Með vorskipunum barst ályktun mikils alvörufundar Íslendinga á Kanaríeyjum sem varaði þjóðina við innflutningi á útlendum mat. Við sem heima sitjum erum þakklát fyrir umhyggju þessara landa okkar sem hafa af eigin raun kynnst hættunum af erlendri fæðu.
Ef vel er að gáð náði ályktun þessa góða hóps þó ekki nógu langt. Sérfræðingar hafa bent á fjölmargar smitleiðir vegna stórhættulegra erlendra sýkla:
- Útlendir fuglar fljúga til Íslands. Þetta hefur viðgengist alllengi.
- Milljónir útlendinga koma til Íslands á hverju ári.
- Mýs og rottur ferðast með skipum, komast í land og setjast hér að.
- Útlent grænmeti og ávextir eru flutt til Íslands. Með þeim berst stundum óværa.
- Óábyrgt fólk kaupir útlendar plöntur (sjá 4).
- Erlendir ferðamenn eru í óþvegnum fötum sem geta borið með sér sýkla.
- Útlendingar koma á bílum til landsins sem ekki eru sótthreinsaðir. Sumir þeirra hafa keyrt um landbúnaðarhéruð í útlöndum.
- Íslendingar fara til útlanda. Þeir óábyrgu borða þar mat, klæðast fötum og koma heim í bílum.
- Útlendingar sem hingað koma hafa oft með sér mat (sem auðvitað er bannað, en gerist samt).
- Íslenskir sjómenn og flugfólk hafa smyglað inn erlendum mat (sem er auðvitað löngu hætt, en maður hefur lesið um þetta).
- Veitingastaðir hér á landi hafa boðið upp á smyglvarning, en ekki auglýst það mikið.
- Kaupmenn buðu stundum í gamla daga upp á smyglað kjöt af ýmsu tagi.
- Íslenskir ferðamenn hafa árum saman smyglað kjöti til landsins.
- Áhættufíklar dvelja langdvölum erlendis við nám og störf, t.d. á Spáni.
Enginn efast um að öllu þessu fylgir stórkostleg hætta. Því er nauðsynlegt að almenningur verði sérstaklega minntur á að taka með sér mat til útlanda. Jafnframt er eðlilegt að Lánasjóður íslenskra námsmanna hætti að lána til náms í löndum þar sem ekki er hægt að kaupa íslenskan mat.
Margir muna enn hættuna sem Osta- og smjörsalan setti almenning í þegar írskt smjör var narrað ofan í Íslendinga fyrir nokkrum árum. Nú á að tæla almenning til þess að snæða hrátt útlent kjöt. Sérfræðingur hefur bent á að hættan felist ekki síst í því að fólk sem leggur sér til munns hrátt kjöt noti kamra eða engin salerni yfirhöfuð. Þetta eru sterk rök.
Aldrei má gleyma viðvörun fv. forsætisráðherra um bogfrymil í útlendum mat, veiru sem „getur leitt til breytinga á hegðunarmynstri, þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað hvort þetta kunni að vera breyta hegðun heilu þjóðanna.“
Upptakan af ummælunum var líklega þaulskipulögð og gerð án vitundar ráðherrans og því skylt að eyða henni. Til öryggis ættu lesendur að brenna blaðið með þessari grein þar sem vitnað er til orða ráðherrans fyrrverandi.
Birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2019