Þegar Rannsóknarnefnd Alþingis reyndi að skrifa sögu hrunsins byggði hún mikið á skrifuðum samtímaheimildum, tölvupóstum og minnisblöðum sem skrifuð voru á þeim tíma sem atburðirnir gerðust. Enda sýndi minni þátttakenda um atburðina ólíkar myndir, þó að ekki væri mjög langt um liðið frá því að þeir stóðu á sögusviðinu.
Eftir að skýrslan var skrifuð hafa síðan nokkrir sögumanna einbeitt sér að því að endurskapa fortíðina. Þeirri vinnu mun seint ljúka, hvort sem það er vegna þess að minnið breytist eða þeir vilja að fortíðin breytist.
Ég man eftir því að fyrir 40 árum eða svo sköpuðust nokkrar deilur um það hvort Gunnar Thoroddsen hefði verið hallur undir nasista fyrir stríð. Um þetta skrifaði meðal annarra Sigurður Líndal lögfræðingur (sem taldi þetta af og frá). Á þeim tíma velti ég því fyrir mér hvers vegna Gunnar sjálfur væri ekki spurður, en þá var hann forsætisráðherra. Mér datt hvorki í hug að hann gæti hafa gleymt sínum skrifum og skoðunum né að hann kynni að afneita þeim, hefði hann raunverulega hrifist af málstað foringjans.
En lífið er auðvitað ekki svona einfalt. Líklega hafa fleiri orðið fyrir því en ég að fortíðin hefur breyst þegar betur er að gáð. Þegar ég kem aftur til erlendra borga lendi ég stundum í því að hús og jafnvel götur hafa færst til frá því sem ég áður mundi. Er ég þó yfirleitt þokkalega áttaður. Þó mér sé það þvert um geð verð ég stundum að viðurkenna að minnið er ekki alltaf besta heimild, hvað þá þegar við endurtökum sögur sem aðrir sögðu okkur.
Einu sinni var ég kallaður fyrir sem vitni í réttarsal og spurður hvort ég myndi eftir fundi sem ég hafði verið á. Ég hélt það nú, en fékk sem betur fer í hendurnar fundargerð af fundinum um leið og ég var spurður. Þá sá ég að á fundinum voru alls ekki menn, sem ég mundi þó vel eftir orðaskiptum við. Eða þóttist muna. En fundurinn sem ég mundi svo vel eftir var þá allt annar fundur. Þess vegna halda menn fundargerðir. Munnleg geymd er ekki alltaf traust, þó að hún sé oft skemmtileg. Góðar sögur skemmast oft ef þær fylgja staðreyndum allt of nákvæmlega. En stundum batna þær líka.
Sagan af Galdra-Lofti er ein besta þjóðsaga Íslendinga. Fæstir vita að hún er byggð á raunverulegum atburðum og Loftur var til. Það var lán okkar allra að sá sem skrifaði söguna eins og við þekkjum hana núna, Skúli Gíslason, var úrvals sögumaður og slípaði gömul munnmæli í magnaða frásögn. Við vitum auðvitað ekki um alla hina sögumennina í millitíðinni.
Fyrir nokkrum árum sagði ég á FB sögu af Ólöfu móðursystur minni og Sigurði Baldurssyni náfrænda hennar (og mínum). Þannig var að hann hafði komið á fund við annan mann þar sem Ólöf var líka. Sigurður var mikill kommi en Ólöf var alveg á andstæðum pól.
Ég sagði söguna á þá lund að Sigurður hefði kynnt manninn fyrir Ólöfu og getið þess að hann væri Austur-Þjóðverji. Svarar þá Ólöf snúðug: „Ég tala ekki austur-þýsku.“ Sigurður sneri þá á frænku sína og sagði: „Það er allt í lagi, hann talar íslensku“ og Ólöf varð að kvikindi, en sagði nú samt söguna síðar.
Gísli, sonur Sigurðar, bætti þá við í athugasemd: „Þetta mun hafa verið Bruno Kress“. Bruno var þýskukennari við Menntaskólann fyrir stríð, mikill nasisti. Hann var svo handtekinn af Bretum og fluttur til Manar sem stríðsfangi, en fór svo til Þýskalands í fangaskiptum. Saga hans er höfð til hliðsjónar í bókinni Enn er morgunn, eftir Böðvar Guðmundsson. Bruno varð seinna mikill kommúnisti í Austur-Þýskalandi.
Ég taldi það af og frá að þetta hefði verið Bruno, mamma og Ólöf töluðu stundum um hann og höfðu lítinn þokka á honum. Það hefði örugglega fylgt sögunni, en Ólöf hefði líka þekkt hann.
Kom þá Baldur, eldri bróðir Gísla, inn í spjallið og sagði að Sigurður hefði sagt: „Hann talar íslensku, lærði hana af Bruno Kress, sem kenndi þér þýsku.“ Svona endaði sú saga og líklega orðin næstum rétt.
