Ég hef gaman af að grúska í ýmsu og öðru hvoru dett ég í það að finna fróðleik um forfeður mína og -mæður. Nú var ég að taka til og fann dót frá foreldrum mínum. Flestu mundi ég eftir en hélt að það væri tröllum gefið, en sumt er ég ekki viss um að ég hafi séð áður.
Langafi minn og langamma hétu Símon Jónsson og Sigríði Davíðsdóttur. Þau voru bæði Borgfirðingar og eitthvað vissi ég um þau. Við Sigurður bróðir minn gengum um þeirra slóðir fyrir nokkrum árum. Bæði Síldarmannagötur milli Skorradals og Hvalfjarðar og svo frá Bakkakoti í Skorradal yfir í Lundareykjadal. Þessar slóðir hafa þau væntanlega gengið því að þau bjuggu á öllum þessum stöðum. Steinunn, amma mín, sagðist fyrst muna eftir sér þriggja ára, þar sem hún var reidd á hesti yfir fjallið, þegar fjölskyldan flutti frá Bakkakoti í Skorradal að Iðunnarstöðum í Lundareykjadal. Slíkar breytingar hafa verið barninu minnisstæðar.
Greinin sem varð kveikjan að þessari samantekt minni birtist í Lögréttu 19. 2. 1930 og er skrifuð af séra Bjarna Símonarsyni um foreldra sína. Sigríður bjó einmitt hjá honum og eiginkonu hans í um þrjá áratugi eftir að Símon lést. Reynir föðurbróðir minn hafði vélritað hana upp, en nú er hún öllum aðgengileg á timarit.is.
Eitt leiddi af öðru og að lokum hafði ég skrifað um þau hjón og öll þeirra börn. Ég man varla eftir að hafa lesið jafnmikið hól um nokkurn mann eins og son þeirra, séra Bjarna Símonarson, sem líklega hefði verið tekinn í dýrlingatölu hefði hann þjónað annars staðar en í fámennri sókn á Barðaströnd. Þó að allt fólkið sem hér er rætt um sé úr Borgarfirði þá er myndin sem greininni fylgir samt af Brjánslæk á Barðaströnd, en þar bjuggu flest þeirra sem um er fjallað um lengri eða skemmri tíma.
Ættmóðirin Sigríður Davíðsdóttir dó 22. ágúst 1929 að Brjánslæk á Barðaströnd eftir langa og þunga legu, áttatíu og fjögra ára gömul. Hún fæddist á Miðsandi á Hvalfjarðarströnd 9. júlí 1845. Foreldrar hennar voru hjónin Davíð Björnsson (f. 1806, d. 1854) og Sigríður Sveinsdóttir (f. 1799, d. 1885). Uppruna þeirra rek ég ekki frekar að sinni, en um hann má lesa í grein Bjarna.
Sigríður ólst upp á Miðsandi fyrstu árin með tveimur systrum, en missir föður sinn tæplega fimmtugan, níu ára gömul. Hún fluttist með móður sinni að Bjarteyjarsandi árið 1864. Lífsbaráttan hefur verið hörð og léttist ekki við það að 21 árs gömul verður hún ófrísk og eignast sitt fyrsta barn í maí árið 1867. Sigríður eldri brá búi árið 1869, sjötug að aldri.
Sigríður Davíðsdóttir réðst þá sem vinnukona að Brekku og síðar að Gullberastöðum 1870. Svo fluttist hún aftur á Hvalfjarðarströndina að Litlasandi árið 1872. Ári síðar birtist barnsfaðir hennar, Símon Jónsson frá Efstabæ í Skorradal, í þetta sinn á biðilsbuxunum og þau giftust 28. júní 1873.
