Ég hef verið iðinn við lestur undanfarna viku. Fyrst kláraði ég kverið um Sögu Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu. Sú bók varð tilefni til frekari lesturs um þetta áhugaverða fólk.
Natan, Satan eða Datan?
Natan er ekki heppilegt nafn því að auðvelt er að snúa út úr því. Það var oft gert við Natan Ketilsson sem var myrtur árið 1828 á bæ í Húnaþingi. Þetta morð hefur orðið öðrum morðum frægara því að tveir af morðingjunum voru teknir af lífi, þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson, og voru þau síðust Íslendinga til þess að hljóta þau örlög hér á landi.
Natan var ekki sérlega geðugur maður samkvæmt sögunni, mikill kvennamaður, ófyrirleitinn og hortugur, en talinn góður læknir, þó að hann hefði ekki formlega menntun á því sviði.
Hann og Skáld-Rósa (Vatnsenda-Rósa) áttu eitt, tvö eða þrjú börn saman. Hann hafði ráðið sig í vinnu til Rósu og Ólafs, manns hennar, en var fljótlega farinn að rekkja hjá húsfreyjunni. Rósa var í meira lagi skáldmælt. Frægasta vísa hennar er
Augun mín og augun þín
ó, þá fögru steina.
Mitt er þitt og þitt er mitt.
Þú veist hvað ég meina.
Þetta orti hún til Páls Melsteðs, sem sveik hana, fátæka sveitastúlku, fyrir dóttur amtmannsins. En Rósa eignaðist dótturina Pálínu Melentínu skömmu síðar og er lesendum látið eftir að ráða gátuna um faðerni hennar, en þegar hún fæddist voru Rósa og Ólafur fyrrnefndur gift. Hann virðist ekki hafa verið að velta sér upp úr smámunum í sambandinu.
Einn son Rósu (og líklega Natans) lét hún heita Rósant Berthold að sögn til þess að minna Natan sífellt á þeirra skemmtun:
Seinna nafnið sonar míns
sífellt þig á minni:
Oft var fáklædd eyja líns
uppi‘ í hvílu þinni.
Þetta minnti mig á það þegar gantast var með nafn Bertholds Brechts, þýska leikskáldsins, á menntaskólaárum mínum, en hann var heldur ómerkilegur pési í kvennamálum, líkt og Natan.
Undir ævilok Natans hafði hann líka svikið Rósu, en bjó með tveimur konum, Sigríði bústýru, 15-16 ára, og Agnesi vinnukonu, tvöfalt eldri. Brynjúlfur sem skrifar bókina sem ég las telur að Agnes hafi hrifist af Natani, en hann af Sigríði, sem Friðrik (17 ára piltur kominn af illmennum) hafi aftur á móti hrifist af líka.
Ekki ætla ég að rekja söguna af morðinu, en þau þrjú, Friðrik, Agnes og Sigríður sammæltust um að koma Natani fyrir kattarnef og þurftu að drepa Fjárdráps-Pétur líka, en hann var sakamaður sem beið dóms og var látinn sofa á Illugastöðum, þar sem Natan og konurnar tvær bjuggu. Svo kveiktu þau í húsinu til þess að fela verksummerki. Ég hvet fólk til þess að lesa bókina sem er tiltölulega stutt og fljótlesin.
Í eftirmála er svo vikið að því að ekki sé sem nákvæmast sagt frá morðinu, en ekki bætt úr heldur lesendum beint annað. Eggert Þór Bernhardsson sagnfræðingur skrifaði í Sögu árið 2013 og rekur að samkvæmt dómsskjölum hafi atvik verið nokkuð önnur en sagt var frá. Natan hafi vissulega samrekkt Sigríði, en ekki getið um Agnesi í rekkju hans. Þvert á móti hafi annar maður gist í hennar rúmi á ferðum sínum og heimsóknum á Illugastaði. Natan hafi hins vegar verið skömmóttur við þær báðar.
Í fyrirsögn hér að ofan er vitnað í útúrsnúning á nafni Natans sem einhver viðhafði. Satan er alþekktur, en Datan hafði ég aldrei heyrt getið um, en hann mun hafa verið Ísraeli í herleiðingunni út úr Egyptalandi með Móses á sínum tíma. Datan og fleiri risu upp gegn Móses í eyðimörkinni. Á endanum gleypti jörðin uppreisnarmennina og þeirra híbýli. Hefði ég ekki getað flett nafninu upp á netinu hefði ég kannski freistast til þess að álykta að Datan væri samheiti fyrir Lúsifer. Einhver kynni að telja það fráleitt, en aðrir að það væri nærri lagi. Ályktunin væri þó aðeins af samhenginu í einni setningu.
Því vitna ég í þetta óvenjulega nafn að í grein Eggerts er sagt frá því að Agnes hafi að eigin sögn stormað inn í stofu þegar búið var að ganga frá þeim Pétri og Natani og hrópað: „Nú er hann ekki að laspúvera mig til eður neitt af kvenfólki.“
Hvorki þekkti ég né Eggert (eða nokkur annar að séð verði) orðið laspúvera. Hann telur þó helst að það þýði skammir.
Helga Kress bókmenntafræðingur grípur þó þessi ummæli á lofti í grein í Sögu árið 2014 og segir setninguna verða „eftirmæli hennar [Agnesar] um kynferðisbrotamanninn, varðveitt í dómabókinni til frambúðar. Með þeim gerir hún uppskátt um það sem ekki mátti segja, kynferðislega misnotkun … og gefur um leið upp ástæðuna fyrir morðinu.“
Eggert talar í sinni grein um það hvernig munnmælin verði til um atburð sem var mikið ræddur meðal fólks aðeins nokkrum árum eftir að ódæðið var framið. Málsskjölin sýni svart á hvítu að víða hafi staðreyndir skolast til á örskömmum tíma.
Vilhelm Vilhelmsson skrifaði svo í Sögu árið 2015 og telur að ekki megi taka málskjöl sem heilagan og fullkominn sannleika. Mér finnst þessi umræða öll merkileg og leiðir hugann að málum á okkar samtíma, þar sem mikið púður hefur farið í að skýra fortíðina upp á nýtt.
Ekki er að efast um að oft hafi sögur vaxið og orðið dramatískari með árunum í munnmælum, þótt reyndar málskjölin ein og sér virðist býsna safarík í þessu máli. Margir hafa með dirfsku og sagnagáfu gætt sögur nýju lífi, en „laspúvering“ Helgu Kress er líklega með djörfustu ályktunum í sagnfræði seinni ára. Vilhelm orðar þetta af varfærni í sinni grein: „en án skýrari heimilda er aðeins um tilgátu að ræða, ekki sönnun á því að Agnes og Sigríður hafi verið „dæmdar til dauða fyrir nauðgun karlasamfélagsins“ eins og Helga fullyrðir í lokaorðum greinar sinnar.