Fyrir mörgum árum var ég kallaður sem sérfræðingur fyrir þingnefnd vegna lagafrumvarps sem lá þá fyrir. Þingmennina kannaðist ég flesta við, annað hvort persónulega eða úr fjölmiðlum. Formaðurinn var háttprúður og spurði nokkurra spurninga, en gaf svo öðrum nefndarmönnum orðið. Allir voru málefnalegir nema einn varaþingmaður sem fór að snúa út úr því sem ég sagði. Ég átti engra hagsmuna að gæta og lét háðsglósurnar framhjá mér fara. Allir höfðu gleymt þessu í lok fundarins nema ég.
Líklega man ég þetta atvik vegna þess að það var undantekning. Alla jafna eru þingnefndarmenn prúðir og yfirvegaðir þegar gesti ber að garði. Mér fannst það að vísu í mínum skammvinnu þingnefndarstörfum, að nefndarmenn hefðu mátt temja sér að vera komnir inn á mínútunni þegar fundurinn átti að byrja og ættu ekki að leggja yfirhafnir sínar á stólbök eins og nemendur í framhaldsskóla. Á nefndarfundum á formfesta vel við. Hún sýnir virðingu þingmanna fyrir þingnefndinni og gestum sem þangað koma.
Þegar fréttamyndir sjást frá nefndarfundum í breska þinginu er kurteisin og yfirvegun það fyrsta sem venjulegur Íslendingur tekur eftir. Allir eru prúðbúnir og karlarnir eru í jakkafötum með bindi, þó að þeir kunni misvel að hnýta þau. Þingmennirnir eru undantekningarlítið vel máli farnir. Þó að þeir spyrji af festu er virðingin í hávegum höfð, án alls hroka. Þetta er ekkert nýtt. Í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur á Fávita Dostojevskis er þessi kafli:
„Vitið þér, mér þykir afskaplega gaman að lesa í blöðunum um enska þingið: Reyndar ekki um það sem þeir eru að ræða þar (ég er enginn stjórnmálamaður, sjáið þér til) heldur hitt, hvernig þeir tala saman og hegða sér eins og stjórnmálamenn, ef svo má segja: „Hinn hávelborni greifi sem situr andspænis mér“, „hinn hávelborni jarl sem er sama sinnis og ég“, „hávelborinn andstæðingur minn, sem hefur komið Evrópu á óvart með tillögu sinni“, það er að segja öll þessi orðtök, allt þetta þingræði frjálsrar þjóðar – það er þetta sem heillar menn eins og mig.“
Stjórnmálaumræðurnar eru auðvitað aðalatriðið og eðlilega segja margir að fallega umbúðir utan um ekki neitt séu lítils virði. Væri ekki betri bragur á því að stjórnmálamenn kæmu sér saman um eitthvað skynsamlegt fremur en að hlaða saman uppskrúfuðum skrautyrðum? Jú, en virðingin er þó síst meiri fyrir þeim sem deila út og suður með fúkyrðaflaumi. Enginn getur sagt að stjórnmálahefðin hafi farið á hærra plan við tíst Trumps, eða stefnu Jokos Widodos forseta Indónesíu, sem lætur taka eiturlyfjasala af lífi án dóms og laga.
Hvað sem okkur kann að finnast um pólitíkusa almennt, þá er enginn vafi á því að kurteist og snyrtilegt fólk er að öðru jöfnu betri stjórnmálamenn en sóðalegir ribbaldar.