Símon var fæddur að Hæli í Flókadal 6. sept. 1837 og fluttist þaðan að Efstabæ í Skorradal 1846 og svo á Hvalfjarðarströndina í vinnumennsku, þegar hann var orðinn fulltíða. Þá hafa þau Sigríður kynnst, bæði í sömu sveit. Foreldrar hans voru Jón Símonarson (f. 1795, d. 1875) og Herdís Jónsdóttir (f. 1806, d. 1879). Um Herdísi segir Kristleifur Þorsteinsson í ritsafninu Úr byggðum Borgarfjarðar: „Hefur hún orðið óvenju kynsæl. … eru margir niðjar þeirra óvenju fjölhæfir bæði til vits og verka. Kemur þar víða fram búvit og bókvit, hagleikur og listhneigð.“
Áður segir hann: „Þessi ætt hefur eigi heldur blandast aukvisum.“ Þetta fannst mömmu góð setning.
Ekki er hægt að segja að hjónin Símon og Sigríður hafi lengi verið á sama stað. Þau bjuggu þrjú ár á Litlasandi og fluttu þaðan að Geitabergi 1875 og bjuggu þar sex ár, Þaðan fluttust þau að Bakkakoti í Skorradal 1881 og bjuggu þar fimm ár. Loks fluttust þau að Iðunnarstöðum í Lundareykjadal 1886 og þar lést Símon.
Síðustu 2 árin var hann með öllu þrotinn að heilsu. Hann veiktist á ferð kvefsóttarárið 1894, en komst heim með mikilli þrekraun, og lá síðan lengi, og tók aldrei upp frá því á heilum sér, þótt fótavist hefði til dánardægurs. Hann varð bráðkvaddur örskammt frá heimili sínu 19. júní 1895. Sigríður, ekkja hans, bjó þar næsta ár, en fluttist svo að Brjánslæk til séra Bjarna, sonar síns, árið 1897 og dvaldi þar til dauðadags.
Þau Símon og Sigríði mátti telja merkishjón að mörgu leyti. Lengst af áttu þau við þröngan efnahag að búa, enda voru mikil harðindaár á búskapartíma þeirra (einkum 1881—1888). En þótt þau væru fátæk, urðu þau samt til að gjöra mörgum greiða og gleðja ýmsa, enda voru þau bæði einkar hjálpfús, Þau voru starfsöm og dugmikil, meðan heilsa leyfði. Þótti hvort þeirra um sig vera afbragðs vinnuhjú, meðan þau voru í þeirri stöðu.
Bjarni segir að Símon hafi verið einstakur stillingarmaður, en gat þó verið fastur fyrir, enda var hann sjálfstæður í skoðunum. Hann þótti einkarlaginn sjómaður, bæði sem formaður og háseti. Að minnsta kosti einu sinni villtist hann á rúmum og fór upp í hjá vinnukonunni, sem varð þunguð og eignaðist son í fyllingu tímans. Þetta hafði þó ekki meiri áhrif en svo að eftir þetta eignuðust langafi og langamma sex börn saman. Langamma hefur væntanlega verið mikil stillingarkona.
Sigríður var gáfukona og unni menntun, þótt sjálf færi hún á mis við hana í sínum uppvexti. Síðustu 8 árin var hún sjónlaus, en bar það mótlæti með þolinmæði. Sálarkröftum sínum hélt hún óskertum alla æfi, og var bæði fróð og minnug, og fylgdist alveg furðanlega vel með, einnig því sem gerðist allra síðustu ár hennar. Pabbi sagði að hún hefði prjónað sokka og vettlinga og sent honum og systkinum hans á jólum.
Þau Símon og Sigríður eignuðust 9 börn en misstu þrjú þeirra kornung: Herdísi (f. 1873, d. 1876) og Steinunni (f. 1875, d. 1876). Þær systur dóu báðar úr barnaveiki í sömu vikunni. Magnús dó eins árs (f. 1887, d. 1888). Öllum þessum nöfnum komu þau þó upp síðar. Svona var lífsbaráttan hörð, en lífið hélt áfram.
Ég ætla að segja frá börnum þeirra hjóna, ömmusystkinum mínum. Mörg þeirra þekkti ég því þau urðu gamalt fólk.
