Svei þér þinn prakkari – íslensk píslarsaga

Þessa dagana rifja margir upp píslarsögu Krists og við höldum páska. Sumir efast um sannleika guðspjallanna, en í raun og veru skiptir ekki öllu máli hvernig við trúum þeim, hvort við lítum á þau sem sögur eða boðskap, þau eru merkilegar bókmenntir sem hafa haft meiri áhrif en nokkur önnur skrif.

Innan lútersku kirkjunnar er talað um siðbótina þegar kaþólskan var aflögð um miðja sextándu öld. Svo merkilega vill til að af síðustu andartökum kaþólskunnar er til nákvæm frásögn eftir Jón Espólín annálaritara.

Það er merkilegt, að síðasti kaþólski biskupinn er líka forfaðir allra Íslendinga, þeirra sem ekki eru aðfluttir, eða börn innflytjenda. Á þessum árum var ekki eins stranglega gengið eftir hreinlífi kaþólskra presta og stundum fyrr og síðar. Nokkrir páfar áttu börn á þessum árum og fleiri áttu sér frillur að sagt er. Jón átti mörg börn með „fylgikonu“ sinni, Helgu Sigurðardóttur, þannig að hann var ekki kaþólskari en páfinn, þótt kaþólskur væri.

Jón hefur ekki tekið sig allt of alvarlega og svaraði þegar prestur ávarpaði hann á latínu:

Latína er list mæt,
lögsnar Böðvar,
í henni eg kann
ekki par, Böðvar.
Þætti mér þó rétt
þitt svar, Böðvar,
míns ef væri móðurlands
málfar, Böðvar.

Hann barðist hart gegn hinum nýja sið og tókst að halda sínum hlut í allmörg ár eftir að Skálholt var orðið lúterskt biskupssetur. Svo fór þó að hann og synir hans tveir, Ari lögmaður og Björn prestur voru handteknir og hafðir í haldi í Skálholti.

Sýndist sitt hverjum, en loks ákveðið að „öxin og jörðin“ geymdu þá best og þeir teknir af lífi án dóms og laga. Jón Espólín segir frá þeirra síðustu dögum og hvernig þeir brugðust við dauða sínum.


Var nú þeim feðgum sagt hvað af var ráðið, en þangað til voru þeir lengi góðrar vonar að þeir mundu lausir látnir, og mælti Jón biskup það oft: „Að jólum verðum vér á Hólum“. En nú tók hann að kannast við hve langt hann hefði fram farið í slíkum stórræðum, og kvað þetta:

Vondslega hefir oss veröldin blekkt,
vélað og tælt oss nógu frekt,
ef ég skal dæmdur af danskri slekt
og deyja svo fyrir kóngsins mekt.

Björn barst af aumlega, en Ari varð hreystilega við. Eigi gekk dómur um slíkt stórvirki, og reiddi því illa að flasað var að, sem enn mun sagt verða.

Var nú sent eftir Jóni Ólafssyni Bessastaðaböðli, dreng lítt nýtum. Þeir feðgar höfðu geymdir verið allir saman í biskups baðstofunni í Skálholti, þar til er þetta var orðið, en nú voru þeir aðskildir, var biskup í hinni sömu baðstofu, en Björn prestur var látinn í Ásmundarstofu, hún stóð þar sem síðar var gengið inn í herbergin, á vinstri hönd úr norðurgöngunum. En Ari var í presta baðstofunni, þar stóð síðan skólinn. Var sérhverjum þeirra fenginn prestur til að hafa fyrir þeim kristilegar fortölur, bjuggust þeir og vel við dauða sínum, það á var að sjá. Þeir höfðu messu hvern dag, meðan þeir voru í Skálholti, og gaf biskup þeim og sér guðs líkama að því er þeir kölluðu, og eins hinn síðasta daginn uppi í kirkju. Var helst orð á gert hve karlmannlega Ari hefði við orðið. Þá hina síðustu nótt gekk hann um gólf með söngvum og lestrum, en fell stundum á kné til bænar.