Reynir Zoega, föðurbróðir minn, var mikill sögumaður og átti auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar á lífinu. Eins og títt er um slíka menn sagði hann sögurnar stundum nokkrum sinnum. Einu sinni var hann að segja frá einhverju atviki sem hafði hent hann, þegar Unnur systir hans segir: „Nei, þetta var ekki svona.“ Reynir segir á móti: „Hvað veist þú um það, þú varst ekki á staðnum“, en Unnur svaraði um hæl: „Nei, en þú ert búinn að segja þessa sögu svo oft að ég kann hana.“
Auðvitað er það merkilegt rannsóknarefni hvernig sögur breytast í tímans rás. Góðir sögumenn hafa lag á að slípa sögur og skreyta þær aðeins í hvert skipti sem þeir segja þær. Sumar sögur hafa gengið mann fram af manni og í hvert skipti „lagast aðeins“. Þess vegna verða allar sjálfsævisögur eins konar Essay-rómanar eins og mig minnir að Halldór Laxness hafi sagt um sínar æskusögur.
Ágætt dæmi um þetta er í minningargrein um Reyni frænda eftir Ólaf Jóhann Gunnarsson í Morgunblaðinu. Ólafur segir:
Reynir átti auðvelt með að segja sögur og gat verið skemmtilegur og gamansamur. Ég reyndi stundum að endursegja þessar sögur. Það tókst nú ekki betur en svo að menn skemmtu sér ágætlega þegar Reynir sagði frá, en lítið varð um hlátur þegar ég var að reyna að herma eftir honum.
Saga er til, sönn eða login, en hefur lifað í nokkra áratugi að þegar Reynir var í barnaskóla og Eyþór Þórðarson kenndi náttúrufræði hafði Eyþór sagt að rándýr sem ættu kjöt væru grimm. Eyþór vildi hafa aga í bekknum. Eitt sinn þegar hann hafði haldið skammarræðu yfir nemendum sínum heyrðist Reynir segja: „Nú hefur Eyþór étið kjöt“.
Þetta er í sjálfu sér ágæt saga. Það vill þannig til að hún er líka í Æviminningum pabba. Hann segir svona frá:
Sigdór Brekkan, frá Brekku í Mjóafirði, Vilhjálmsson sem kenndi okkur heilsufræði m.a. um mataræði og lagði áherslu á það að grænmeti væri hollara heldur en kjöt. Það var á þeim árum sem þessi kenning var að breiðast út um landið og sagði hann okkur að þeir sem borðuðu aðallega grænmeti væru í góðu jafnvægi og liði vel, en þeir sem borðuðu kjöt væru reiðigjarnir og uppstökkir. Sigdór sjálfur var ekki mikið í jafnvægi því að hann átti það til að stökkva upp á nef sér og reiðast. Hann var órólegastur allra kennaranna hvað þetta snerti. Við fundum fyrir því ef eitthvað á bjátaði. Einu sinni var það í söngtíma að Sigdór var venju fremur óánægður með okkur og las mikinn reiðilestur yfir okkur. Honum var mikið niðri fyrir. Þá gat ég ekki setið á mér að hvísla að þeim sem stóð við hliðina á mér að nú hefði Sigdór borðað kjöt í dag. Sigdór heyrði þetta og honum var ekki runnin reiðin svo að hann lét mig fara út. Það var látið nægja fyrir þessa yfirsjón.
Ólafur hefur sem sé þrjár villur í sinni stuttu frásögn. Hann setur Reyni inn í staðinn fyrir Jóhannes, hann segir að kennarinn hafi verið Eyþór en ekki Sigdór og segir að kjötát geri rándýr grimm, en ekki að grænmetisætur séu í góðu jafnvægi og kjötætur uppstökkar. En samt greinilega sama sagan.
Ég veit að margir Norðfirðingar kannast við söguna með Reyni í aðalhlutverki og spurði hann þess vegna út í þetta, en hann sagði að í þetta sinn hefði hann hvergi komið nærri. „En pabbi þinn var náttúrlega fluttur úr bænum og fáir þekktu hann og allir mig, þannig að það var ekki skrítið þó að þetta skolaðist til.“
En kannski skýrir þetta hvers vegna Ólafur uppskar lítinn hlátur af sínum sögum af Reyni. Hann hefur ekki kunnað þær nógu vel.
Eins og endranær, afbragðspistill og kurteisleg en alvarleg ádrepa á þá sem nú endurskrifa sem óðast eigin sögu og þjóðar. Björn frændi þinn Bjarnason hefur nú tuktað til Morgunblaðshópinn, með aðalritstjórann í stafni, um löggjöf heimafengna og úr Brussel.
Líkar viðLíkar við