- Bjarni Símonarson (f. 1867, d. 1930) var prestur að Brjánslæk á Barðaströnd. Hann gekk í hjónaband með Kristínu Jónsdóttur sem var prestsekkja. Þau eignuðust engin börn en tvo fóstursyni. Katrín sem var 17 árum eldri en séra Bjarni átti tvö börn með fyrri manni sínum.
Um séra Bjarna var sagt að hann hefði verið meðalprestur innan kirkjunnar, en utan hennar átt fá sér líka. Tómas, bróðir minn, var læknir á Patreksfirði árið 1974 og hann sagði að þegar gamlar konur heyrðu að séra Bjarni hefði verið ömmubróðir hans, hefði hýrnað á þeim brúnin.
Bjarni þýddi eitt meistaraverk heimsbókmenntanna, Ben Húr, sem kom út árið 1908. Ég átti þá bók og á eflaust enn, að mig minnir frá Ingu frænku minni, systur séra Bjarna.
Magnús Sigurðsson skrifaði um séra Bjarna í Lögréttu, nánast sem dýrling:
„Séra Bjarni var altaf tillögugóður stillingarmaður, hvatamaður sáttar og friðar og sverð og skjöldur þeirra, sem bágt áttu.
Hann kaus fremur að verða fyrir fjárhagslegum skaða, en að slíta frið við nokkurn mann. Honum var það ljóst, að þýðingarmesta þroskameðal þessarar fátæku sveitar var friður. Samtök en ekki sundrung.
Séra Bjarni var gestrisinn maður með afbrigðum, hann var vanur að ganga út mót gestum sínum, til þess að bjóða þá velkomna. Einum manni hafa farist þannig orð við mig: „Mér eru minnisstæðar móttökur þessa gráskeggjaða öldungs, er ég kom til hans í fyrsta sinn. Hann gekk út á túnið til þess að bjóða mig velkominn. Ég varð þess fljótt var að séra Bjarni var raunverulega gestrisinn maður, því alt stefndi að því að láta mér líða sem best, móttökurnar voru tilgerðarlausar og hlýlegar. Hann var ræðinn og skemmtilegur og alt samtal hans bar vott um meiri þekking en almennt gjörist“.
Það er mál manna að séra Bjarni hafi altaf verið fremur fátækur. Þrátt fyrir það bar hann ávallt manna hæst útsvar. En hann kvartaði ekki, honum var það ljóst, að þarfir sveitarinnar voru miklar og gjaldþol manna lítið.
Hann er sá eini maður, sem ég hefi kynnst, sem hefur hlotið lof allra, sem um hann hafa talað, og þetta var vissulega verðskuldað lof, fyrir daglega framkomu við starf sitt. En starf hans til fjöldans miðaði fyrst og fremst að því að bæta. Hann vann að því að bæta fólkið og bæta kjör þeirra sem erfiðast áttu í lífsbaráttunni.
— Hann var sannur prestur —!
Séra Bjarni er einn þeirra fáu, sem yfirstíga sjálfselskuna, hann vann fyrst og fremst fyrir aðra og einkunnarorð hans var „að bæta“. Hann vildi skila öllu í betra ásigkomulagi en það var þegar hann tók við því.
Það væri næsta eðlilegt, að þeir sem ekkert þekkja til, héldu að þessar línur væru eftirmælisöfgar, samkynja þeim, sem oft birtast í blöðum vorum, en svo er ekki. Læt nægja að nefna eitt dæmi því til sönnunar, hversu séra Bjarni var óeigingjarn maður.
