Stuðningsmaður númer eitt

Í dag var útför Kristínar Einarsdóttur, 95 ára gamallar konu sem var góð vinkona mín. Reyndar held ég að það sé óhætt að segja að hún hafi verið stuðningsmaður minn númer eitt í pólitíkinni. Það var ekki svo lítið hrós frá konu sem fylgdist af áhuga með stjórnmálum í marga áratugi og þekkti alla stjórnmálamenn sem máli skiptu og ættir þeirra.

Þó að Kristín hafi verið mér óskyld, hef ég þekkt hana í meira en fimmtíu ár. Hún var nefnilega tengdamóðir bróður míns. Það sem meira er, ég man eftir henni frá því áður en þau Tómas og Fríða giftu sig.

Það var sumarið ´67 þegar Kristín gekk upp Fischersundið og mætti tólf ára gömlum strák. Þetta sumar var ég sendill á Mogganum. Kristín heilsaði mér auðvitað og spjallaði svolítið við piltinn eins og hann væri gamall kunningi. Skömmu síðar barst þetta í tal milli mín og Fríðu, verðandi mágkonu minnar. „Já, hún er á séns uppi á Garðastræti“, sagði Fríða. Ég vissi auðvitað vel að hún var að fara að hitta Helga Ólafs, sem vann á fasteignasölu í Garðastræti 17. Kannski vita krakkar svona, eða kannski var ég bara svona skrítið barn.

Rúmum áratug síðar gistu þau hjón hjá okkur í Flórída með Fríðu, Tómasi og þeirra dætrum. Þau voru óvön sterku sólskini og komu skaðbrennd til baka eftir dvöl á ströndinni, sérstaklega Kristín, sem gat ekki gengið, svo mjög voru lærin brennd. En hún hafði lag á að sjá það jákvæða: „Ég hef enn tilfinningu í fótunum.“ Þeir löguðust líka aftur og dugðu í 40 ár í viðbót.

Þegar Helgi maður hennar lést eftir langvarandi veikindi sá Kristín líka jákvæða hlið. Helgi dó í anddyrinu á Landspítalanum þegar hún ætlaði að flytja hann heim. Þá sagði Kristín: „Það var gott að hann Helgi dó á spítalanum, það er svo mikil pappírsvinna og vesen þegar fólk deyr í heimahúsum.“

Undanfarin ár hef ég haft þann sið að heimsækja Kristínu á aðfangadag á Hrafnistu, steinsnar frá mínu heimili. Fyrir um jólin 2015 skrifaði ég um ferðir mínar á aðfangadag:

Ég endaði túrinn á Hrafnistu hjá ömmu Kristínar frænku og nöfnu, Kristínu Einarsdóttur. Hún er sú eina sem hefur lofað að kjósa mig þegar ég býð mig fram og mér þykir því eðlilega afar vænt um hana. Kristín er orðin 91 árs og kvartar undan því að minnið sé farið að gefa sig. Hún sagði mér líka að hún héldi að hún ætti ekki langt eftir ólifað, en ég sagði henni að hún yrði að minnsta kosti að reyna að endast fram yfir kosningar, þá lofaði hún að gera sitt besta, að minnsta kosti myndi hún hugsa hlýlega til mín, hvernig sem ástatt væri.

Svo spurði hún mig út í börnin og hvernig þeim líkaði hverju á sínum stað, Steinunni í Skaftahlíðinni og Jóhannesi á Lindargötunni. Svo sagði hún mér sögur af konunni sem átti Lindargötuna og hélt áfram: „Og Jón býr enn í kjallaranum hjá ykkur, er það ekki?“

Þá hugsaði ég að Kristínu væri farið að förlast, en mundi þá að við höfðum ekkert hist síðan hann flutti út í sumar. Ég útskýrði að hann og Tóta hefðu flutt á Framnesveg 3. „Já það er á horninu við Vesturgötu“, sagði Kristín, „það var skóbúð í húsinu á móti.“ Svo þegar hún hafði heyrt að allt gengi vel hjá þeim bætti hún við, að hún hefði heyrt kveðju lesna í útvarpinu frá pabba Tótu.

Svo sagði hún mér að það væri orðið tímabært hjá Ólafi Ragnari að hætta („og þótt fyrr hefði verið“ bætti ég við). „Hann ætlar samt greinilega að halda áfram“, sagði hún, „fyrst hann er farinn að úthluta matarpökkum.“

Það var bankað og inn kom stúlka með sérríglas sem hún bauð Kristínu. „Það er hugsað afskaplega vel um mann hérna“, sagði hún um leið og hún bergði á glasinu.

Ég fékk mér enn einn konfektmolann og hefði eflaust klárað úr skálinni ef Fríða mágkona mín hefði ekki komið og bjargað því sem bjargað varð. Ég kvaddi þær báðar með kossi og bauð gleðileg jól.

„Gleðileg jól!“ sagði Kristín. „Og ég stend við mitt!“

Og Kristín stóð við sitt, kaus ekki bara Viðreisn heldur reyndi að tala um fyrir öðrum vistmönnum. „Ég skil ekkert í fólki að það vilji ekki fleiri kjósa hann Benedikt“, sagði hún við Fríðu dóttur sína. Við vorum sammála um það við Kristín.

Síðastliðið haust hitti ég Kristínu og Anton son hennar fyrir utan Hrafnistu og fór með þeim inn og spjallaði í um hálftíma. Fríða hafði sagt mér að mömmu sinni hefði hrakað mikið og ég var þess vegna ánægður að hún þekkti mig. En hún lagði lítið til málanna, sem mér fannst ekki skrítið og var svo sem ekki viss um hve vel hún hefði fylgst með. En daginn eftir sagði hún við Fríðu: „Hann Benedikt kom hingað í gær, en ég náði að ekki að tala neitt við hann, því að hann Anton talaði svo mikið.“

Svona var Kristín, vildi vera með allt fram undir það síðasta. Góð kona sem leitaði alltaf að því jákvæða í lífinu, þó svo að það snerist á ýmsa lund. Mér þótti ósköp vænt um Kristínu og ég sakna stuðningsmanns númer eitt.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.