Martröð á Þorláksmessu

Á Þorláksmessu tókum við til á skrifstofunni sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Þar er tekið til árlega, hvort sem þess þarf eða ekki. Þangað berast ókjörin öll af pappír sem upplagt er að endurvinna og honum safnað í plastkassa eða lítinn gám.

Kassinn var svo fullur að útaf flóði og þungur eftir því. Svo að ég ákvað að taka lyftuna, sem Vigfús sagði mér að væri komin í lag eftir þriggja vikna viðgerð. Ég hef aldrei tekið lyftuna og ætlaði aldrei að gera það, en 30 kílóa byrði verður til þess að maður brýtur prinsipp.

Mér er meinilla við lyftur, þær eru nánast mín eina fóbía (nefni ekki ákveðinn stjórnmálaflokk af því að það eru jólin). Vissi ekki einu sinni hvernig á að kalla á lyftuna, það eru tvö sett af tökkum (kannski er annað nýtt, ég veit það ekki). Hún kom og ég ýtti kassanum  inn og ýtti á takka númer eitt.

Það hjálpar ekki upp á þessa fælni að hafa verið fastur milli hæða í lyftu á Kúbu með sjö öðrum í þrjátíu stiga hita. En það er önnur saga.

Einfaldara gat það ekki verið og ég var á niðurleið. Fljótlega stoppaði lyftan býsna harkalega og ég hugsaði með mér að eftir viðgerðina löngu væri hún greinilega eldsnögg niður, en þyrfti þá að snarhemla á áfangastað. Ekki beint minn stíll, en svona var þetta bara. Hallaði mér að dyraopinu til þess að ýta upp hurðinni.

En það var tilgangslaust, því að þar var engin hurð heldur kaldur veggur. Ég hafði sem sé stoppað milli hæða. Um mig fór kuldahrollur. Ef eitthvað á illa saman þá eru það lyftur og Benedikt. Lyftur fastar milli hæða eru mín versta martröð. Mín fyrsta hugsun var að horfa á takkasettið og viti menn, þar var einmitt lýsandi rauður takki. Hjá honum voru meira að segja leiðbeiningar, eitthvað á borð við: Þegar lyftan stoppar milli hæða, ýtið á mig.

Jæja, ég ýtti á takkann. Og viti menn. Lyftan fór af stað. Kannski var karlinn þessar þrjár vikur að útbúa neyðarhnappinn. Ég var kominn niður á 1. hæð. Það var munur að hafa fast land undir fótum. Ég lyfti blaðakassanum og ýtti með honum á hurðina, sem nú var á sínum stað.

Hún haggaðist ekki.

Ég ýtti aftur og það var ekki um að villast. Þessi hurð var eins og negld aftur.

Kassinn fór á gólfið og ég sneri mér aftur að takkaborðinu. Í þetta sinn lýsti rauði takkinn ekki, en ég ýtti samt á hann, því áletrunin var óbreytt.

Ekkert gerðist.

Ég ýtti á takka númer eitt, en lyftan færðist ekki og hurðin færðist ekki millimetra. Á næstu sekúndum varð mér ljóst að allt takkaborðið var óvirkt.

Mér leið ekki vel. Var með fiðring í maganum og það var eins og óþægindatilfinningin færðist upp eftir bakinu á mér og eftir smástopp milli herðablaðanna þrýstist hann út í axlirnar og í upphandleggina.

Arnór var uppi á skrifstofu þannig að ég varð að hringja í hann. Strauk hendinni eftir jakkanum, en síminn var hvergi. Hann var auðvitað á skrifborðinu sem ég var að enda við að taka til á.

Þá var ekkert að gera annað en ýta á neyðarhnappinn. Sem vel að merkja er alls ekki þessi rauði sem maður ýtir á milli hæða heldur bjalla. Reyndar voru nánast engir í húsinu þennan dag. Flest fyrirtæki höfðu ákveðið að gefa frí. En Arnór hlaut að heyra skerandi vælið.

Þrýsti á takkann og átti von á að þurfa að halda fyrir eyrun þegar hljóðið nísti merg og bein. Ekkert slíkt gerðist. Ámátlegri són hef ég varla heyrt. Ég heyrði hann varla sjálfur. Kannski ýtti ég ekki nógu fast. Ég lagðist á takkann. Sama suðið.

Prófaði að slá takt. Saltkjöt og baunir – túkall.

Enginn kom.