Hann hefur, eins og áður er nefnt, skírt 338 börn og aldrei tekið eyri fyrir, hvort heldur ríkir eða fátækir áttu í hlut. Hins vegar munu þau dæmi nokkur, að hann hafi rétt fátæklingum peninga, um leið og hann skírði hjá þeim, til þess að gleðja þá.“
- Ingigerður Símonardóttir (f. 1876, d. 1966), á heima í Reykjavík. Inga frænka, eins og við kölluðum hana alltaf bjó á Brjánslæk árið 1901 og hefur fylgt mömmu sinni þangað eins og yngri börnin; Steinunn, amma mín, Herdís og Magnús. Árið 1910 var hún komin til Reykjavíkur, leigði herbergi hjá Benedikt Gröndal Þorvaldssyni að Laufásvegi 27. Inga var einhleyp alla tíð og bjó lengst af í lítilli íbúð í litlu húsi við Grundarstíg 21. Þangað heimsóttum við hana oft. Pabbi var í Reykjavík veturinn 1928-9 og heimsótti stundum Ingu á Grundarstíginn á kvöldin, ellefu ára strákur. Einu sinni færði hún honum þá tíu krónur frá Bjarna bróður sínum, sem voru heilmiklir peningar fyrir 11 ára strák.
Pabbi sagði svo frá því að Inga hjálpaði honum að búa sig undir námsferð til Þýskalands sumarið 1937 í umboði Steinunnar ömmu. Hún lét hann meðal annars kaupa hlý nærföt, sem hann brosti að þá, enda fátt hallærislegra en síðar nærbuxur, sem hann gróf á botni í ferðatöskunni. En þau komu heldur betur við sögu, því að veturinn 1941-2 gerði fimbulkulda í München þar sem pabbi bjó þá. Í 30 gráðu frosti fannst pabba nær óbærilegt að norpa í kuldanum þegar hann beið eftir strætó á morgnana. Mundi hann þá eftir föðurlandinu Ingu og sagði svo frá að hann væri sannfærður um að það hefði bjargað lífi hans.
Inga vann sem saumakona hjá Árna og Bjarna, klæðskerum í Reykjavík. Hún var hæglát kona en góð. Einu sinni gaf hún mér bók Þorsteins Erlingssonar, Málleysingjar. Það fannst mér góð gjöf. Siggi bróðir sat alltaf í ruggustól Ingu þegar foreldrar okkar komu þar í heimsókn og erfði stólinn, eftir fyrirmælum Ingu.
Inga hefur líklega ekki þótt smáfríð, þó að mér fyndist hún góð, gömul kona. Hún sagði frá því að einhverntíma hefði hún heyrt á tal tveggja kvenna. Önnur sagði: „Mikið ósköp er hún með ljótt nef hún Ingigerður.“ Þá svaraði hin: „Já, en það fer vel.“ Inga bætti við: „Mér þótti alltaf vænt um þessa konu.“
- Jón Símonarson (f. 1879, d. 1952). Jón dó áður en ég fæddist og ég heyrði ekki mikið um hann talað. Hann var vinnumaður á Stóra-Botni 1899-1910. Var á Heggstöðum 1910. Jón var ráðsmaður að Hvítárbakka árin 1920-26. Hann var svo heimilismaður að Brjánslæk 1927-30.
Jón var bóndi á Stóru-Fellsöxl 1934 til dánardags. Jón var giftur Ólöfu Elíasdóttur árið 1934, en þau voru barnlaus. Hann átti dóttur sem fæddist árið 1899. Í Borgfirskum æviskrám segir um Jón: „Greindur maður og athugull, vinsæll og velmetinn.“
- Steinunn Símonardóttir, amma mín, (f. 1883, d. 1977). Hún var gift Tómasi Jóhannessyni Zoega á Norðfirði. Ég fjallaði um hana hér.
Mamma sagði í minningargrein um um ömmu: „Steinunn tók litinn þátt í félagsmálum, en fylgdist vel með þjóðmálum og las mikið sér til skemmtunar og fróðleiks. Hún hafði ánægju af tónlist og lék svolítið á orgel. Líka prjónaði hún og heklaði af vandvirkni og smekkvísi, meðan hún hafði sjón til. Hún var barngóð og hafði gott lag á börnum. sagði þeim sögur og fór með þulur fyrir þau. Steinunn var ættrækin og trygglynd og góður vinur vina sinna. Hún bar mikla umhyggju fyrir börnum sínum og barnabörnum og fylgdist vel með högum þeirra. Þegar hún lézt átti hún 40 afkomendur og mundi alla afmælis- og tyllidaga hjá þeim, enda var hún með afbrigðum minnug. Bæði voru þau hjón höfðingjar i lund og þótti sælla að gefa en þiggja.“
Ég spurði Reyni, föðurbróður minn, einu sinni að því hvort afi og amma hefðu ekki átt vel saman. Hann svaraði: „Ég er ekki viss um það.“ Líklega hafa þau verið ólík um margt.
