Af durgum, klámkjöftum og penu fólki

Síðsumars 2018 var ég beðinn að flytja hugvekju með yfirskriftinni: „Höfum við lært eitthvað af hruninu?“ Ég svaraði um hæl: „Þið viljið sem sé fá mjög stuttan fyrirlestur.“

Stundum er samt gott að staldra við og velta því fyrir sér hvað við gætum lært, bæði af okkar sögu og reynslu annarra. Aftur og aftur sjáum við sannleiksgildi orðanna um að þeir sem ekki þekkja söguna séu dæmdir til þess að endurtaka hana. Írski rithöfundurinn Oscar Wilde var líklega nær lagi þegar hann sagði að sagan endurtæki sig ekki, en hún rímaði. Við getum lært af því sem gerist annars staðar, þó að það sé ekki víst að hjá okkur verði sagan nákvæmlega eins.

Byrjum því þessa yfirferð í nágrannalöndunum.

Durgarnir styrkja sig

Stundum segjumst við taka Norðurlandaþjóðirnar okkur til fyrirmyndar og stundum hefur það reynst ágætlega. Þar hafa stjórnmálin færst yfir miðjuna til vinstri og Noregur er eina landið þar sem ekki er sósíalistastjórn. En þó að samskipti milli Norðurlandanna séu talsverð hafa stjórnmálin þar yfirleitt lítil áhrif á Íslandi. Enginn stjórnmálaforingjanna á Norðurlöndum undanfarin ár er sérlega eftirminnilegur. Kannski helst Pia Kjærsgaard, gistivinkona VG á fullveldishátíðinni.

Sú var tíðin að samskipti milli íslenskra og þýskra stjórnmálamanna voru mikil og góð, en þau tengsl hafa ekki verið ræktuð í áratugi. Því er það fagnaðarefni að Katrín Jakobsdóttir virðist hafa náð góðu sambandi við Angelu Merkel, þó að hún sé ekki framtíðarforingi Þýskalands. Sósíaldemókratar hafa minnkandi fylgi í báðum meginríkjum Vestur-Evrópu meðan öfgaflokkum vex fiskur um hrygg. Þó að slíkir flokkar séu enn ekki í ríkisstjórn í þessum löndum geta þeir vissulega haft mikil áhrif.

David Cameron hugðist lægja öldur í flokksbroti innan Íhaldsflokksins með Brexit-þjóðaratkvæðinu, sem átti að þagga niður í Sjálfstæðisflokki Bretlands. Niðurstaðan varð aftur á móti sú að flokksbrotið náði töglum og högldum í flokknum, sem aftur vann stórsigur í þingkosningum. Bretland er á leið úr stærsta og sterkasta viðskiptabandalagi heims og það hriktir í stoðum leifanna af þessu gamla heimsveldi. Í landafræðibókum var á fyrri hluta 20. aldar sagt frá því að sólin settist aldrei í Breska heimsveldinu. Nú gæti verið stutt í að England verði eitt af mörgum ríkjum á Bretlandseyjum, landsvæði ívið stærra en Ísland.

England er líklega það land sem hefur haft mest að segja í íslenskri pólitík að undanförnu. Sjálfstæðismenn hafa í rúman áratug litið til Íhaldsflokksins sem fyrirmyndar. Þegar Íhaldsflokkurinn sleit tengslin við hefðbundna hægri miðjuflokka, eins og Kristilega demókrata og norrænu hægriflokkana og gekk í Evrópusamtök með öflum yst til hægri, fylgdu Sjálfstæðismenn umræðulaust á eftir. Smám saman varð Evrópufælni sterkari innan flokksins og margir Sjálfstæðismenn á Íslandi fóru að éta upp tuggur um skrifræðið í Evrópusambandinu, margt af því bull sem orðhagur, ungur blaðamaður, Boris nokkur Johnson, dældi út fyrir aldarfjórðungi, sitjandi á krám í Brussel.

