Hann er svo ótrúlega vitlaus …

Ekki er hægt að segja að Covid-tölur valdi vonbrigðum. Engin ný smit fundust í fyrradag og aðeins þrjú í gær, að vísu ekki mjög margir teknir í próf fyrri daginn, en síðustu fimm daga hafa aðeins greinst sjö smit alls, það er enginn í gjörgæslu, enginn í öndunarvél og bara 11 á sjúkrahúsum. Það lítur vel út með 4. maí. Mér finnst það vel við hæfi að þjóðin fái meira frelsi á afmælisdaginn minn.

Fyrirsögnin? Ég sá þetta á FB í gær, það vita allir um hvern er verið að tala, en ég ætla ekki að skrifa um hann í dag. En það eru fleiri kjánalegir.

Eiginlega það eina sem setur skugga á daginn er að í gær var ég að bíða eftir afgreiðslu á matsölustað þar sem allir pössuðu bil nema þrjú sem vildu endilega standa í hnapp. Konan þurfti að bíða eftir posanum og arkaði þá fram og aftur og virtist ekkert taka eftir því að aðrir bökkuðu á víxl eftir því sem hún nálgaðist.

Aðalhættan er sú að fólk haldi að allt sé orðið óhætt. En meðan smitin eru ekki komin niður í núll í nokkra daga verða allir að haga sér skynsamlega. Ekki bara hinir.

Mælaborðið er í góðu lagi:

Staðan 27.4.

Um daginn birti ég hitalínurit yfir þróun smita eftir landshlutum. Nú birti ég sambærilegt línurit fyrir smit eftir aldri. Myndin nær frá 28. febrúar til 27. apríl. Elstu og yngstu hóparnir hafa haldist bestir undanfarna daga. Rauði liturinn sýnir hraða aukningu, sá græni óbreytt ástand.

Hitakort 28.4

Ef vel er að gáð þá eru skilin á milli rauða og gula litsins í kringum 6. apríl, en þann dag voru einmitt flest virk smit.

Spáð og spekúlerað

Ég hef áður fjallað um það að víða erlendis er talað um að fjöldi látinna sem vanmetinn. Í sumum löndum er þeim sem deyja á elliheimilum sleppt og líka þeim sem deyja heima hjá sér. Sagt er að í Kína hafi mörgum verið sleppt vegna þess að læknar hafi ekki áttað sig á því hvers eðlis dánarorsökin var. Allt í einu var 5 þúsund manns bætt við látna í New York.

Nú heldur Andrew Cuomo ríkisstjóri í New York því fram að fimmtungur íbúa í New York borg hafi mælst með mótefni við veirunni byggt á 3.000 manna úrtaki.

Eftir að Svíar reyndust hafa blandað saman sýnum smitaðra við sitt handahófsúrtak hikar maður við að trúa niðurstöðum fyrr en þær hafa verið sannreyndar, helst ítrekað. Það er spennandi að verða vitni að nýjum vísindauppgötvunum í beinni útsendingu, en jafnframt sést hvað falsspámenn, sérvitringar og lýðskrumarar ganga langt í yfirlýsingum og hreinni þvælu.

Svo heyrði ég frá félaga mínum frá Suður-Afríku í dag. Þar hefur dauðsföllum fækkað vegna þess að færri deyja í bílslysum og morðum hefur fækkað meðan á sóttkví stendur. Fátt er svo með öllu illt …

En það eru ekki bara vitleysingar sem hafa rangt fyrir sér á svona tímum. Færustu vísindamenn heims, hver á sínu sviði, reyna að finna sannleikann, en eru svo langt hver frá öðrum að þeir geta ekki allir haft rétt fyrir sér.

Í New York Times birtist nýlega grein um það hvenær veiran hefði náð fótfestu í Bandaríkjunum. Í byrjun mars höfðu fá tilvik greinst í fimm af stærstu borgum Bandaríkjanna. We have it all under control, var sagt á þeim tíma. (Já það var hann). Nánar tiltekið voru staðfest smit á þessum tíma 23 í Boston, Seattle, Chicago, San Francisco og New York.

