Væri það í lagi?

Siðferði og siðgæði þingmanna eru ofarlega á baugi. Alþingi, sem ætti að vera stolt frjálsrar þjóðar, nýtur bara trausts eins af hverjum sex landsmanna samkvæmt skoðanakönnunum. Aftur og aftur koma upp mál þar sem þingmenn ganga fram af almenningi, stundum með framgöngu sinni innan þingsala, stundum annars staðar. Vissulega geta menn verið siðlausir, en innan ramma laganna.

Sérkennileg myndlíking í biblíunni fjallar um bjálka og flís: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ Maður hugsar: Hver myndi ekki taka eftir því ef hann hefði bjálka í auganu? Höfundur er þó ekki á villigötum því að boðskapurinn er: Hvers vegna ástundar þú sjálfur af miklum krafti það sem þú fyrirlítur aðra fyrir að gera?

Sumir stjórnmálamenn og atvinnurekendur tala um að engin mynt henti Íslendingum betur en krónan, sem auðvitað er sjónarmið. En þegar þeir sjálfir sjá aftur á móti ekkert að því að eiga fúlgur fjár á erlendum reikningum verður hljómurinn holur. Með sama hætti skýtur það skökku við ef þjónar almennings geyma fjármuni í skattaskjólum.

Þegar hópur þingmanna kom saman á bar og lét dæluna ganga um samþingmenn sína og fleiri var ekkert ólöglegt á seyði, en samt brá flestum. Margir spurðu sig hvort þetta væru þingmennirnir sem þjóðin ætti skilið. Virðingin fyrir Alþingi hrapaði, þrátt fyrir að þarna sætu aðeins sex þingmenn að sumbli og háværu og klúru spjalli.

Stundum gleymist að þingmenn eru mannlegir. Vissulega má og á að gera til þeirra kröfur, en allir eru breyskir. Kröfurnar eru líka mismunandi eftir því hver maðurinn er. Þeir sem sífellt eru með keyrið á lofti til þess að berja á öðrum eru dæmdir hart þegar þeir sjálfir hrasa. Sumir hafa aftur á móti með orðfæri sínu og athöfnum svo oft gengið fram af almenningi að fólk kippir sér ekki upp við einn skandalinn enn. Aðrir mega varla bora í nefið á almannafæri án þess að allt verði vitlaust.

Nú kann einhverjum að finnast álitamál hvar strikið er sem ekki má fara yfir. Sumir segja að við ættum aldrei að gera það sem ekki þyldi að birtast á forsíðum blaðanna. Ekki er það góður mælikvarði. Til dæmis er góður siður að fara í sturtu daglega, þó að fæstir vildu fá myndir af sér í fjölmiðlum við þá athöfn.

Miklu betra próf er: Væri það í lagi að allir gerðu það sem ég geri? Það einkennilega er að sumir svara spurningunni neitandi, en halda samt áfram sínu athæfi. Þeir sjá flísarnar, en kippa sér ekki upp við bjálkann. Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri … er góð regla.

Þeir sem finnst ekki í lagi að almenningur nýti sér skattaskjól eiga að ekki að fela sína peninga. Þeir sem telja óviðeigandi að þingmenn klæmist slompaðir á almannafæri eiga að fara varlega með áfengi. Eða tala minna.


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2019.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.