Stjórnvöld í spennitreyju

Þegar verðbólgan var að sækja í sig veðrið, mjakaði sér úr tíu prósentum yfir hundraðið á rúmum áratug, var ég sannfærður um að léleg efnahagsstjórn á Íslandi væri lélegum hagfræðingum að kenna.

Í raun var það fyrst þegar hagfræðin seytlaði inn í huga stjórnmálamanna að von vaknaði um árangur. Vinstri stjórn innleiddi verðtryggingu árið 1979, en hún varð grundvöllur að því að hægt væri að byggja upp lífeyriskerfi landsmanna. Önnur vinstri stjórn festi kvótakerfi og framsal kvóta í sessi árið 1990, en með því var lagður grunnur að arðbærri útgerð.

Verkalýðshreyfingin tók hagfræðina líka í sína þjónustu við lok níunda áratugs síðustu aldar. Hún stóð að samningum, sem ýttu undir kaupmáttaraukningu sem á engan sinn líka, í stað krónutöluhækkana sem sífellt eltu óðaverðbólguna.

Um aldamót var Seðlabankanum svo falið það hlutverk að hemja verðbólguna. Bankinn nýtir einkum vaxtavopnið sem beit ekki vel þegar flest lán voru annað hvort í erlendum gjaldeyri eða verðtryggð. Síðustu ár hefur bankinn náð markmiðum sínum, en vextir á Íslandi eru enn miklu hærri en í nágrannalöndunum, sem skaðar samkeppnishæfni fyrirtækja og þrengir hag ungs fólks.

Fyrir nokkrum árum kom fram merkilegt hagstjórnartæki, fjármálastefna til fimm ára með samsvarandi fjármálaáætlunum. Í lögum eru sett fram skýr markmið um afkomu og skuldir ríkisins og kveðið á um að fylgt skuli fimm stefnumiðum: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festu og gagnsæi.

Fjármálaráð er óháð stjórnvöldum og fer yfir fjármálastefnu og -áætlanir. Það hefur skilað skýrslu um fjármálaáætlunina sem nú liggur fyrir Alþingi. Ráðinu verður tíðrætt um að stjórnvöld geti „lent í spennitreyju eigin stefnu“ þó að aðstæður kalli á annað. Það er ekki sagt berum orðum, en ráðið virðist telja að stjórnvöld hafi, ein og sér, bætt sjötta stefnumiðinu við þau fimm sem í lögunum standa: Bjartsýni. Aftur á móti sé sjaldan er minnst á varfærni en „það verður að teljast óheppilegt miðað við þær aðstæður sem efnahagslífið býr við um þessar mundir.“ Ráðið bætir við: „Varfærni í ákvörðunartöku er nauðsynleg, mikilvægt er að sýna festu til að minnka óvissu og á sama tíma þarf að gæta fulls gagnsæis svo að hagsmunaaðilar geti rýnt áætlunina.“

Ráðið bendir á að „í áætlunum sé almennt gefið eftir í aðhaldi til skamms tíma en til lengri tíma sé aðhaldið aukið.“ Aðhaldið er sem sé fært næstu stjórnvöldum í vöggugjöf. Fjármálaráð óttast greinilega um að framhaldið: „Þegar stefnumið setja ákvörðunum stjórnvalda skorður er mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft varðandi áform stjórnvalda í hagstjórn og að óvænt framvinda leiði ekki til þess að festu í stefnu og áætlunum sé kastað fyrir róða.“ Sem sé: Raunsæi væri líka gott stefnumið.


Birtist í Morgunblaðinu 13. apríl 2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.