Nú telja vísindamenn í Northeastern háskólanum að talan hafi verið nær 28 þúsund á þeim tíma. Bandaríkjamenn fara líka til Ítalíu og komu aftur til baka. Sannast sagna þótti manni ótrúlegt hve fá smit voru tilkynnt í Bandaríkjunum meðan þau voru af svipaðri stærðargráðu á Íslandi, en hefðu átt að vera nær þúsund sinnum fleiri þar. Og kannski voru þau það, en fólk var ekki prófað á þeim tíma. Myndin hér á eftir sýnir hugsanlegan mun!

Útbreiðsla smita

Hér á landi hafa nálægt 15% fullorðinna verið prófuð, en staðfest smit ekki nema um 0,5%. Einhverjir smitaðir hafa eflaust ekki farið í próf, kannski vegna þess að þeim fannst þeir ekki mjög veikir sjálfir eða af öðrum orsökum. Samt er ólíklegt útfrá úrtaksmælingum ÍE að sá hópur sé margfalt stærri og hér hafi þúsundir smitast (sem væri reyndar ágætt, ef fjölmargir mynda mótefni án þess að verða mjög veikir).

Þegar lönd víða um heim tilkynna að dánartíðni hafi hækkað mikið, jafnvel langt umfram þær tölur sem gefnar hafa verið upp sem fjöldi látinna af völdum kórónuveirunnar, er ekkert einkennilegt að fólk spyrji: Hvernig er staðan á Íslandi? Getum við trúað opinberum tölum?

Skoðum fyrst dánartíðni í ýmsum löndum af völdum Covid-19 samkvæmt Financial Times:

Dauði í ýmsum löndum

Að meðaltali sýnir línuritið 50% fleiri dauðsföll en í meðalári. Á Íslandi deyja að jafnaði milli 40 og 50 í viku hverri, sé miðað við tölur árin 2017-19. Því myndi maður gera ráð fyrir því að meðaltalið hefði hækkað þær vikur sem faraldurinn hefur geisað um 20 manns eða 80 til 100 viðbótar dauðsföll á fimm vikum.

Hagstofan gaf í liðinni viku út tölur um dauðsföll á Íslandi fyrstu 15 vikur ársins og til samanburðar tölur fyrir árin 2017-19. Þetta voru þarfar upplýsingar, því Ísland virðist vera eitt af fáum löndum á Vesturlöndum þar sem þessar tölur hafa ekki verið aðgengilegar. Vonandi verður bætt úr því í framtíðinni. Niðurstöðurnar sjást á myndinni hér á eftir.

Fjöldi látinna 15 vikur

Tölfræðingur sem liti á þessa mynd hefði haldið að faraldurinn hefði grasserað í annarri til fjórðu viku ársins, ekki frá 9. til 15. Rétt er að benda á að tilkynningar eru ef til vill ekki komnar inn í síðustu tveimur vikum samkvæmt frétt Hagstofunnar.

Myndin staðfestir það sem haldið hefur verið fram, að hér hefur tekist vel til við forvarnir, hjúkrun og lækningu.

Spár færustu manna

Erlendis hafa verið gerð fjölmörg spálíkön. Ekki þarf að efast um að allir sérfræðingar sem annt er um heiður sinn reyna að komast að sem réttastri niðurstöðu. New York Times sýndi á dögunum niðurstöður úr fimm líkönum. Án þess að fara út í smáatriði birti ég myndina hér að neðan:

Fimm líkön

Hún er nokkurra daga gömul (frá 22. apríl) Þar sjást fimm spár (lituðu línurnar) um dauðsföll í Bandaríkjunum. Það hefur ekki auðveldað störf spámanna að allt í einu bættust við fimm þúsund tilkynnt dauðsföll eins og ég gat um hér að framan. En burtséð frá því er augljóst að ferlarnir eru svo ólíkir að þeir gætu verið að lýsa fimm mismunandi aðstæðum. Imperial líkanið segir að dauðsföllum muni fjölga meðan hinir ferlarnir segja að þeim fækki (þeir halla niður).

