Verum hrædd. Verum mjög hrædd

Ein áhrifamesta tækni stjórnmálamanna er að benda á óvin og skapa ótta. Óvinurinn getur verið raunverulegur maður, þjóð, sjúkdómur eða jafnvel hugmynd eða hlutur. Alls ekki er nauðsynlegt að neitt af þessu sé til, nóg er að það gæti verið til eða orðið til.

Pólitíkusar sem beita þessari tækni ná oft miklum árangri. Nefna má yfirlýsingar McCarthys öldungadeildarþingmanns í Bandaríkjunum, sem olli fári um miðja síðustu öld, um að tugir eða hundruð flokksbundinna kommúnista ynnu hjá ríkinu. Þó að hann segðist hafa lista með 57 eða 205 nöfnum kommúnista í höndunum komst hann upp með að sýna þá lista aldrei. Hann beitti þeirri tækni að draga aldrei í land, jafnvel þó að sýnt væri að hann færi með staðlausa stafi.

Í nútímanum sjáum við mörg dæmi um þetta. Fólk neitar að láta sprauta börnin sín gegn sjúkdómum af ótta við ímyndaðar afleiðingar bólusetningarinnar. Falsáróður er settur fram og jafnvel þó að hann sé til baka borinn trúa einhverjir honum. Það er oft nóg fyrir stjórnmálamanninn sem spilar á ótta þessa hóps.

Rússar hafa náð miklum árangri með þessum aðferðum. Þeir finna þá afkima samfélagsins þar sem jarðvegur er frjór fyrir slíkan málflutning og dæla honum þar út. Nú síðast hefur rússnesk sjónvarpsstöð í Bandaríkjunum, RT America, sent út sjö þætti um hætturnar af 5G-símkerfum sem geti valdið „krabbameini í heila, ófrjósemi, einhverfu, hjartaæxlum og Alzheimers-heilabilun“. Engin vísindaleg rök eru fyrir þessum fullyrðingum og Rússar vinna sjálfir að 5G-kerfi, en vilja skapa tortryggni í Bandaríkjunum og tefja þannig þróunina þar.

Svipað mál kom upp vegna loftnets á Úlfarsfelli fyrir skömmu. Þá kom færsla frá Eðlisfræðivefnum á FB: „Rétt eins og með bóluefni eru niðurstöðurnar á þann veg að engin markverð vensl hafa fundist þrátt fyrir ítarlega leit. Við þurfum því ekki að óttast útvarps- eða örbylgjur. Fáfræðin er hins vegar öllu verri.“

Þegar Ísland tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi sá andstæðingar oft fræjum tortryggni. Jafnvel þótt samstarfið hafi til þessa verið öllum til góðs gæti það í framtíðinni snúist upp í andhverfu sína. Boðskapurinn er einfaldur: Útlendingar eru varhugaverðir og vilja klekkja á Íslendingum. Alræði og sovétkerfi eru á næsta leiti.

Þegar bent er á að hræðsluáróðurinn byggi ekki á neinum rökum er þrautalending áróðursmeistaranna að segja: Er ekki vissara að láta [það sem hentar í það skiptið] njóta vafans? Fólk sem ekki hefur tíma til þess að kynna sér málin er opið fyrir slíkum málflutningi.

Baldur Sigurðsson, dósent við HÍ, orðaði kjarna málsins vel í nýlegri FB-færslu: „Án þess að fara nánar út í þá greiningu virðist mér að hjá sumum byggist stjórnmál á að rækta óvináttu og tortryggni — hjá öðrum vináttu og traust.“


Greinin birtist í Morgunblaðinu 14.4.2019

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.