Ctrl Alt Delete eða frosið samfélag?

Ég heyrði um daginn í forstjóra eins stærsta fyrirtækis landsins. Þar var tækifærið núna nýtt til skynsamlegra breytinga á vinnulagi, breytinga sem vonlítið væri að gera í venjulegu árferði, nema á mörgum árum. Hann bætti við: „Svo er það spurning hvað heldur þegar neyðarástandinu lýkur.“

Klisjan segir: Í sérhverri ógn felast tækifæri. En það er ekkert gagn að tækifæri sem ekki er nýtt til almannaheilla. Það verður það fljótt eins og frískandi kaffibolli sem stendur á borði. Kólnar og enginn hefur lengur áhuga eða lyst á því.

Hugsum okkur að ný þjóð væri að koma til Íslands í fyrsta sinn vorið 2020, fólk sem byggi yfir allri þekkingu og tækni nútímans. Landið væri mannlaust, en húsin stæðu þar sem þau eru, bílarnir, skipin og flugvélarnar, allt til reiðu, en í híbýlunum byggi enginn, hvorki fólk né fyrirtæki. Eftir nokkra mánuði kæmu til landsins um 360 þúsund manns. Fólk á sama aldri, með sömu hæfileika og þekkingu og þeir sem búa á Íslandi núna, en þekkti ekki söguna, vissi ekkert um hefðirnar, stjórnmálaflokkana, verkalýðsbaráttuna eða atvinnuvegina. Markmiðið væri það eitt að nýta landið, með öllum sínum kostum og kynjum, sem best og sanngjarnast fyrir heildina. Leikreglurnar væru lýðræði, mannréttindi, skoðanafrelsi, jafnrétti, sjálfbærni.

Hvernig skyldi nýja þjóðin hegða sér? Er líklegt að hún myndi dreifa sér vítt og breitt um landið og ákveða að sumir hefðu meiri réttindi en aðrir? Að litlum hópi yrði leyft að nýta fiskimiðin gegn málamyndagjaldi en hirða afraksturinn? Að sumir fengju meiri atkvæðisrétt en aðrir? Að ákveðið yrði að flytja búpening til landsins og dreifa honum um fjöll og firnindi. Borgað yrði sérstaklega fyrir þessa iðju til þess að hindra það að landsmenn keyptu mat frá útlöndum, mat sem allir vissu að væri ódýrari, fjölbreyttari og jafngóður eða betri? Væri arðbært að stofna Seðlabanka og eigin gjaldmiðil?

Í upphafi væru allir jafnir og enga sérhagsmuni þyrfti að verja. Myndi hópurinn þá skipta sér upp í tíu stjórnmálaflokka? Væri hann líklegur til þess að ákveða að á landinu yrðu 100 verkalýðsfélög, að stofna svo fyrirtæki sem þyrftu jafnvel að semja við flestöll þessi félög? Væru 70 sveitarfélög snjallasta fyrirkomulagið? Stofnar þessi nýja þjóð fjóra gamaldags banka fyrir tæknivætt þjóðfélag? Er snjallt að setja 200 nýjar ríkisstofnanir á fót? Eða stofna sameiginlegt félag til þess að selja áfengi í sérstökum búðum (nema á Keflavíkurflugvelli þar mætti selja þennan hættulega vökva innan um aðrar vörur)?

Ef svarið við einhverjum af þessum spurningum er nei, hvers vegna gerum við þetta þannig núna? Eigum við ekki að nýta tækifærið, endurræsa kerfið og hætta að horfa á frosinn skjáinn? Við getum gert svo miklu, miklu betur.


Birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2020

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.