Gengur á með skúrum

Í ævi sérhvers manns eru nokkrir dagar sem standa upp úr. Fæðingardagur, fyrsti skóladagur, brúðkaupsdagur, dagarnir þegar börnin fæðast. Í mínu lífi bættist einn slíkur við í liðinni viku: Dagurinn sem ég lauk við að taka til í bílskúrnum.

Ég veit að flestum finnst ótrúlegt að ég hafi ná þessum áfanga, maður eins og ég sem hefur safnað að sér dóti í áratugi. Ekki bara mínu heldur frá börnum, ættingjum og löngu liðnum vinum og gleymdum kunningjum. Svo er það auðvitað líka sjónarmið sem lífsreyndur maður sagði við mig: „Er maður nokkurn tíma búinn að taka til í bílskúrnum?“

Flestir þekkja vandann við bílskúra. Ef einhvern vantar bílskúr er hann jafnnauðsynlegur og ísskápur eða eldavél. Fyrir hina sem eiga bílskúr er hann í upphafi kærkomin geymsla fyrir allt sem ekki kemst fyrir í íbúðinni, en gæti verið gott að grípa til einhvern tíma seinna. Þeir sem hafa átt bílskúr vita þó að þetta er tálsýn. Það sem einu sinni hverfur úr íbúð í bílskúr á aldrei afturkvæmt.

Pabbi var fyrirmynd mín á mörgum sviðum. Þeir sem þekktu hann trúa þessu eflaust ekki, því að pabbi var iðnasti, snyrtilegasti og skipulegasti maður sem ég hef kynnst. En þetta er ekki jafnótrúlegt og það virðist. Fótboltamaðurinn Messi er fyrirmynd milljóna ungra stráka um allan heim, þó að þeir verði svo flestir stirðir og feitir karlar strax á þrítugsaldri.

Eitt af því sem ég man eftir hjá pabba var bílskúrinn. Hann var með hanka á veggjunum fyrir skóflur, hrífur og önnur amboð, stangir sem stiginn hékk á og aðrar fyrir vetrar- eða sumardekkin (allt eftir árstíðum). Auðvitað skápur með litlum skúffum fyrir skrúfur, rær og annað slíkt. Skíðin voru meira að segja ofan á röri undir loftinu og voru þess vegna aldrei fyrir neinum.

Stöku sinnum kom dót frá börnum og fjarskyldari ættingjum inn í bílskúrinn, en það hafði lag á að hverfa. Mig grunar að Tómas bróðir minn hafi borið ábyrgð á því þegar hurðir að gamla bókaskápnum okkar hurfu. Að minnsta kosti var enginn vafi á því að hann henti blöðunum úr amerísku sláttuvélinni hans pabba, en árum saman talaði pabbi um þessa ótrúlegu yfirsjón.

Í meginatriðum var bílskúrinn hans pabba þó í röð og reglu. Ekki veit ég hvort hann lærði það í Þýskalandi, en Ordnung muss sein hefði getað verið yfirskrift yfir dyrunum.

Þegar ég flutti í nýtt hús fyrir rúmlega 20 árum einsetti ég mér að svona yrði bílskúrinn minn. Þessi ásetningur virkaði álíka vel og hátíðleg loforð stjórnmálaforingja fyrir kosningar. Ekki var liðið ár þegar alls kyns dót var komið inn í skúrinn. Gamla glæsilega stofuborðið varð að víkja fyrir öðru sem er alls ekki eins mikil mubla, en býr yfir þeim eiginleikum að það má stækka og minnka, allt úr borði fyrir fjóra upp í tuttugu og tvo. Í gömlu ævintýri var sagt frá skipi sem komst fyrir í vasa söguhetjunnar en varð að haffæru fleyi fyrir tugi manna þegar þörf var á. Þannig er borðstofuborðið mitt.

Í kjallaranum er geymsla fyrir ferðatöskur, svefnpoka og því um líkt. Meðfram öllum veggjum eru bókahillur sem voru fljótar að fyllast. Ekki var annað að gera en bera hluta af bókunum út í bílskúr. Ekki þarf að orðlengja um það hve mikið þær voru lesnar eftir það.

Fyrst eftir að við komum heim frá útlöndum fórum við stundum á gönguskíði í Laugardalnum. Nú eru áratugir síðan snjór hélst nógu lengi á jörðu fyrir slíkar æfingar, en það skipti okkur reyndar engu því skíðin voru löngu orðin óaðgengileg, aftast í skúrnum. Reyndar öll í sömu hillu, hvaða máli sem það skipti.

