ANNÁLL ÁRSINS 2019

Flest ár eru ágæt. Margt gengur ágætlega en ekki allt. Ég er ánægður með árið sem er að klárast. Ég gerði margt sem ég hef ekki gert áður og margt aftur sem mér finnst gaman að gera. Auðvitað er dapurlegt að horfa á eftir góðu fólki sem fellur frá, en þannig er lífsins gangur.

 1. Fjallgöngur

Mér tókst að fara 52 fjallgöngur á árinu sem er eflaust persónulegt met. Ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að ég væri nærri því að ganga svona oft fyrr en ég hitti frækið fjallgöngufólk um daginn sem hafði talið ferðir sínar og var komið með 50 Úlfarsfell að viðbættum öðrum fjöllum.

Sjálfur giskaði ég á að ég væri farinn að nálgast 30 ferðir, en fór svo að grúska í því hvað ég hefði prílað. Þá átti ég svo stutt í eina ferð á viku að ég varð að ná því marki, sem ég gerði í síðustu heilu viku ársins.

Nokkrar ferðir fór ég sem mig hafði lengi dreymt um. Ég fór í gönguviku í Fjarðabyggð og gekk þar á fimm fjöll sem ég hefði aldrei farið á áður. Svo gengum við Vigdís á Tindastól í Skagafirði og fórum út í Drangey, sem er stórkostleg ferð.

Vigga og BJ í Drangey

Við Vigdís í Drangey

Í Sviss gekk ég á milli tveggja fjallstinda og gekk svo upp í grunnbúðir Matterhorns, sem var kannski ekki erfiðasta gangan en sannarlega ein sú stórfenglegasta. Var allan tímann með samviskubit yfir því að Anna frænka mín var ekki með í ferðinni, en hún komst einmitt ekki þennan dag, þegar veðurútlit var gott.

BJ á Matterhorn

Við tindinn

Mesta afrekið var svo þegar við Björn mágur minn fórum Esjuna endilanga. Þetta er dagsganga og hefur mjög lengi verið á dagskránni hjá mér. Við fórum upp á Móskarðshnjúka alla og héldum svo í vestur og komum niður á Kjalarnesi. Sigurður bróðir minn og svili hans gengu svo með okkur seinni hlutann. Ég var ánægður með mig eftir þennan dag.

 1. Ferðalög

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstaddur doktorsvörn Gylfa Ólafssonar, samstarfsmanns míns og félaga í stjórnmálunum. Vörnin var löng og snörp þó að niðurstaðan hafi verið nokkuð ljós frá upphafi. Ekki spillti fyrir að vörnin var í Stokkhólmi sem er borg sem vinnur á. Það var líka gaman að kynnast hans fólki betur.

