyrr en eftir lok júlí. Af sjálfu leiðir að ferðalög til útlanda fara hægar í gang. Þannig að ferðasumar fer ekki bara eftir ákvörðun yfirvalda heldur ekki síður því hvað fólk þorir að gera. Það sem kannski kom Íslendingnum spánskt fyrir sjónir var hve pólitíkin hefur mikil áhrif á skoðun fólks á þessu. Repúblikanar eru miklu bjartsýnni en Demókratar.
Í sömu könnun var spurt að því hvernig ríkisstjórar, alríkisstjórnin og Trump sjálfur hafi staðið sig.
Hér átti fólk að svara til um ríkisstjóra síns fylkis og rúmlega 70% eru ánægð með vinnubrögð síns manns. Cuomo, ríkisstjóri í New York, hefur staðið sig þannig að menn klóra sér í kollinum yfir því hvers vegna hann sé ekki forsetaframbjóðandi fremur en Biden.
Mjótt er á munum um það hvort alríkisstjórnin hafi staðið sig, en um það bil 10% fleiri töldu Trump hafa staðið sig illa en vel. Þessi niðurstaða vekur vissa virðingu fyrir Bandaríkjamönnum á ný.
Hvað er að gerast í heiminum?
Loks renndi ég yfir tölur víða í heiminum. Dauðsföllum og smitum fjölgar um 5% frá því á sunnudag, dauðsföllum hraðar í Norður-Ameríku, smitum hraðar í Afríku. Tölur benda þó til þess að í flestum, ef ekki öllum, ríkjum Bandaríkjanna hafi náðst að hægja á smiti.
Samkvæmt þessu er staðan best í Ástralíu þessa dagana.
Ég birti svo í lokin tvær myndir sem sýna stöðu mála í Evrópu.
Mjög hefur dregið úr dreifingu smita í vesturhlutanum, en í Austur-Evrópu er farsóttin skemmra á veg komin. Hvíta-Rússland sker sig úr.
Bretland, Svíþjóð og Finnland eru líka verr stödd en Þýskalandi, Noregur, Danmörk og Ísland.
Loks lítum við yfir þróun dauðsfalla síðustu daga (frá sunnudegi til þriðjudags). Myndin er ekki ólík. Mikil fjölgun er í Finnlandi (í Lettlandi voru dauðsföll svo fá fyrir að fjögur í viðbót voru há prósenta).
Við sjáum á þessari mynd að þunginn er meiri í Austur-Evrópu, en tölur geta verið skrítnar. Eitt dauðsfall á Íslandi setur landið í hóp með þeir sem verst standa þessa daga. Vonandi er það ekki fyrirboði um þróun hér á landi, þegar allar aðrar tölur líta vel út.
Fyrri greinar mínar um Covid-19:
- EKKI ER MARK AÐ TÖLUM
- OF FÁIR DÁNIR Á ÍSLANDI?
- AF LITLUM NEISTA VERÐUR MIKILL ELDUR
- HÁLFLEIKUR?
- ÍSLAND Í HÓPI FIMM HÆSTU
- ER HÁPUNKTI NÁÐ?
- ÞAÐ ER ERFITT AÐ SPÁ, SÉRSTAKLEGA UM FORTÍÐINA
- GJÖRGÆSLA
- VEIRAN VINNUR EKKI Á OKKUR …
- ER FJÖLDI DAUÐSFALLA VANMETINN?
- ÞAÐ GÆTI VERIÐ VERRA. HVAÐ EF …
- HVENÆR ENDA ÞESSI ÓSKÖP – OG HVERNIG?
- HVERNIG VERÐUR SEINNI BYLGJAN?
- ÞETTA ER ALLT AÐ KOMA – NÝTT LÍKAN OG FÓLKI BATNAR
- HVERNIG STENDUR ÍSLAND SIG MIÐAÐ VIÐ ÖNNUR LÖND?
- GÓÐAR COVID FRÉTTIR OG VERRI
- ER EITTHVAÐ AÐ MARKA SPÁR UM COVID?
- HVERJAR ERU LÍKURNAR Á SMITI?
- SMIT OG SÓTTKVÍ NÆR TVÖFALDAST Á FJÓRUM DÖGUM – STAÐAN EFTIR LANDSHLUTUM
- FLEIRI SMITAÐIR EN SPÁR GERÐU RÁÐ FYRIR