Klár í síðustu kreppu

Sagt er að það sem aldrei hafi gerst áður geti alltaf komið fyrir aftur. Þegar bankarnir féllu fyrir rúmum áratug kom áfallið sjálft ekki á óvart. Þjóðin hafði hvað eftir annað verið vöruð við og allir vissu að eitthvað hlaut að gefa eftir. Það sem kom á óvart var að gjaldþrotið varð hrun. Í fjölmiðlum var í alvöru rætt um hvort þjóðin gæti lifað af fiski og innlendum kartöflum.

Um víða veröld gilda nú nýjar reglur sem eiga að draga úr hættunni á öðru bankahruni. Á Íslandi hefur eftirlit verið hert og kröfur um eigin- og lausafjárstöðu bankanna eru svo miklar að þeir kveinka sér. Það er afar ólíklegt að bankarnir falli á næstunni. Víst er það gott, en hvers vegna er þjóðin núna allt í einu í áfalli á ný? Í einu vetfangi verða þúsundir atvinnulausar. Vöxtur sem spáð var að héldi linnulaust áfram hefur allt í einu stoppað.

Líklega hafa fá gjaldþrot gert jafnrækilega boð á undan sér og brotlending WOW. Þrátt fyrir það voru flugfarþegar samkvæmt fréttum „furðu lostnir“ og það „kom flestum í opna skjöldu“ þegar öllu flugi var aflýst. Allir fjölmiðlar fluttu á sama tíma gagnrýnislaust eftirfarandi frétt: „WOW air er á lokametrunum að klára hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp á félaginu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samningar verða kláraðir.“ Enginn fréttamaður spurði hvers vegna nýju hluthafarnir vildu stoppa allt flug eða velti því fyrir sér hvort líklegt væri að þeir teldu betra að taka við félaginu með strandaða farþega víða um heim.

WOW bauð upp á ódýrar ferðir til nálægra og fjarlægra staða og því var fagnað af flugfarþegum. Stór hluti af fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi kom til vegna WOW. En félög þurfa að skila hagnaði. Eftir mitt ár 2018 var sagt frá því tap hefði verið á rekstri árið 2017 en „horfur fyrir árið 2018 [væru] ágætar.“ Rúmlega mánuði seinna bárust fréttir af skuldabréfaútboði félagsins vegna nauðsynlegrar „brúarfjármögnunar“. Ríkisstjórnin setti sérstakan viðbragðshóp í gang. Á sama tíma var upplýst að WOW skuldaði ríkinu tæplega tvo milljarða króna í gjöld á Keflavíkurflugvelli.

Sumir telja að ríkið hefði átt að taka við rekstri WOW með einhverjum hætti, en ég tel ákvörðun ríkisstjórnarinnar þar um hárrétta. Hvað hefði ríkið þá getað gert betur?

1.     Isavia hefði ekki átt að leyfa skuldum að hrannast upp. Hvort sem til er veð eða ekki er mikil söfnun skulda hættumerki í rekstri. Meiri skuldir þýða stærri skell.

2.     Þegar fyrirtæki eru jafn mikilvæg þjóðhagslega og WOW verður að gera kröfu um gagnsæi í rekstri, skjóta og rétta miðlun upplýsinga um rekstur eins og um félög á markaði sé að ræða.

Fyrst og fremst eiga stjórnvöld að vera skrefi á undan og sjá hættuna fyrir, en einblína ekki á síðustu vá.


Birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.