Líklegast er Johnson einhver versti pappír sem stýrt hefur Íhaldsflokknum, en hann er ekki bjáni. Ég er ekki viss um að það sama verði sagt um leiðtoga Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, sem hefur ekki heyrt um afhroð þjóðnýtingar og sósíalisma á síðustu öld. Fáar þjóðir hafa verið jafnóheppnar með leiðtoga stóru flokkanna eins og Bretar árið 2019, þar sem hvorugur hefur til að bera þá kosti sem þjóðin á skilið. Corbin á sér hliðstæðu hér á landi í Samfylkingunni sem sífellt hefur færst til vinstri og ætlar sér greinilega að stilla sér upp vinstra megin við VG í næstu kosningum. Í sjálfu sér skiljanlegt því að þar er tómarúm, en afhroð Verkamannaflokksins ætti að verða víti til varnaðar.

Hvað með Bandaríkin og Trump? Jafnvel í forysturíki lýðræðisins getur illa innrættur, siðlaus og fáfróður durgur orðið forseti. Vinsældir hans virðast jafnvel aukast eftir því sem hann gengur lengra í ofstopanum og illgirninni.

Það gæti svipað gerst hér ef popúlistarnir ná að styrkja sig enn frekar. Var Klausturmálið kannski skipulögð aðgerð eftir allt saman – undirbúin af almannatenglum Miðflokksins?

Þrjú próf – þrisvar fall

Þrjú mál standa upp úr hér á landi á líðandi ári. Fall WOW, óveðrið mikla og Samherjamálið. Allt eru þetta mál sem VG hefði notað til þess að einoka ræðustól Alþingis dag eftir dag. Nú heyrist ekkert frá neinum í þeim flokki um það sem skiptir máli í samfélaginu. Nema ef þrengja á að neytendum eða slá skjaldborg um sauðfé og útgerðarmenn. Þá eru liðsmenn flokksins í fremstu víglínu.

Svo var þriðji orkupakkinn þar sem VG hefði talið að lýðveldið væri að líða undir lok við samþykkt málsins, væri flokkurinn ekki hinum megin borðsins og sér nú réttilega ekkert að því.

Barnshafandi Albönum er enn vísað úr landi og í þetta sinn heyrist ekkert til þingmanna eða stofnana VG. Gott er að hafa tungur tvær og vera heftur á báðum.

Auðvitað gerðist fleira. Samningar á vinnumarkaði tókust með vitrænni niðurstöðu. Það var neyðarlegt að sjá ríkisstjórnina rembast við að komast að samningaborðinu á sama tíma og forystumenn verkalýðsins virtust hafa lítinn áhuga á þeim tilburðum.

Framtíðin að láni – og veðsett

Íslenskir neytendur voru ánægðir með WOW sem seldi flugmiða á svo lágu verði að það virtist varla geta staðist. Enda gat það ekki staðist. Sumarið 2018 var skuldabréfaútboð hjá WOW. Upplýsingar um rekstur félagsins áttu að fara leynt, sem er þvert gegn góðri venju á markaði. Kjarninn komst samt í gögn úr bókhaldi og birti. Þeim sem einhvern tímann höfðu lært að lesa ársreikninga var augljóst, að jafnvel þótt útboðið hefði gengið upp var staðan vonlaus. Ríkisstjórnin setti sérstakan viðbragðshóp í gang og fylgdist að eigin sögn grannt með málinu. Á sama tíma varð opinbert að WOW skuldaði ríkinu tæplega tvo milljarða króna í gjöld á Keflavíkurflugvelli. Sú staða var augljóslega með blessun ríkisstjórnarinnar.

Stjórnin beit svo höfuðið af skömminni með því að taka sannkallað „lánsveð“ gott og gilt. Oftast er það svo að ef einhver lánar öðrum veð þá veit eigandinn af veðsetningunni. Þannig var það þó ekki hjá WOW. Félagið leigði flugvélar og Isavia tók þessar lánsvélar sem gott og gilt veð. Ráðherrar hafa ítrekað lýst því yfir að þeir hafi ekki haft neitt að athuga við þetta fyrirkomulag, sem fékk auðvitað háðulega útreið fyrir dómstólum.