Skoðum svo hvað gerðist. Á myndinni hér á eftir sjást annars vegar dagleg dauðsföll (blái ferillinn, hægri skalinn) og hins vegar heildarfjöldi dauðsfalla.

Bandaríkin 28.4

Hér eru „viðbótardauðsföllin“ með og við sjáum nokkra daga í viðbót. Líklega er spáin frá MIT skást fyrir þessa 4-5 daga sem liðnir eru. Takið eftir því að þrátt fyrir að blái ferillinn sé skörðóttur þá er S-ferillinn, sem sýnir uppsöfnuð dauðsföll, býsna fallegur. Hann er byrjaður að sveigja niður á við. Eða er það bara ný bein braut?

Ég smellti líka inn myndum fyrir Þýskaland og Frakkland.

Þýskaland 28.4

Ferillinn er reglulegri og maður hefur trú á því að Þjóðverjar séu í alvöru að ná ferlinum niður.

Frakkland 28.4

Frakkar hafa farið illa út úr veirunni, en hér sjást líka greinileg merki þess að ástandið sé að skána.

Hvað um spárnar um Ísland?

Ég fékk um daginn sent líkan sem útlendir tryggingastærðfræðingar settu saman til þess að spá fyrir um þróunina í ýmsum löndum. Forsendur eru staðlaðar en byggja þó á þróun á hverju svæði.

Ekki þarf að orðlengja það að líkanið var afleitt miðað við stöðuna 31. mars. Það spáði því að ferillinn næði hámarki 9. október og þann dag væru um 19 þúsund Íslendingar sýktir, álíka margir hefðu sýkst en batnað. Eftir ár væru um 1.800 látnir.

Miðað við 10. apríl spáði það að 1.515 hefði batnað, 270 væru enn smitaðir og 9 látnir. Réttu tölurnar eru 1.636, 149 og 10 dánir.

Miðað við 22. apríl segir það 1.637 hafi batnað í dag, 149 veikir og 10 dánir (en það er nánast með því að kíkja á svörin). Þann 4. maí segir það að 46 verði smitaðir og 1. júní er þeim síðasta að batna samkvæmt líkaninu.

Ég skrifaði einum af höfundum líkansins og sagði að mér fyndist það ekki sérstaklega nákvæmt. Hann svaraði mér að það hefði alls ekki átt að vera nákvæmt, heldur eins konar leikfang til þess að finna rétta stærðargráðu á stöðu mála. Ég hef ekki brjóst í mér til þess að segja honum að það virki ekki sérlega vel til þess heldur.

MIT (háskólinn í Massachusetts) birtir líka sundurliðaða spá eftir löndum. Þeir voru með skárstu spána fyrir Bandaríkin eins og fram kom hér að framan. Ég átta mig ekki á því hversu ný gögnin eru sem þeir setja inn.

Miðað við daginn í dag ætti ástandið á Íslandi að vera svona samkvæmt MIT: 1.524 manns hafi batnað, 324 enn með virkt smit, 11 dánir og 78 á spítala. Aftur réttu tölurnar: 1.636 batnað, 149 virk smit, 10 látnir og 11 á spítala. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega gott líkan, en það er með Bandaríkin rétt í dag.

Spáin fyrir Ísland er svona:

MIT Íslands spá

Ég held að óhætt sé að fullyrða að íslenska spálíkanið hafi verið betra.

Samt getur allt klúðrast, ef við pössum okkur ekki. Menn þurfa ekki að hegða sér kjánalega til þess að smitast. En það hjálpar, eins og Boris Johnson sannaði.

 


Fyrri greinar mínar um Covid-19:

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.