- Herdís Símonardóttir (f. 1890, d. 1975). Herdís fluttist auðvitað með móður sinni að Brjánslæk til Bjarna bróður síns og bjó þar fram yfir tvítugt. Árið 1910 er þess getið í manntali að „auk heimilisstarfa spilar hún á Harmoníum í kirkjunni.“ Hún giftist 1913 Jónasi kennara og brúarsmið Snæbjörnssyni ættuðum úr Hergilsey, en þau bjuggu lengst af á Akureyri.
Þórarinn Björnsson, skólameistari á Akureyri, lýsir Herdísi sem „hinni ágætustu konu, greindri og glaðværri.“ Hann heldur áfram með lýsingum á þeim hjónum: „Á heimili þeirra var gott að koma. Ró húsbóndans og léttleiki húsfreyjunnar virtust eiga fullkomna samleið. Andrúmsloftið var notalegt. Ef til vill er það einn af leyndardómum lífshamingjunnar að kunna að sameina kyrrð og líf. Það ætla ég, að þau hafi kunnað, Jónas og Herdís. Og þau voru hamingjusöm, stundum eins og ung hjón, að mér fannst, og höfðu þá búið saman í meira en hálfa öld.“
Herdís og Jónas fluttu til Reykjavíkur árið 1964, minnir mig. Þau bjuggu við Rauðalæk og þangað komum við oft, auk þess sem Herdís heimsótti okkur. Snæbjörn, sonur hennar, var líka nágranni okkar. Ég minnist Herdísar sem barngóðar konur. Einhverntíma var hún heima hjá okkur í Laugarásnum þegar Guðrún, bróðurdóttir mín, var þar stödd, líklega þriggja eða fjögra ára. Hún kallaði: „Herdís, komdu í bíló“, og gamla konan taldi ekki eftir sér að fara á fjóra fætur til þess að leika við frænku sína.
6. Magnús Símonarson (f. 1894, d. 1981) fylgdi auðvitað mömmu sinni að Brjánslæk, enda ekki nema tæplega tveggja ára þegar pabbi hans dó. Þar ólst Magnús upp til 19 ára aldurs, er hann settist í Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan tveimur árum síðar, 1915. Næstu árin var hann vinnumaður og starfaði við ræktun á ýmsum bæjum í Borgarfirði og á Mýrum, en fór síðan til Noregs, þar sem hann vann í eitt sumar.Þaðan fór Magnús til Danmerkur 1923 og hóf nám í íþróttaskólanum í Ollerup. Eftir að hann útskrifaðist þaðan var hann íþróttakennari við Hvítárbakkaskóla í tvo vetur, 1924-26, en réðst þá sem ráðsmaður að Korpúlfsstöðum til ársins 1930, en starfaði síðan áfram hjá Thor Jensen í Reykjavík í nokkur ár.
Magnús kynntist á Hvítárvöllum Þórhildi Sigurðardóttur og þau giftust árið 1929. Vorið 1934 keypti hann í félagi við Jón bróður sinn og Jón mág sinn jörðina Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi og hófu þeir búskap þar sama ár. Jón bróðir hans dó árið 1952 og Jón mágur hans árið 1972.
Ég man vel eftir Magnúsi, sem lengst af var bóndi á Stóru-Fellsöxl. Þangað kom ég oft með foreldrum mínum og það var tilhlökkunarefni. Tómast bróðir var þar í sveit. Magnús var reffilegur bóndi og mér fannst sópa að honum. Þegar ég lét þess getið á Akranesi að ég væri náfrændi Magnúsar urðu heimamenn viðmótsþýðir og glaðir í bragði.