Andardrátturinn þyngdist og ég heyrði slagæðarnar tútna. Eða voru þær að þrengjast? Að minnsta kost leið mér eins og ég ætti að setjast og ég hefði sest á pappírsgáminn hefði hann ekki verið svona fullur.

Ég get bara ímyndað mér eitt verra en að vera einn fastur í lyftu. Það er ef ég hefði verið fastur í lyftu með einhverjum öðrum.

Svo gerðist svolítið. Veggurinn sagði: Please remain calm. An operator will be with you in a moment.

Ég hafði náð sambandi við vél. Einmitt það sem róar mann þegar maður er innilokaður í þriggja fermetra lyftu á Þorláksmessu.

En þá gerðist tvennt í senn. Veggurinn fór að tala íslensku og síminn hringdi.

Síminn var semsé einhvers staðar í jakkanum þó að ég hefði ekki fundið hann áðan. Ég fann hann, leit á skjáinn en þekkti ekki númerið. Íslenska röddin spurði mig hver ég væri og hvar. Ég svaraði því með þeirri ró sem maður lokaður í lyftu ræður yfir.

Svo spurði hann mig hvort ég væri fastur í lyftunni.

Mér datt í hug að svara: Nei, nei, mig langaði bara að tala við einhvern og það er enginn í húsinu nema ég þannig að ég fór lyftuna til þess að heyra í einhverjum.

En í alvöru sagði ég: „Já auðvitað er ég fastur í lyftunni.“

Á sama tíma hafði ég óvart svarað símtalinu og einhver úti í bæ vissi líka að ég var fastur í þessari fjárans lyftu.

Röddin sagði: „Við sendum mann.“

B: „Hvenær kemur hann.“

Rödd: „Bíddu bara rólegur. Ég finn einhvern.“

Það er auðvelt að ætla að vera rólegur þegar maður er ekki læstur inni lyftu, ekki með lyftufóbíu og líður ekki eins og maður sé að fá kransæðastíflu. En ég var allt annað en rólegur.

Fyrst ég hafði fundið símann ákvað ég að hringja í Arnór. Símtalið við manninn úti í bæ (eða hver það nú var sem hringdi) hafði hvort sem er slitnað.

Arnór svaraði ekki.

Lyftan virtist smám saman minnka. Ég átti eftir að pakka inn mörgum jólagjöfum. Ætlaði meira að segja að fara niður Laugaveginn á Þorláksmessukvöld. Í staðinn yrði ég í besta falli efni í dagbók lögreglunnar.

Svo hringdi síminn aftur. Það var Arnór. Ég sagði hvað hafði gerst og bað hann að ýta á takkann á fjórðu hæð. Kannski var hægt að koma lyftunni í gang utan frá. Ekkert gerðist.

Ég ítrekaði beiðnina: „Það er neðri takkinn sem á að ýta á.“

Röddin í veggnum sagði: „Ég get ekki ýtt á neina takka. En ég veit af mönnum.“

Ég sagði við Arnór: „Prófaðu að fara niður á fyrstu hæð og sjá hvort þú getur opnað hurðina.“

Í símanum heyrðist fótatak, en veggurinn útskýrði að mennirnir myndu koma og hleypa mér út.

B: „Hvar eru þessir … (hik, en vildi ekki blóta á aðventunni) menn?“

Rödd: „Þeir eru niðri í bæ.“

Hvar ætli þessi maður sé?, hugsaði ég. Líklega í stjórnstöðinni á Kópaskeri. Ég þorði ekki að spyrja.

Arnór var kominn fyrir utan dyrnar.

Allt í einu sagði röddin: „Reyndu að toga hurðina til hliðar.“

Þetta var vitlausasta ábendingin, því að hurðin er á hjörum. Þessi rödd frá Kópaskeri vissi greinilega ekkert um þessa lyftu. Þar eru líka engar lyftur.

Arnór reyndi að hrista hurðina til og ég ýtti að innan, en það var auðvitað tilgangslaust. Í von um að karlinn í veggnum heyrði enn í okkur fór ég að tala við Arnór um þennan vesaling, sem hefði verið vikum saman að skrúfa lyftuna sundur og saman.

Þetta gat ekki versnað hugsaði ég.

Þá slökknaði ljósið.

Andardrátturinn þyngdist og hendurnar á mér titruðu. Nei, nánast hristust.

Nú var ekkert eftir nema að logarnir stæðu upp úr gólfinu.

Ég skutlaði mér á hurðina og viti menn.

Hún gaf eftir.

Pappírsgámurinn og ég hurfum úr lyftunni og þangað fer hvorugur aftur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.