Ólafur Ísleifsson, skýrslubeiðandi um EES, er ómaklega gagnrýndur fyrir að hafa horn í síðu Evrópusambandsins og þátttöku Íslands í því. Ekkert er fjær sanni. Ólafur hefur staðfastlega barist fyrir fullri aðild Íslands og upptöku evru.
Í Fréttablaðinu 3.4.2018 sagði Ólafur að „ESS-samningurinn hafi markað tímamót hér á landi og í megindráttum haft jákvæð áhrif.“
Jákvæð afstaða Ólafs er ekki ný.
Í Fréttablaðinu var sagt frá hádegisfundi í HR í febrúar 2007:
„[Ólafur] leggur þó áherslu á að menn forðist klisjur í umræðunni og bendir á að evran leysi engan vanda ein og sér, heldur sé hún skipulagslegt atriði og umgjörð um atvinnulífið. Fullyrðinguna um að krónan sé ekki vandinn heldur hagstjórnin segir hann vera eina klisjuna. „Þetta tel ég rangt. Vandinn er hagstjórnin og krónan, ekki bara að hagstjórnin hafi hér ekki verið sem skyldi. Við verðum að horfast í augu við að krónan er örmynt sem á erfitt með að fóta sig í þessum sviptibyljum sem ganga yfir alþjóðlegan markað.“
Þann 28. janúar 2009 var Ólafur í Speglinum á Rás 1 og sagðist „ekki mega til þess hugsa að Evrópumálin yrðu sett á ís.“ Hann minnti á orð Görans Perssons, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, í heimsókn hingað til lands. Persson lagði áherslu á að innganga í ESB í bankakreppu á síðasta áratug 20. aldar hefði komið Svíum mjög til góða.
Sama vor undirritaði Ólafur yfirlýsingu frá Sammála-hópnum um umsókn um aðild að ESB með ósk um flýtimeðferð inn í evrópska myntbandalagið. Þar sagði:
„Við erum sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru. Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.“
Grein Ólafs í Fréttablaðinu 31.12.2009, Annus Horribilis:
„Umsókn um aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru fyrir augum felur í sér annan lið í að endurheimta traust á alþjóðlegum vettvangi. … Krónan ein á báti hefur reynst landsmönnum dýrkeypt og enginn kostur annar er tækur en að bindast öðrum þjóðum um samstarf í þessum efnum.“
Í DV 27. ágúst 2010 spurði Ólafur: „Hver er framtíðarsýn stjórnvalda um nothæfan gjaldmiðil? Hvað ætla þeir menn að gera sem leggjast gegn aðild að ESB og þar með evrunni sem lögeyri Íslendinga til að leysa þjóðina úr fátæktarhlekkjunum sem krónan leggur á hana?“
Í Víglínunni 14.4. 2018 áréttaði Ólafur afstöðu sína um að Flokkur fólksins styddi aðildina að EES-samningnum, en vildi ekki ganga í Evrópusambandið. Hér hefur Flokkurinn ekki viljað ganga jafnlangt Ólafi, sem átti reyndar ekki lengi samleið með fólkinu.
Enda segir hin góða bók [Matt 24:13]: Sá sem staðfastur er allt til enda mun hólpinn verða. En hún segir ekki hvenær.
Birtist í Morgunblaðinu 11.10.2019
Mynd Halldórs birtist í Fréttablaðinu sama dag