Reynir heitinn Zoega, föðurbróðir minn, sagði einu sinni við mig: „Fyrirtæki eiga ekki að safna skuldum út um allt; þau eiga bara að skulda bönkum.“ Reynir var um árabil formaður stjórnar Sparisjóðs Norðfjarðar og hafði góða innsýn í lánamál fyrirtækja. Reglan kemur í veg fyrir eða minnkar mörg áföllin, sé henni fylgt. Bankar eru ekki alvitrir, en það er hlutverk þeirra að lána fé og meta áhættu.
Fyrir allmörgum árum ráðlagði ég þekktu fyrirtæki um fjármál. Skuldir þess voru býsna miklar, en þær voru allar við viðskiptabanka félagsins. Þeir sem seldu fyrirtækinu vörur eða þjónustu fengu alltaf greitt á gjalddaga. Félagið komst í gegnum erfiðleikana og orðspor þess beið engan hnekki.
Sögurnar koma upp í hugann þegar fréttir berast af því að ríkisfyrirtækið Isavia hafi hleypt WOW air í vanskil upp á tvo milljarða króna. Þetta er engin smáfjárhæð. Árið 2017 voru flugtengdar tekjur Isavia um 12 milljarðar króna og skuldin því tæplega 17% af tekjum þess árs. Sá sem lánar án trygginga ber ekki minni ábyrgð en hinn sem fær lánið. Skuldir sem ekki eru innheimtar borgast oft seint eða aldrei.
Í svari við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar á Alþingi segir m.a.: „[Isavia] leggur áherslu á jafnræði milli flugfélaga hvort sem um er að ræða gjaldtöku, innheimtu eða aðra þætti.“ Reynslan bendir til þess að þetta sé ekki nákvæmt svar.
Alþingi hefur eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdavaldinu. Því vekur athygli að Isavia fór undan í flæmingi í svörum við fyrirspurnum Jóns Steindórs haustið 2018. Spyrja má hvort upplýsingar til ráðherra hafi líka verið ónákvæmar eða blekkjandi.
Í fyrrnefndu svari segir að „engum flugrekanda [hafi] verið synjað um viðskipti vegna vangreiddra gjalda enda verður ekki séð að það sé heimilt. Alltaf geta komið upp tilvik eða aðstæður sem leiða til þess að ekki er greitt á réttum tíma, enda er flugrekstur sveiflukenndur rekstur.“ Fram kemur í svarinu að ráðherra „hefur ekki sérstaka skoðun á fyrirkomulagi fyrirtækisins í þessum efnum.“
Samkvæmt dómi Héraðsdóms hefur ríkið tapað sem nemur fjórum bröggum á þessari lánastarfsemi. Flugfélag sem getur ekki greitt flugrekstrargjöld í lok sumars er augljóslega ekki í tímabundnum vandræðum. Þess vegna er löngu orðið tímabært að ráðherra myndi sér skoðun á fyrirkomulaginu og afli lagaheimilda til þess að synja þeim um viðskipti við Isavia sem ekki borga. Lánastarfsemi er ekki hlutverk ríkisins.
Ásgeir Hannes Eiríksson seldi á sínum tíma pulsur úr vagni í Austurstræti við hlið Útvegsbankans. Einhver sem átti ekki fyrir pulsu þá stundina spurði Ásgeir hvort hann mætti ekki borga næst. Svarið var: „Nei, ég hef samið við bankann. Hann selur ekki pulsur og ég lána engum.“
Þetta var góð verkaskipting.
Birtist í Morgunblaðinu 4.5. 2019