Braggamálið hjá Reykjavíkurborg var ekki gott á sínum tíma, en ríkið tapaði sem nemur fjórum ef ekki fimm bröggum á þessari lánastarfsemi. Líklegt er að ef ríkið hefði ekki komið „til hjálpar“ hefði tapið af gjaldþroti WOW orðið minna, félagið hefði farið fyrr á hausinn og öðrum flugfélögum hefði gefist betri tími til þess að hlaupa í skarðið sem mynduðust sumarið 2019.

Út úr Afríku

Samherjamálið svonefnda hefur komið illa við landsmenn alla. Fyrirtækið hefur boðað að önnur hlið kunni að vera á því en sú sem birtist í fjölmiðlum og þjóðin vonar sannarlega að svo sé, en því miður hefur fyrirtækið ekki enn viljað upplýsa hver sú hlið er. Undarleg er líka sú árátta forsvarsmanna Samherja að draga almenna starfsmenn inn í umræðuna, sem engum öðrum datt í hug að gera. Dugandi sjómenn og fiskverkafólk í Eyjafirðinum hafa ekki haft hugmynd um hvernig félagið er rekið í Afríku og kannski fæst vitað um starfsemina þar.

Enn og aftur féll ríkisstjórnin á prófinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tjáði sig um málið: „Auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar rót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“ Hér mun ráðherrann ekki vera að tala um Ísland, eins og einhver gæti haldið, heldur Namibíu. Í stað þess að tala varlega eins og flestir stjórnmálamenn lætur hann eins og vafasamar greiðslur séu staðreynd og bíður ekki eftir því að lögfræðifyrirtæki Samherja dragi fram aðra hlið á málinu.

Sjálfur sjávarútvegsráðherrann tengist Samherja tryggðaböndum. Þegar þannig stendur á er auðvitað spurt um hæfi. Eðlilegast væri að hann tæki við öðru ráðuneyti, fyrst allir í ríkisstjórninni bera fyllsta traust til hans. En það gengur ekki upp vegna þess að enginn samflokksmaður hans vill gefa eftir sitt ráðuneyti. Vandræðagangurinn varð enn pínlegri þegar ríkisstjórnin skipaði formann Framsóknarflokksins sérstakan Samherjaráðherra.

Með storminn í fangið

Óveðrið mikla sýndi hve brothættir innviðir eru víða um land. Allt hætti að virka: Rafmagn, hiti, vatn, sími og útvarp. Vegir lokuðust og heil sveitarfélög misstu samband við umheiminn þegar netið lagðist í dvala. Samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins (hann hafði þá ekki tekið við ráðuneyti Samherjamála) sendi lítt dulbúna pillu á forystuflokk ríkisstjórnarinnar, þegar hann sagði að ekki væri hægt að leggja raflínur vegna andstöðu landeigenda og í framhaldinu að virkjun þyrfti í hvern landsfjórðung. Flestum var ljóst að hér voru „landeigendur“ dulnefni fyrir VG-lið að sunnan, kannski Landvernd þar sem umhverfisráðherrann var áður framkvæmdastjóri.

En grotnun innviða er einmitt vegna þess að gömlu flokkarnir, sérstaklega framsóknarflokkarnir þrír í ríkisstjórninni, ýta sífellt á undan sér erfiðum málum og geta aldrei náð niðurstöðu. Þó að það sé innskot, þá kristallast þessi afstaða í stjórnarskrármálinu, sem átti sannarlega að taka föstum tökum á kjörtímabilinu, en ekkert hefur gerst.

