Upphafsmaður nútímans í viðskiptalífinu

Hörður Sigurgestsson var frumkvöðull sem leiddi Eimskipafélagið og viðskiptalífið allt í gegnum byltingu í stjórnarháttum. Samtímis var hann formfastur og maður framfara, en hafði líka þann allt of fágæta eiginleika að hafa sjálfstæðar skoðanir og geta tekið af skarið. Stjórnendur sem störfuðu undir handarjaðri Harðar hafa verið leiðandi í viðskiptalífinu fram á þennan dag. Kalla má þetta skeið viðskiptaháskóla Eimskips.

Vegna þess „prússneska“ yfirbragðs sem var á stjórnunarstíl Harðar að hans eigin sögn áttuðu margir sig ekki á því hversu víðsýnn hann var.  Í jólablaði Vísbendingarárið 2005 birtist viðtal við Hörð. Gefum honum orðið:

„Mín niðurstaða er að sumt fólk hafi hæfileika til að leiða aðra, hafi yfirsýn og horfi fram í tímann betur en aðrir. Stjórnandinn verður að eiga gott með að tjá sig og leiða hóp. Fólk sem hefur þessa hæfileika er besta efnið í stjórnendur.

Ég lagði áherslu á menntun, að nýir stjórnendur hefðu góða háskólamenntun. Það var einungis einn viðskiptafræðingur hjá Eimskip þegar ég kom þangað, Þorkell Sigurlaugsson. Þegar ég kom heim frá framhaldsnámi 1968 var það undantekning ef menn með viðskiptafræðimenntun voru áhrifamenn í viðskiptalífinu.

Kannski vorum við að mörgu leyti akademískir stjórnendur. Við þurftum þó ekki mjög langan tíma til að taka ákvarðanir.“

Útrásin svonefnda var hafin af krafti: „Það er eðlilegt að menn þurfi að hafa vara á sér ef hinar raunverulegu höfuðstöðvar þessara fyrirtækja fara að flytjast í meira mæli en nú til útlanda. Þá á ég ekki við hinar lögformlegu höfuðstöðvar heldur hvar foringjarnir eru og hugvitið er.“ Í framhaldinu velti Hörður fyrir sér hvort það væri heppilegt að þróun íslensks atvinnulífs væri í ríkum mæli komin undir bönkunum.

Hver átti staða Íslands að vera í samfélagi þjóðanna? „Útflutningur sjávarútvegsfyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu hefur minnkað hratt. [Þá] breytist ýmislegt annað, eins og t.d. rökin fyrir því að við getum ekki gengið í Evrópusambandið. Við hljótum að vilja skoða hvernig við getum orðið meiri þátttakendur í Evrópu 21. aldarinnar en hingað til. Ég er ekki að hugsa um þetta bara út frá peningum, hvað við fáum eða þurfum að borga. Það er áhugavert að búa til sterka Evrópu sem er mótvægi, ásamt Bandaríkjunum, við önnur stórveldi sem eru að verða til. Ég skil heldur ekki að menn vilji ekki sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.“

„Á starfstíma mínum hjá Eimskip urðu dramatískar breytingar á Íslandi. Hér skapaðist viðskiptasamfélag hliðstætt því sem tíðkaðist í helstu samskiptalöndum okkar. Frelsið jókst og afskipti ríkisvaldsins urðu minni. Viðhorf verkalýðshreyfingarinnar urðu jákvæðari, hún nýttist betur félögum sínum, en völdin hafa minnkað.“


Birtist í Morgunblaðinu 25.4. 2019. Hörður lést 22.4.2019.

1 comments

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.