Sjálfstæðisflokkurinn náði lágpunkti árið 2013 þegar landsfundur samþykkti ályktun um að Evrópusambandinu yrði gert að loka upplýsingaskrifstofu sinni hér á landi. Aldrei áður hafði flokkurinn snúist gegn því að almenningur fengi greiðan aðgang að upplýsingum, enda var tjáningar- og skoðanafrelsi lengi vel samofið stefnu flokksins. Nú skyldi þekkingu, frjálslyndi og umburðarlyndi úthýst. Dæmin frá Bretlandi og Bandaríkjunum sýna hve hættulegt það er þegar vanþekkingin tekur völdin og herjar á frelsið.
Skýrsla starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn upplýsir hve mikilvæg aukaaðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið okkur undanfarinn aldarfjórðung. Þar kemur fram að með samningunum opnaðist frelsinu ný braut hér á landi. Breytingarnar hafa verið svo róttækar að vandséð er að það þjóni „nokkrum tilgangi að hverfa til veraldar sem var þegar breytingar eru jafnróttækar og hér er lýst.“ Greinileg pilla til andstæðinga samstarfsins innan ríkisstjórnarflokkanna og í Miðflokknum.
Markmið hópsins var að draga fram staðreyndir og láta lesendur sjálfa gera upp hug sinn. Rökrétt niðurstaða af lestri skýrslunnar er að líta á þann hag sem þjóðin hefur haft af aukaaðildinni og semja svo um fulla Evrópuaðild á jafnréttisgrunni. Nýlegar deilur um orkupakkann svonefnda sýna hve mikilvægt er að vel upplýstir Íslendingar sitji við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar en þiggi ekki bara brauðmola sem af því hrynja.
Flokkur forsætisráðherra gekk til skamms tíma lengst íslenskra flokka í andstöðunni við þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Því ber að fagna þegar ráðherrann lýsir nú ánægju með aukaðildina að Evrópusambandinu sem hafi stuðlað að „velmegun, nýsköpun, samkeppnishæfni og almennri velsæld og gegni lykilhlutverki við að framfylgja ströngum kröfum í félagsmálum, neytendamálum og umhverfismálum.“ Allt satt og rétt.
Í skýrslunni kemur fram að „stæðu Íslendingar utan lagasamstarfsins á EES-vettvangi og ætluðu að starfa í krafti heimasmíðaðra reglna yrði mikil hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu. Á það einkum við á sviði efnahags- og atvinnulífs og þeim sviðum þar sem tæknivæðing hefur haft hvað mest áhrif.“
Þetta kallast á við orð Bjarna Benediktssonar eldri árið 1969: „Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu.“
Innan EES njóta Íslendingar hvorki aðildar að tollabandalagi og myntsamstarfi, né þátttöku í landbúnaðar-, byggða- og sjávarútvegsmálum. Með fullri Evrópuaðild myndi landið eflast á þessum sviðum og frelsi aukast. Göngum því alla leið, þjóðinni til heilla.
Birtist í Morgunblaðinu 21.10.2019