Ráðherra ræktar þjóðgarðinn sinn

Svo heyrðist allt í einu frá umhverfisráðherra, en í afmælisriti VG mun koma fram að settur var fyrirvari um að honum yrði skipt út á tveggja ára afmæli stjórnarinnar, sem var einmitt um sömu mundir. Skipanin vakti auðvitað athygli á sínum tíma fyrir það að formaður flokksins taldi aðeins einn alþingismann flokksins hæfan til setu í ríkisstjórn, að frátaldri sjálfri sér.

Umhverfisráðherrann skrifaði í grein: „Í rannsókn sem Hagfræðistofnun HÍ vann að minni beiðni kom í ljós að fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila sér 23 krónur til baka.“ Svo virðist sem ráðherrann telji í alvöru að stofnun þjóðgarða sé arðbærari en nokkur önnur starfsemi, nema ef vera skyldi fíkniefnasala.

Á sínum tíma var forstöðumaður Hagfræðistofnunar, sem reyndar er bróðir minn, spurður um málið á RÚV: „Segir þetta okkur að þjóðgarðarnir okkar séu gullnáma eða má lesa eitthvað annað út úr þessu?“

Sigurður svaraði: „Ég held það endurspegli fyrst og fremst það að það hafi verið settir tiltölulega litlir peningar í þessa staði ennþá, við erum ekki endilega að mæla orsakasamhengi milli útgjalda og tekna. Þannig sé ekki hægt að treysta á að hlutföllin haldi sér ef hærri fjárhæðum yrði varið til innviðauppbyggingar, þótt það sé til góðs.“

Þetta er kurteislegasta ábending um að ráðherra fari með fleipur sem ég hef séð.

Ó Reykjavík, ó Reykjavík

Það er ekki hægt að skrifa um stjórnmál á Íslandi án þess að minnast á höfuðborgina. Borgarstjórn ætti að vera óskadraumur þess sem vildi láta gott af sér leiða fyrir daglegt líf borgarbúa. Ástæðan fyrir því að borgarstjórar Sjálfstæðisflokksins, til dæmis þeir Bjarni Benediktsson, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson, voru vinsælir menn í embætti, jafnvel hjá pólitískum andstæðingum, var sú að þeir settu sig inn í vanda borgarbúa og gerðu sér far um að leysa hann.

Í Reykjavíkurborg samtímans virðist oft að stjórnendur borgarinnar skapi vandamálin og reyndist svo ófærir um að leysa þau. Á hverjum einasta degi kynnast tugþúsundir borgarbúa óstjórninni á umferðarljósum þar sem græn bylgja, sem áður var reglan hjá þeim sem keyrðu á löglegum hraða, heyrir sögunni til og rauð plága hefur tekið við. Borgin anar út í framkvæmdir, án þess að nokkur hafi hugmynd um hvenær eða hvort þeim lýkur. Þegar spurt er um lausn er svarið alltaf það sama, óháð því hver spurningin er: Borgarlína.

Þegar Viðreisn gekk til samninga um myndun meirihluta var áskilið að gerð yrði úttekt á stöðu og rekstri borgarinnar og í kjölfarið ráðist í umbætur. Það er eitt og hálft ár frá kosningum og nú hlýtur umbótaskeiðið að fara að renna upp.

Engum dettur í hug að lausn á vandanum liggi hjá núverandi minnihlutaflokkum, þríklofnum borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna og þremur popúlistabrotum.

Uggvænlegt ástand, en hverjar eru horfurnar?

Í nýrri könnun Maskínu kemur í ljós að um 72% telja spillingu mikla í stjórnmálum á Íslandi en aðeins 11% telja hana litla eða enga. Um þetta er meirihluti kjósenda allra flokka sammála, nema Sjálfstæðisflokks, sem aftur skýrir kannski hvers vegna fylgi hans fer sífellt minnkandi. Þetta segir auðvitað bara að fólk telur að spilling sé mikil; örugglega ekki síst vegna þess að flestir stjórnmálamenn verja sérhagsmuni fram í rauðan dauðann, ekki vegna þess að þeir fái greiðslur frá hagsmunaaðilum eða dragi sér almannafé.