 • Í apríl vorum við hjónin í þremur heimsálfum. Við fórum á ráðstefnu í gamla skólanum okkar, Florida State University, þar sem ég hitti nokkra gamla skólafélaga og þrír kennarar tórðu enn. Einn reyndar frekar leiðinlegur en hinir ásættanlegir. Svo hittum við líka Dundu vinkonu okkar og gamla alligatorinn í Wakulla Springs.
 • Við vorum varla komin heim frá Ameríku þegar við fórum til Kína. Þar vorum við fyrir næstum aldarfjórðungi. Ég hef aldrei séð jafnmiklar breytingar á nokkru landsvæði á jafnstuttum tíma. Kínamúrinn, listahverfið, forboðna borgin, jafnvel perlumarkaðurinn voru skemmtileg upplifun.
 • IMG_6603
 • Vilhjálmur Bjarnason og óþekktur Kínverji
 • Í júní flugum við til Portúgals með viðkomu í Ósló. Lissabon og nágrenni eru stórkostleg. Þar er fallegt og fólkið virðist glaðlegt upp til hópa. Við vorum svo heppin að vinir okkar, Lilja og Þórður, búa á þessum slóðum í bili og tóku vel á móti okkur. Umhverfið, sagan, maturinn og fólkið. Allt á þetta ákaflega vel við okkur. Einn daginn fórum við í sveitina og versluðum við bónda sem var ákaflega hrifinn af því að við værum Íslendingar. „Þið settuð bófana í fangelsi eftir hrunið.“ Svo seldi hann okkur ávexti, brauð, skinku, ostflykki, eina hvítvín og aðra rauðvín á 19 evrur. Ferðin endaði svo á Evrópuráðstefnu tryggingastærðfræðinga þar sem margt var fróðlegt og annað heldur leiðinlegt eins og oftast er á ráðstefnum.
 • IMG_7464
 • Í júlí fórum við svo til Sviss með Steinunni okkar og dætrum hennar, Vigdísi, Önnu Lilju og Steinunni Maríu. Dvöldum í einhverri túristaparadís en mér fannst skemmtilegast að ganga þarna í fjöllunum. Þar lenti ég í erfiðustu göngu ársins, ekki vegna þess að hún væri svo mikið á brattann heldur var svo heitt, að í fyrsta sinn á ævinni leið mér eins og ráfandi einstæðingi í eyðimörkinni. Undir lok ferðarinnar komst ég svo upp í hlíðar Matterhorns, allt upp í Hornli kofann í 3.200 metra hæð, en þaðan leggja menn af stað á toppinn. Ég fann ekki fyrir þunnu lofti, en var svolítið þreyttur. Ætlaði að fá mér þar máltíð, en var svo hvorki svangur né þyrstur. Góður endir á stórkostlegri ferð.
 • Þriðja árið í röð fór ég með félögunum úr körfuboltahópnum Skundum á Þingvöll í menningarferð til Þýskalands. Nú var Heidelberg áfangastaðurinn. Við höfðum komið þangað áður, en það er alltaf gaman að fá leiðsögn staðkunnugs, en Jón Þorsteinn Gunnarsson hafði búið þarna á sínum tíma. Mæli bæði með borginni og Jóni sem fararstjóra.
 • Loks var tveggja daga náms og menningarferð til Dyflinnar þar sem við kynntum okkur meðal annars Trinity College, en líka kastalann og líflegt tónlistarlíf á knæpum bæjarins sem margar voru með lifandi tónlist. Fyrsta ferð til Írlands, en vonandi ekki sú síðasta.
 • Já, ég veit að kolefnissporið er djúpt, en öðru vísi verður maður ekki svona víðförull á svona stuttum tíma (og svo keyri ég á rafmagni).
 1. Vinna fyrir Viðreisn
 • Ég sit í stjórn og framkvæmdastjórn Viðreisnar. Báðar stjórnir hittast mánaðarlega, ef ekki oftar. Svo erum við líka með tíða fundi í Ármúlanum.
 • Ég skrifaði söguna af því hvernig Viðreisn varð til og gaf út í 50 eintökum. Það var skemmtilegt.
 • Aðdragandi að stofnun Viðreisnar
 • Í september og október hélt ég námskeið á tveimur laugardagsmorgnum fyrir Viðreisnarfélaga um greinaskrif. Það var skemmtilegt. Duglegir þátttakendur skrifuðu grein eftir fyrri daginn sem ég fór yfir og gagnrýndi. Mér fannst gaman að hugsa skipulega um það hvernig maður á að skrifa grein og velta því líka fyrir sér hvenær er vel við hæfi að brjóta allar reglur.
 • Enn skrifa ég um það bil vikulega pistla í Moggann, mér finnst ég fá meiri viðbrögð við þeim en áður, en samt er alltaf fróðlegt að hitta fólk sem hefur séð eina grein og spyr hvort ég skrifi oft. Ég hef skrifað í blaðið í rúmlega tvö ár. Það er ekki einu sinni hægt að fella niður pistlana í sparnaðarskyni, því skrifin eru kauplaust.
 1. Pistlar

Ég set pistlana mína líka á vefmiðilinn bjz.is. Þannig veit ég hve margir lesa þá.

Mest lesnu greinar ársins eftir mig voru:

 1. Meinilla farinn og búinn að vera
 2. Tímarnir breytast og skoðanir með
 3. Farðu burt fífl! – Af tæplega þremur doktorsvörnum
 4. Skiljið‘i ekki hvað við erum góð?
 5. Frásögn um margboðað hrun
 6. Vitskert veröld
 7. Eðalmenn eða myglaðir ostar?
 8. Stuðningsmaður númer eitt
 9. Verum hrædd. Verum mjög hrædd
 10. Óttavitinn
 11. Vildarvinir eða venjulegt fólk?
 12. Martröð á Þorláksmessu
 13. Liðsmaðurinn staðfasti

Mér fannst það ekki endilega skemmtilegustu eða bestu greinarnar sem voru mest lesnar, þó að ég hafi verið ánægður með margar þeirra líka. Af greinum sem ekki komust á lista yfir þær mest lesnu get ég nefnt nokkrar.