Skrifborð, gamalt fráleggsborð úr þvottahúsinu, sem við breyttum reyndar strax í svefnherbergi, hurðir úr dyraopum á veggjum sem búið er að rífa, gömlu kojurnar sem við keyptum fyrir börnin þegar við bjuggum í Montreal. Allt var geymt með gömlum jólaseríum sem ekki hefur verið kveikt á í áratugi, fallegu kóngulóar­ljósakrónunni og fjölmörgum öðrum dýrgripum.

Sumt notuðum við öðru hvoru. Sláttuvélin er tekin út vikulega, skóflur og kústar líka, þannig að þetta var allt fremst. Dekkin sem ekki pössuðu við árstíðina voru líka hreyfð, þó að þau hafi haft ótrúlega hæfileika til þess að hverfa undir annað dót sem aldrei var snert. Hátalarar og magnarar sem kostuðu formúu og gáfu mér marga ánægjustundina þegar geisladiskaspilarinn virkaði voru líka vandlega faldir undir áðurnefndum borðum, rúmbotnum og hillum úr skápum sem enginn man lengur hvar voru.

Þegar fréttamaður spurði mig hvað ég ætlaði að gera eftir ótímabært brotthvarf úr fjármálaráðuneytinu sagðist ég ætla að taka til í bílskúrnum áður en ég tæki ákvörðun um framtíðina. Einhverjir brostu og sögðu: „Alltaf er hann Benedikt hnyttinn.“ Þeir sem hugsuðu þannig höfðu greinilega aldrei litið inn í bílskúrinn minn. Seinni árin var maður heppinn ef maður gat opnað stóra hlerann. Bakdyrnar var tilgangslaust að opna, þaðan var engin leið fær nema út.

Mér gat ekki verið meiri alvara. Auðvitað skrifaði ég alltaf eitthvað og ég hef ekki neitað vinum mínum sem hafa beðið mig um eitthvað viðvik, en ég gat augljóslega hvergi bundið mig til frambúðar með skúrinn í þessu ástandi. Vetrarmánuðir henta samt ekki vel í svona aðgerðir þannig að ég hélt að mér höndum um sinn.

Í fyrravor kom einn vinur minn með háþrýstidælu heim til mín og skipaði mér að spúla bílaplanið og stéttirnar kringum húsið. Ég er býsna hlýðinn og hóf leikinn, kannski með hangandi hendi. Þvert gegn mínum væntingum gekk það býsna vel og gróðurinn tættist upp.

Eftir púl og spúl var búið að tæta upp allar plöntur kringum húsið, dælan búin að ganga í tvo sólarhringa og tímabært að ganga frá dælunni. Blasti þá ekki við mér skúrinn sem var orðinn svo fullur að út úr flóði. Nú var tímabært að bretta upp ermar.

Með nákvæmum útreikningum fann ég út að ég þyrfti þrjá sólarhringa til þess að tæma skúrinn, fjarlægja það sem við átti og ganga frá hinu. Meðan á þessu stóð þurfti dótið að vera á planinu framan við skúrinn og því varð hann að hanga þurr í 36 tíma.

Víkur þá sögunni að sumrinu 2018, mesta óþurrkasumri í manna minnum. Ég náði einu sinni átta tímum samfellt án úrhellis. Þá hvarf heil blá tunna af bókum. Ekkert er eins erfitt og að henda bókum, horfa á eftir gömlum vinum og öðrum sem maður hafði ætlað að stofna til ánægjustunda með, en náði ekki einu sinni skyndikynnum. En þarna hvarf sem sé heil blá tunna og einhverjir kassar að auki.

Mér tókst líka að búa til einstigi langleiðina frá stóra hleranum að bakdyrunum. Góð byrjun vissulega, en á henni varð ekkert framhald þetta raka sumar. Ég gat þess vegna augljóslega ekki bundið mig í föstu starfi. Aftur var ég í dagvist í Talnakönnun og gerði það sem þurfti, en skipulagði engin ný verkefni.

Þannig var staðan þangað til nú um miðjan maí. Kemur þá ekki glæsilegur sólskinsdagur og yr.no spáði öðrum slíkum daginn eftir. Skemmst er frá því að segja að félagarnir á skrifstofunni sáu í iljar mér og ég boðaði óvissa endurkomu.

Eftir að hafa skipt úr sparifötunum í vinnugallann tók ég heldur betur til hendinni. Reyndar er eins og við höfum lagt sérstaka áherslu á að flækja hluti saman þannig að úr varð Gordíonshnútur. Með mun meiri þolinmæði en Alexander á sínum tíma greiddi ég þó úr óreiðunni og smám saman fækkaði hlutunum inni og fjölgaði úti. Þó var undarlegt að hversu mikið sem ég bar út virtist vart sjá högg á vatni inni.