Þar var hjá honum Jón Ólafsson systurson Daða, hinn hraustasti maður. Ari bað hann höggva sig og bauð honum til hinn besta klæðnað sinn og þann kostgrip úr eigu sinni sem hann vildi, sagði að mannleysi það megnaði því ei, er það skyldi vinna. Jón vildi það ekki, kvaðst ei hafa mátt þá hann vildi, en það var á Sauðafellsfundi. Vindustokkur forn frá kirkjunni var fluttur fyrst austur á klettana, og ætlaður fyrir höggstokk, en skarð höggvið í fyrir hökunni. Hann stóð fyrir austan túnið sjálft fyrir ofan Þorlákssæti. Um sólaruppkomu þá er þeir feðgar höfðu áður tekið guðs líkama sem fyrr segir, var Ari leiddur út af prestastofunni.

Hann mælti þá: „Héðan mun margur göfugur út ganga“. Það þykir hafa orðið að spá. Og er hann gekk lengra fram mælti hann: „Nauðugur gekk ég til þessa leiks, en þó skal nú viljugur út ganga“.

En sem hann kom á höggstokkinn mælti hann: „Skal hér nú staðar nema, minn herra?“ „Já“, sagði Kristján skrifari. Ari mælti: „Svei þér þinn prakkari, aldrei kallaði ég þig minn herra, heldur talaði ég til míns drottins“. Margir hörmuðu hann, og kváðu mikinn skaða í af töku slíkra manna og vildu eigi vera þar viðstaddir. Eigi vildi hann láta binda fyrir augu sér, og er hann kraup við höggstokkinn mælti hann að böðullinn skyldi eiga hatt sinn, ef hann höggvi sig hreinlega. Stóð svo á knjánum og las bænir sínar og seinast: In manus tuas domine comendo spiritum meum. (Drottinn, í þínar hendur fel ég anda minn). Síðan setti hann hökuna í skarðið á stokknum og teygði hálsinn svo að sá til allra sina og æða. Tók höfuðið af í einu höggi.

Björn prestur hafði mest ámæli af mörgum manni af tillögum sínum og tiltektum meðan hamingjan lét honum, en nú var hann fullur trega og bar sig hörmulega, skaut helst við um börn sín. Hann bað um líf og hét að hefna aldrei þess, er nú var orðið, en það fékkst ekki, því hann var þeim óþokkaður mjög, en sá þótti ágætari er látinn var.

Höggstokkurinn var þá fluttur upp með túninu, á aðra kletta nokkru ofar. Var Björn prestur leiddur þangað og var mjög aumlegt að sjá til hans og heyra. Hann mælti oft: „Æ, æ, börnin mín ung og smá“. En er hann lagðist á höggstokkinn kreppti hann hálsinn af harmi og kviða, svo ei tók af höfuðið fyrr en í fjórða höggi.

Nú var Jóni biskupi sagt líflát sona hans, og honum þá boðið líf en hann kvað þá sér svo fylgt hafa, að hann vildi nú fylgja þeim. Og er hann gekk fram úr kórnum í kirkjunni og hafði krossmark í hendi, vildi hann krjúpa frammi fyrir Maríu líkneski, er þar var nærri, en prestur sá, er honum fylgdi og hafði kristilegar fortölur fyrir honum, er Sveinn hét, bað hann láta af slíkri hérvillu, og mælti það meðal annars: „Líf er eftir þetta líf, herra“. Biskup snerist við honum snögglega og mælti: „Veit ég það, Sveinki“.

Höggstokkurinn var þá fluttur upp undir klettana hjá almenningsgötu, og er biskup var leiddur þangað stóðu þeir skammt þaðan á þúfu einni Marteinn biskup, Kristján og Daði. Biskup gekk að Daða og bauð honum að leysa hann úr banninu. Daði mælti: „Þú sérð nú ekki meira bann á mér en þér“. Við það gekk biskup hryggur að höggstokknum og fól sig guði, kraup fram og mælti: „In manus tuas, domine, commendo spiritum meum“.

Var hann orðinn boginn mjög á herðarnar, svo höfuðið var nær fram úr bringunni. Komu axarhöggin mjög á axlirnar, svo ekki tók af fyrr en í fimmta höggi eða sjötta. Lágu svo líkamir þeirra feðga þar fram eftir deginum, og var lítt um hirt, þar til er þeir fengu kirkjuleg fyrir tillögur góðra manna og voru jarðaðir skammt fyrir aftan kórinn. Skeði þessi tilburður á föstudag hinn sjöunda nóvembermánaðar, þá Jón Arason hafði biskup verið í sex vetur og tuttugu, en skorti á vetur í sjötugan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.