Ég skrifaði pistil í Moggann sem ég kallaði Ágirnd vex með evru hverri. Daginn eftir var ég af einhverjum ástæðum heima í hádeginu, sem er fátítt. Enn fátíðara er að nokkur hringi í heimasímann. Það var karlmaður í símanum sem kynnti sig. Ég kannaðist ekki við hann. Hann sagði mér að hann hefði verið að lesa grein eftir mig. Ég jánkaði og var við öllu búinn.

„Þetta er besta grein sem ég hef lesið.“

Mig langaði til þess að láta hann segja mér þetta tvisvar, en lét þetta nægja og þakkaði honum fyrir og sagði að mér þætti vænt um að heyra það. Velti því fyrir mér hver þetta væri. Hann virtist lesa hugsanir mínar og sagði mér að hann væri sauðfjárbóndi í Skagafirðinum.

„Ég er nú ekki alltaf sammála þér“, sagði hann og ég sagðist vel trúa því. En svo bætti hann við: „En þessi grein er frábær.“ Ég þakkaði honum aftur og við kvöddumst.

Sunnudagur í Notre Dame var skemmtileg minning, Hamingjan og skynsemin sjónarmið sem ekki fær miklar undirtektir á Facebook, nýjasti pistillinn Sitt er hvað auður og auðnavar líka ágætur og ég held margir hefðu haft gott af því að lesa hann. Svo skrifaði ég aðeins um langafa minn og langömmu og börn þeirra.

Ég tók til í bílskúrnum sem var í frásögur fært, enda einstakt afrek. Ég greindi bestu lög Lennons, sem var tímabært. Núna, síðustu nótt ársins, dreymdi mig að Lennon hefði komið til Íslands haustið 1980 (en það var í desember það ár sem hann var skotinn til bana). Í ferðinni tók hann upp grunna að átta lögum sem ég vann við í nótt að koma í útgáfufært horf. Hjá mér er líflegt að nóttu sem degi.

 1. Annað frásagnarvert

Ég flutti fyrirlestur um stöðuna í þróunarmálum heimsins, reyndar flutti ég þennan fyrirlestur fimm sinnum. Í honum byggi ég á bók sænska læknisins Hans Roslings, Factfulness. Af því að hans niðurstaða er að við færumst smám saman frá sárafátækt og fáfræði halda sumir að hann sé að gera lítið úr þeim vandamálum, en svo er alls ekki. Hann leggur þvert á móti áherslu á að það sé gagn að þróunaraðstoð og framförum í læknisfræði.

Leikfimihópurinn Skundum á Þingvöll hefur starfað í tæplega 30 ár. Leikfimiæfingum er að mestu hætt, en spilaður körfubolti. Við höfum þá reglu að það lið sem skorar körfu frá miðju vinnur, óháð því hvernig staðan er. Mér tókst að skora fimm slíkar körfur á árinu, meðal annars síðustu körfu ársins. Í fyrra voru þær átta, þannig að þetta er ekki beinlínis framför.

Ég tek frönskutíma hjá Alliance Française og hef lesið allmargar bækur á frönsku í haust, en tala lítið og skil nánast ekkert í talmáli. En þolinmæðin þrautir vinnur allar. Eftir næsta vetur verð ég orðinn þokkalegur spái ég.

Ég mæti flesta daga á skrifstofuna hjá Talnakönnun. Hleyp þar í skarðið ef með þarf, vann meðal annars nokkur ráðgjafarverkefni.

Þegar upp er staðið eru það stundir með fjölskyldu og vinum sem standa upp úr. Barnadæturnar fjórar gleðja mig oft og mikið.

BJ og Nína 24.11.19 (2)

Afinn og Nína

Systur í Helgustaðanámu júní 2019

Steinunn María, Anna Lilja og Vigdís í Helgustaðanámu

Í heildina tekið er árið 2019 ágætt ár. Hlakka til þess næsta. Núna í dag fékk ég skilaboð: „Mér fannst gaman að vera á stofnfundinum með þér og hallast að þeirri stefnu og lausnum sem lögð voru fram … málstaðurinn er að miklu leyti góður. Ástæða þess að ég sakna þín úr svona stjórnmálaspjalli, þar sem gjarnan er slegið á léttu nóturnar, eru að þú átt auðvelt með að sjá gamansömu og skemmtilegu hliðarnar á málum líðandi stundar.“

Það eru svona skilaboð sem gleðja mann og maður hugsar að kannski sé þetta allt þess virði.

Óska öllum þeim sem komust svona langt í pistlinum gleðilegs og árangursríks 2020.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.