Fallvalt er lán heimsins

Ég var nýlega í Portúgal, sem var fyrir nokkrum öldum heimsveldi með nýlendur í mörgum heimsálfum. Fyrir 50 árum var það orðið eitt fátækasta land í Evrópu. Sic transit gloria mundi var sagt við vígslu páfa – til þess að minna jafnvel æðsta mann kirkjunnar á að lán heimsins er fallvalt. Jafnvel hin voldugustu ríki geta hrunið eins og spilaborgir.

Íhugum hvað er hægt að læra af sögu Portúgala. Hvað olli því að þeir urðu svo ríkir að þeir gátu byggt hallir og kirkjur sem jafnast á við það glæsilegasta sem til var í Evrópu á sínum tíma? Best vegnaði þeim þegar þeir könnuðu ókunna stigu og eignuðu sér lönd, voru frumkvöðlar síns tíma. Sums staðar fundu þeir verðmæta vöru sem þeir græddu vel á: Krydd, gull og þræla.

Einhverjum datt þá í hug að snjallt væri að nota þennan nýfundna auð til þess að breyta einhæfu atvinnulífi sem byggði fyrst og fremst á landbúnaði og fiskveiðum. Iðnbyltingin var að stíga sín fyrstu skref og Englendingar tóku henni opnum örmum. Portúgalar voru aftur á móti tortryggnir á nýja atvinnugrein sem tók vinnuafl úr sveitunum, frá bændum til iðnrekenda. Þegar gullið var uppurið var ekkert annað sem tók við. Vissulega hjálpaði það ekki að Lissabon hrundi til grunna í miklum jarðskjálfta og flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið.

Sic transit gloria mundi.

Eitt af því sem hrjáði Portúgal var ógnin af stórum nágranna, Spáni. Portúgalar gerðu bandalag við Englendinga til þess að styrkja stöðu sína. Þetta hafa þjóðirnar gert í gegnum tíðina. Þær eru sterkari saman en hver í sínu lagi.

Snemma á 20. öld varð Portúgal eitt fyrstu Vestur-Evrópuríkjanna sem tók upp einræði. Meðan fasisminn var að hreiðra um sig í Evrópu tók Salazar, rúmlega fertugur hagfræðingur, völdin og hélt þeim þar til hann varð tæplega áttræður. Hann rak stefnu einangrunar og þjóðernishyggju. Undir hans stjórn varð Portúgal eitt fátækasta ríki álfunnar.

Salazar fékk heilablæðingu árið 1968 og var ekki hugað líf. Nýr forsætisráðherra tók við. Öllum að óvörum náði gamli einvaldurinn aftur meðvitund. Enginn gat fengið af sér að segja honum frá valdamissinum og ráðherrar héldu áfram að mæta til hans og taka við skipunum þar til hann dó, tveimur árum seinna.

Portúgal innleiddi aftur lýðræði árið 1974 og gekk í Evrópusambandið árið 1986. Leiðin var upp á við fram á árið 2008, þegar landið var eitt þeirra ríkja sem kom verst út úr hruninu, rétt eins og Ísland. Viðsnúningurinn hefur gengið hægt, en atvinnuleysi er nú orðið minna en fyrir hrun. Vandinn er ekki síst miklar skuldir ríkisins.

Hvað geta Íslendingar lært af Portúgölum?

Það er óskynsamlegt fyrir þjóðir að vera einangraðar og hafa einhæft atvinnulíf. Og ekki síst: Lán heimsins er fallvalt. Þegar á móti blæs er gott að eiga vini.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.