Vildarvinir eða venjulegt fólk?

Stormurinn í liðinni viku minnti á að náttúruöflin eru ekkert lamb að leika sér við. Sums staðar hætti allt að virka sem við reiknum með í nútíma samfélagi: Rafmagn, hiti, vatn, sími og útvarp. Vegir lokuðust og heil sveitarfélög misstu samband við umheiminn þegar netið lagðist í dvala. Eru þá ótaldar skemmdir á húsum og hörmuleg slys.

Í fjölmiðlum birtast ábúðarfullir ráðamenn og segja að nauðsynlegt sé að efla innviði á landsbyggðinni. Leitin að sökudólgi hefst. Forystumenn sveitarfélaga tala um að fólk fyrir sunnan skilji ekki vanda dreifbýlisins sem hafi lamast í illviðrinu. Samgönguráðherra segir að ekki sé hægt að leggja raflínur vegna andstöðu landeigenda, sem svara á móti að þeir hafi aldrei verið á móti jarðstrengjum.

Forstjóri Landsvirkjunar sagði: „Við erum að upplifa afleiðingu þess að ekki hefur verið fjárfest í kerfinu um árabil og ekki hefur verið skilningur á nægjanlega mörgum stöðum í samfélaginu á því að það þurfi að byggja upp til framtíðar.“

Óveðrið afhjúpaði vanda sem allir vita af. Virkjanir og raflínur fegra sjaldnast þótt framkvæmdir auðveldi oft aðgengi að fallegum stöðum. Ósnortin náttúra er vissulega auðlind, en við þurfum að spyrja okkur: Hvernig náum við jafnvægi á milli ásættanlegs öryggis og náttúruverndar? Og hverju viljum við fórna? Öryggið er ekki ókeypis. Ríkissjóður er rekinn með halla af vinstri stjórninni. Á að skera niður í heilbrigðiskerfinu eða skerða kjör aldraðra?

Fólki farnast best þegar það ber ábyrgð á sér sjálft. Enginn græðir á deilum milli landshluta um hvort stofna eigi limum fólks eða lífsbjörg í hættu. Reynslan sýnir líka að biðin eftir hjálp að sunnan verður oft býsna löng. En peningarnir eru til og þeir eru nær vandanum en sumir myndu ætla.

Þegar neyðin er stærst er hjálpin oft næst. Í öllum landsfjórðungum eru mikil verðmæti. Kvótakerfið hefur reynst vel til þess að vernda fiskistofna, en eigum við ekki að nýta ávinninginn til þess að vernda íbúa á þeim svæðum sem gert er út frá? Útgerðarmenn hafa greitt sér meira en 100 milljarða í arð á áratug. Peningarnir hafa streymt frá landsbyggðinni í fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu og í fjarlægum löndum. Þótt ekki færi nema brot af arðgreiðslunum í innviði yrði landið allt byggilegra.

Viðreisn vill að byggðirnar njóti beint ávinnings af hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi, meðan forystumenn ríkisstjórnarflokkanna telja sanngjarnt að úthluta kvótanum til nokkurra útgerðarmanna gegn vægu og lækkandi gjaldi. Þegar valið stendur milli auðmanna og almennings velur vinstri stjórnin auðmenn.

Fyrirtæki eiga að gefa af sér hæfilegan arð til eigenda sinna, en þegar eigendur félaga segjast ekki lengur vita í hvað peningar þeirra fara eiga þeir allt of mikla peninga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.