Um afbakanir og ofbeldi á jólum

Eitt af mestu óþurftarverkum leikskólanna í landinu (og ég man svosem ekki eftir öðrum í bili) er að hafa afbakað litlar jólavísur um jólasveinana sem ganga um gólf og könnuna á stólnum. Að vísu bera fleiri ábyrgð á bullinu en leikskólarnir, en þeir voru dreifingarstöðvar og náðu miklum árangri.

Vísan fyrri er ekki merkilegur kveðskapur:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.

Þarna vantar stuðla í seinni hlutann og gólf rímar við gólf sem þykir ekki mikilfenglegt. Aðallega finnst rétthugsunarfólki þó ólíklegt að jólasveinar hafi gylltan staf, sem engan veginn rími við efnahag þeirra og atferli. Hefðu þeir átt slíka gersemi þyrftu þeir ekki að sníkja og stela á bæjum heldur hefðu þvert á móti átt að vera aufúsugestir í stofum presta og sýslumanna.

Móðir þeirra hefði heldur ekki verið þekkt sem mikil búkona eða snyrtipinni og ólíklegt væri að hún sópaði gólf sín, jafnvel þótt jólin væru í nánd.

Í Velvakanda Morgunblaðsins birtist þann 15. desember árið 1974 klausa þar sem segir: „Gaman væri að vita, hvort nokkur kannast við þessa gerð vísunnar:

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi;
móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.“

Enga skýringu gefur Velvakandi á þessari útgáfu og virðast ekki hafa komið nein viðbrögð við spurningunni.

Næst heyrist af þessari útgáfu þegar Helgi Hálfdanarson skrifar í Moggann fimm árum síðar, þann 4. janúar 1980: „Svo er að sjá, að þarna sé komin uppdubbuð jólasveinavísa, sem forðum var höfð á þessa leið:“ Birtir svo vísuna um gáttina, en hafði farið háðulegum orðum um samsetninginn sem gamla vísan væri og gerði ráð fyrir að hann væri „fremur nýlega til orðinn“. Helgi segir ekkert frá því hvernig hann viti að hún var „forðum“ á annan veg og endar raunar á því að vel geti verið að „vísan um gyllta stafinn sé eldri en ég hef hugmynd um og hin vísan sé síðari tilraun til að endurbæta þann kveðskap um kvenskörunginn Grýlu“.

Helgi var merkilegur þýðandi en vildi láta til sín taka á mörgum sviðum. Stundum birtist á ritvellinum „fermingarbróðir“ Helga, Hrólfur nokkur Sveinsson, sem var undantekningarlaust ósammála vini sínum. Fljótlega komst það þó á almanna vitorð að Hrólfur og Helgi áttu sér bólstað í sama líkama.

Helgi hefur eftirfarandi eftir nágranna sínum Hrólfi: „Það bregst mér ekki, þegar skaparinn fann upp smekkinn, hefur hann haft Hallgrímskirkju í huga. Fyrir bragðið þarf ég ekki annað en segja: Hókus Pókus, hún skal vera falleg; og um leið er hún orðin eitthvert fegursta hús í bænum.“

Það sama má segja um vísuna í nýju útgáfunni. Eftir að Helgi Hálfdanarson hafði birt hana fannst mörgum að hún hlyti að hafa verið svona alla tíð. Ýmsir töldu sig einmitt muna vísuna með þeim hætti sem Velvakandi og Helgi höfðu hana og Árni Björnsson gat þess í Sögu daganna (bls. 343) að þannig væri vísan þekkt á Norðurlandi, án þess að geta um heimildarmann. Engar skriflegar heimildir nefnir Árni, hvorki þar né í grein sem birtist í greinasafni hans Í hálfkæringi og alvöru sem kom út á 85 ára afmæli hans.

En vísan í þeirri mynd sem tilgreind var hér í upphafi er vissulega „röng“, ekki bara bragfræðilega heldur stangast líka á við elstu heimildir.

Gísli Sigurðsson, frændi minn, segir svo frá í Morgunblaðinu í desember 2014:

„Elsta þekkta gerð umræddrar vísu var skráð svona af presthjónum í Aðalvík um miðja 19. öld:

Jólasveinar ganga um gólf
og hafa staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og strýkir þá með vendi.
Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.

Ekki er þessi gerð betri bragfræðilega. Í hana vantar líka höfuðstaf í línu 2 og einhver skarpur skóli birtist í lokalínu. Ekki veit ég hvaða skóli það er og hvernig hann komst undir (ekki í) hendur jólasveina.

