Sitt er hvað, auður og auðna

Fyrir sexhundruð árum orti Skáld Sveinn í Heimsósóma: „Peningur veitir völd en minnkar náðir“. Það er ekki nýtt að á auðlegð séu tvær hliðar. Veraldlegur auður veitir sjaldnast sælu. Megas sagði í fallegu lagi: „Jú ég veit vel að ókeypis er allt það sem er best, en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.“

Samt er það löngunin í peninga sem drífur samfélagið áfram. Flestir vilja meira og meira, helst meira en hinir. Fáir eru þó jafn hreinskilnir og bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal sem sagði eitthvað á þessa leið: „Í hvert skipti sem vini mínum gengur vel deyr eitthvað inni í mér.“ Ekkert er jafn hræðilegt og að vera „skilinn eftir“ meðan aðrir njóta velgengni, jafnvel þó að maður hafi það ágætt.

Og það er vissulega átakanlegt að sjá auðnuleysingja sem búa í sárri örbyrgð eða neyð. Fólk sem á ekki fyrir mat, lifir á beiningum og á hvergi höfði sínu að halla. Við segjum að hver sé sinnar gæfu smiður, en samt finnum við til þegar við sjáum tötrasveina, eins og þegar Einar skáld Benediktsson rétti betlara smápening sem var „gnótt í hans hönd, en aska í minni.“

Margir tala um fátækt á Íslandi og hér eiga vissulega ýmsir erfitt. En þeir hafa þó nauðþurftir, hér þarf enginn að svelta eða sofa á víðavangi. Enn þann dag í dag búa hundruð milljóna manna við sára fátækt; fá hvorki vatn né rafmagn. Milli fátæktar og sárafátæktar er breið gjá. Þrátt fyrir misskiptingu auðs fækkar þó stöðugt í hópi þeirra sem líða sáran skort. Þróunaraðstoð menntar og eykur jafnrétti milli kynja. Frelsi og jafnrétti eru óaðskiljanleg, en við þurfum líka að rækta bræðralagið.

Á jólum sendu margir vinum og ættingjum kveðju í korti. Mér finnst það fallegur siður, en sé að æ fleiri telja hann allt of dýran og tímafrekan. Og það er rétt. Það er tímafrekt að rækta vináttu, þó að það sé bara gert með einu korti eða símtali. En er tímanum betur varið í Netflix eða tölvuleik? Er ekki ráð að taka öðru hvoru upp símann eða bregða sér í heimsókn til frænda og vina? Lífið er svolítið eins og spegill. Ef maður brosir framan í það, brosir það á móti.

Margir leita hamingjunnar í frægð, völdum eða auðlegð. Krónur og aurar kaupa fasteignir og hlutabréf, en vinátta, virðing og traust verða ekki keypt eða metin til fjár. Verðmætustu endurminningarnar eru sjaldnast um dýra hluti. Nei, sælan er í leik við börn, kaffibolla við eldhúsborð foreldra eða frændfólks, gönguferð í rigningunni eða sólsetri í sveitinni.

Í gömlu handriti segir: „Hinn góði maður, þótt hann þjóni öðrum, þá er hann þó frjáls En hinn illi maður, þótt hann hafi konungsríki, þá er hann þó þræll fastur á fótum, eigi sem eins manns sé, heldur jafnmargra drottna sem hann á löstu marga.“

Minnumst þessa og verum frjáls á nýju ári.


Birtist í Morgunblaðinu 28.12.2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.