Pabbi skrifaði í minningargrein um Magnús: „Magnús var glaðvær bjartsýnismaður og ætlaði fáum illt. Hann var því vinsæll og naut trausts annarra. Hann var oft valinn fulltrúi sveitunga sinna og félaga, enda var hann félagslyndur maður. … okkur varð strax vel til vina og hef ég ævinlega metið hann mest minna frænda.“
Tómas, bróðir minn, man ekki eftir því að talað hafi verið mikið um pólitík á Fellsöxl, en ég vissi samt að Magnús var Framsóknarmaður. Pabba var afar lítið um Framsóknarmenn almennt, en aldrei taldi hann Magnúsi frænda sínum það til lasts. Samt fannst honum auðvitað heldur ekki ástæða til þess að nefna það í hinstu kveðju um þennan uppáhaldsfrænda sinn.
7. Eins og fyrr sagði átti Símon ennfremur son utan hjónabands. Jóhann Símonarson (f. 1881, d. 1969) var vinnumaður á Litla-Lambhaga, árið 1901, bóndi á Vestrareyni 1907-8 og Grafardal 1908-9. Lengst af var Jóhann var bóndi á Litlu-Fellsöxl og hans kona var Þórkatla Gísladóttir. Foreldrar mínir heimsóttu stundum Jórunni dóttur hans í Neðra-Nesi, en hann bjó hjá henni síðustu æviárin. Ég man ekki neitt eftir honum, en man að Jórunn talaði um að „gamli maðurinn“ væri sofandi.
Þá er lokið frásögn af þessum merkilega systkinahópi og foreldrum þeirra. Hér sannast enn einu sinni eins og Matthías Jochumsson orti:
Hver einn bær á sína sögu,
sigurljóð eða raunabögu.
Tíminn langa dregur drögu
dauða og lífs, sem enginn veit.
Sæll Benedikt,
Ég sé að fjölskyldusaga okkar skarast.
Bjarni Símonarson var seinni eiginmaður Kristínar Jónsdóttur langalangömmu minnar. Ég er mikil áhugamanneskja um ættfræði, sérstaklega mína 🙂 og geri mikið í að skoða sögu forfeðra minna. Því langar mig að vita hvort þú býrð svo vel að eiga mynd af Kristínu? eða þeim hjónum saman? Hún er falleg frásögnin þín um Bjarna og ég gæti kannski bætt við hana, en fyrst vil ég leiðrétta að Kristín átti 3 börn fyrir og að auki 1 stúpson, þau Benedikt Gröndal Þorvaldsson skrifara, (stjúpsonur) sá hinn sama og Inga frænka þín leigi hjá í Reykjavik. Árna Þorvaldsson menntaskólakennara á Akureyri, Jón Þorvaldsson prest á Stað á Reyjanesi (fyrir Vestan) og loks Valborgu Elísabetu Þorvaldsdóttur húsmóður á Auðshaugi á Barðaströnd. Eftir að Bjarni og Kristín giftust þá fluttu þau um tíma til Reykjavíkur til að koma börnum Kristínar til mennta. Að því loknu tók Bjarni við brauði á Barðaströndinni og Valborg yngsta barnið fylgdi þeim. Vænt þætti mér um ef þú hefði nöfn uppeldissona þeirra Bjarna og Kristínar?
með bestu kveðju
Sigríður Arna Arnþórsdóttir
Líkar viðLíkar við
Sæl ég á ekki mynd af Kristínu. Var lengi til svars því að ég vildi leita á einum stað áður, en sú leit skilaði ekki árangri. Ég þarf að skoða heimildir aftur, en ég hafði séð fjögur nöfn á uppeldis sonum Bjarna, en hélt að eitthvað hefði skolast til. Ef ég svara þér ekki fljótlega með það væri gott að þú minntir mig á. Það var gaman að heyra frá þér, maður veit aldrei hverjir gætu lesið þessa pistla 🙂
Líkar viðLíkar við