Gísli heldur áfram:

„Í Íslenzkum þulum og þjóðkvæðum (1898-1903) lagar Ólafur Davíðsson vísuna úr Aðalvík í átt að algengum reglum um stuðlun með því að bæta við „gyltan“ í 2. vísuorði – frekar en að láta „hafa“ og „hendi“ standa með sinni sérstuðlun. Sennilega hefur Ólaf ekki rennt í grun að þessi leiðrétting hans yrði síðar tilefni harðvítugra deilna um glysgirni jólasveina. Gott er að hafa í huga að umræðan um hvort jólasveinar geti átt „gylltan“ staf eða „gildan“ snýst aðeins um þessa leiðréttingu Ólafs Davíðssonar en ekki neina þekkta gerð vísunnar fyrir hans daga.“

Enn segir Gísli: „Í segulbandasafni Árnastofnunar eru mörg dæmi um þessa vísu með blæbrigðum um það hvort mamman „flengi“, „hýði“, „siði“ eða „strýki“ strákana sína og hvort jólasveinarnir hafi „gylltan“ staf eða bara „staf“. Engum dettur í hug að þeir hafi „gildan“ staf eða gangi um „gátt“ til að ríma við „hátt“.“

Kannski má einu gilda hver af þessum vitlausu vísum er „réttust“, en þeir Velvakandi, Helgi og Árni hafa sannarlega komið annarri útgáfu á flot, útgáfu sem mér finnst ekki sérstök bragarbót. Mér finnst reyndar sérstaklega leiðinlegt að nýja útgáfan er sögð rétt og útgáfa Ólafs Davíðssonar „afbökun“ í annars ágætu riti Gylfa Garðarssonar, Jólasöngvar (1996). Í mínu eintaki er búið að krota yfir nýju útgáfuna.


Ekki þótti nóg að gert að yrkja jólasveinavísuna upp á nýtt heldur líka viðlagið sem við hana er sungið (þó að það komi reyndar annars staðar að). Hjá Jóni Árnasyni stendur:

„Jólasveinar eru níu talsins og heita: Gáttaþefur, Gluggagægir, Pottasleikir og Pönnuskuggi, Guttormur og Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora. Þeir kveða:

Upp á stól
stendur mín kanna,
níu nóttum fyrir jól,
þá kem ég til manna.

Jólasveinar var sagt að kæmu til heimila með jólaföstunni með stóra hatta á höfðum, búklausir, en kloflangir upp að herðum og sæktu eftir floti. Missagnir eru um það, hvort jólasveinar færu að koma til byggða 13 eða 9 nóttum fyrir jól og hafa sumir fært fyrrgreint erindi sem sönnun fyrir því síðara. Best áttu þeir að þrífast á þeim heimilum sem var bölvað á. Um þrettánda dag jóla áttu þeir að safnast saman og drepa þann magrasta.“

Leikskólakennarar töldu af og frá að jólasveinar hefðu einhverja könnu uppi á stól. Nei, þetta þurfti líka að leiðrétta. Allt í einu voru fyrstu tvær línurnar orðnar þannig:

Upp á hól
stend ég og kanna.

Þessi speki var reyndar svo vitlaus að Árni Björnsson, sem er varfærinn í sínum skrifum, telur hana af og frá.

Halldór Blöndal, frændi minn, skrifaði um þetta alvarlega mál árið 2004:

„Til skemmtunar tilfæri ég hér lítinn kafla úr inngangi Jóns Samsonarsonar að Kvæðum og dansleikjum, sem út komu hjá Almenna bókafélaginu árið 1964:

„Á Íslandi hefur vísan um Önnu sem dansar níu nóttum fyrir jól verið alkunn og er ýmist skrifuð upp sjálfstætt eða sem hluti í þulum:

Uppá stól, stól, stól,
stendur mín kanna;
níu nóttum fyrir jól
kemst ég til manna,
og þá dansar hún Anna.

Vísan er líka vel þekkt í Noregi:

Upp i lid og ned í strand
stend ei liti kanna.
Nie netter fyre jol
dansar jomfru Anna.

Einar Ólafur Sveinsson hefur sagt, að tærari skáldskap en sumar þjóðvísurnar sé ekki að finna á íslensku. Meðal þeirra eru þjóðvísurnar tvær um jólasveinana og jólin áður en þeim var breytt.“


Mér finnst reyndar vanta í umræðuna um ofangreindan kveðskap umræðu um þá samfélagsmynd sem birtist í vísunum og jólasveinatrú almennt. Hvers vegna eru allir jólasveinarnir karlar? Er þetta ekki dæmi um kvenfyrirlitningu (að vísu má benda á jólameyna Klettaskoru sem Jón Árnason nefndi hér að framan, en henni var útrýmt í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum. Jón talar reyndar líka um páskadísir, en þær hafa verið þaggaðar í hel.

Svo er líka í vísunni talað gáleysislega um heimilisofbeldi, þar sem móðirin misþyrmir börnum sínum milli þess sem hún sinnir heimilisverkum. Er rétt að hafa svona fyrir börnum á 21. öld og láta eins og misþyrmingar séu sjálfsagður hlutur?

Að því má færa rök að í könnunni (sem virðist norsk að uppruna) hljóti að vera áfengur mjöður, (samanber hina dansglöðu jómfrú Önnu) sem kannski skýrir ofbeldið sem látið er óátalið. Þetta er algerlega óábyrgt. Kannast ekki einhver við eftirfarandi útgáfu af vísunni?

Kætumst meðan kanna er full,
kátar meyjar jóla og -sveinar.
Hvergi vendir, horfið gull,
Hver veit núna hvað þú meinar?

Hrólfur Sveinsson telur reyndar að í þriðju línu eigi rímorðið að vera bull, en ekki gull.


Myndin af Grýlu og jólasveinunum er eftir Freydísi Kristjánsdóttur og birtist í Íslenskum þjóðsögum, Heimur 2014, Benedikt Jóhannesson og Jóhannes Benediktsson sáu um útgáfuna.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.