Reiði almennings getur brotist fram með ýmsum hætti. Á Íslandi sjáum við að 10 til 20% kjósenda ætla að kjósa flokka sem augljóst er að munu engu breyta til batnaðar, bara vegna þess að fólk vill einhverja aðra en þá sem nú eru við völd, jafnvel orðljóta klámkjafta, sem haga seglum eftir vindum, en hafa engin prinsipp.

Engum dylst að innan Sjálfstæðisflokksins eru sviptingar. Þar hefur verið stofnað sérstakt félag um fullveldismál, greinilega með velþóknun forystunnar því að ritari flokksins flutti ávarp á fundinum og oddviti flokksins í höfuðborginni stjórnaði fjöldasöng. Nýkjörinn formaður félagsins, Styrmir Gunnarsson, sagði í viðtali „fráleitt að félagið stefni að nasisma, fasisma eða stalínisma.“ Ekki er að efa að einhverjir Sjálfstæðismenn hafa varpað öndinni léttar, en yfirlýsingin segir sína sögu. Ég man ekki eftir því að önnur íslensk félög hafi þurft að sverja slíkt af sér. Reyndar tel ég nær sanni að með félaginu hafi einangrunar- og afneitunarsinnar fengið sérstakt skjól í flokknum. Skömmu síðar sagði Matthías Johannessen, annar fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sig úr Sjálfstæðisflokknum, en ekki er talið að þarna sé orsakasamhengi á milli.

Er ekkert jákvætt?

Um hátíðirnar er nauðsynlegt að horfa ekki bara á það sem miður hefur farið heldur líka það sem vel hefur tekist til. Því vissulega er sumt jákvætt. Verðbólga er að komast aftur í það far sem hún var í þegar ríkisstjórnin tók við og nýr seðlabankastjóri hefur lækkað vexti myndarlega. Neytendur hafa notið lágra vaxta á verðtryggðum lánum. Kaupmáttur er mikill.

Fyrir utan hjal um mikil tækifæri Íslands í Brexit hefur utanríkisstefnan verið í lagi. Landið staðið við sínar alþjóðaskuldbindingar sem aukaaðili að Evrópusambandinu og fullgildur félagi í NATO. Það er traustvekjandi að sjá forsætisráðherra eiga náin og góð samskipti við forystumenn Atlantshafsbandalagsins, án þess að nefna einu orði stefnu VG um að „Ísland segi sig úr NATO og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum.“

En það breytist lítið til batnaðar nema þjóðin flykki sér að baki eftirfarandi stórmálum:

  1. Ríkið hætti að úthluta gæðum til ákveðinna hópa án endurgjalds. Sjávarútvegur greiði markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari hluti kvótans á markað. Gjaldið renni til innviðauppbyggingar á heimasvæðum.
  2. Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni. Innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin í áföngum og bændur leystir úr fátæktargildru.
  3. Enginn verði þvingaður af vinnumarkaði eingöngu vegna aldurs.
  4. Hagur fólks og fyrirtækja bættur með því að lækka vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd með upptöku stöðugs gjaldmiðils.
  5. Námsárangur nái að minnsta kosti meðaltali innan OECD. Nám á bæði grunn- og framhaldsskólastigi verði markvissara en nú er. Til dæmis mætti gefa samræmdum prófum vægi á ný.
  6. Kosningaréttur verði jafn, óháð búsetu. Jafnrétti þegnanna er grundvallarhugsjón lýðræðisins.
  7. Þjóðaratkvæði um að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina.

Þetta eru mál Viðreisnar. Hún var stofnuð um breytingar almenningi í hag. Valið er einfalt því Framsóknarflokkarnir þrír í stjórn og sá fjórði í málþófi í stjórnarandstöðu eiga nefnilega eitt sameiginlegt. Eigi skal breyta.


Birtist á Kjarnanum 28. desember 2019.

 

 

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.