Að kvöldi annars dags var hrúgan á planinu farin að teygja sig langleiðina frá skúrnum að götunni. Ég leit yfir hauginn og velti því fyrir mér hvað ég ætti að gera við hann. Ein leið var að bera hann inn í skúrinn aftur, en raða honum skipulega. Eftir stutta umhugsun sá ég að það yrði ómögulegt nema ég byggði við skúrinn.

Þess vegna var ráðið að hringja í stóran sendibíl og fá aðstoð við að fjarlægja áratuga sögu sem náði að hluta til fram fyrir hjónabandið, sem þó hefur staðið býsna lengi. Tveir vaskir menn mættu á staðinn. Það fyrsta sem bílstjórinn sagði við mig: „Eigum við ekki bara að samþykkja þennan orkupakka?“ Við náðum vel saman þó að hann segðist reyndar vera flokksbundinn Framsóknarmaður. En bæði hafa þeir batnað stórlega að meðaltali og svo gat ég sannfært hann um að það væri aldrei of seint að skipta yfir í Viðreisn. Þessu samsinnti hann að minnsta kosti áður en ég borgaði honum, en við höfum ekki sést síðan og hann hefur ekki enn sent mér reikninginn sem hann lofaði.

Þetta létti auðvitað á, en ýmsu höfðu þeir gleymt, til dæmis fjölmörgum speglum og rúðum sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan komu. Svo þurfti ég líka að farga miklu fleiri bókum, sem var mun léttara eftir því sem þeim fjölgar sem fara í ruslið.

Smiðshöggið vantaði þó. Ég var staðráðinn í að setja upp festingar á veggina eins pabbi hafði gert í Laugarásnum. Næsta stopp var Húsasmiðjan þar sem ég var svo heppinn að hitta glöggan og góðan starfsmann sem sagði mér hvaða skrúfur ættu best við í hvern krók. Hann brosti reyndar í kampinn þegar ég talaði um sex tommu skrúfur, þegar ég átti augljóslega við sex millimetra skrúfur.

Vigdís mín á náttúrlega fínan Black og Decker bor sem ég hafði aldrei notað, en nú gekk ég berserksgang. Eftir nokkrar ferðir í Skútuvoginn eru skólfur, stigi, haki, kústar og hrífur komnar upp á veggi.

Þegar ég nefndi afrek mitt í framhjáhlaupi í fyrirlestri sem ég hélt um daginn vakti það verðuga athygli. Spurningarnar á eftir snerust miklu meira um tiltektina en framtíð mannkynsins sem var þó efni fyrirlestrarins (ég tek það fram að hlustendur voru flestir nokkuð við aldur og framtíðin því kannski ekki aðaláhugamálið).

Einn spurði: „Hvað þýðir það að vera búinn að taka til í bílskúrnum?“ Af því að minn skúr var eins og ég hef lýst að framan svaraði ég um hæl: „Ef maður sér milli enda“, en það svar vakti litla hrifningu. Eftir að hafa hugsað mig um í viku er kominn að réttri niðurstöðu. Maður er búinn að taka til í bílskúrnum ef:

  1. Maður hefur hent öllum hlutum sem maður er ekki nokkurn veginn viss um að nota á næstu tólf mánuðum.
  2. Maður er búinn að kíkja ofan í allar hirslur í skúrnum og henda því sem ekki uppfyllir lið a.
  3. Allir hlutir í skúrnum eru aðgengilegir.
  4. Maður kemur bíl fyrir í skúrnum.

Þegar ég nefndi þessar reglur fyrir Vigdísi ranghvolfdi hún í sér augunum, sérstaklega yfir d.-liðnum eins og hún hefði aldrei heyrt neitt fáránlegra.

Þess vegna varð ég að leggja bílnum í skúrnum, þó að auðvitað sé engin þörf á því. Hann pípti því að alls staðar voru nálægir hlutir, en inn komst hann, úr honum komst ég og gat lokað bílskúrshurðinni.

Bíll í bílskúr

Fólk hefur tekið eftir því að nú geng ég hnarreistari en áður eftir þetta afrek. Enda er það af þeirri stærðargráðu að síðar mun fólk spyrja: „Hvar varst þú þegar þú heyrðir að Benedikt hefði klárað bílskúrinn?“ Og allir munu geta svarað með stað og tímasetningu.

Ég er ekki viss um nema pabbi hefði verið svolítið stoltur af mér líka.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.