Djúpríkið góða

Djúpríkið hefur verið íhalds- og einangrunaröflum víða um heim hugleikið undanfarin ár. Nafnið bendir til þess að hér sé um illskeytt fyrirbæri að ræða. Donald Trump og Boris Johnson eru fljótir að draga upp þennan óhugnanlega andstæðing við ýmis tækifæri. Samkvæmt þeim á djúpríkið á að vera samsett af áhrifamönnum innan ríkisstofnana, leyniþjónustu, löggæslustofnana og hersins.

Í hvert skipti sem þessir herramenn stíga feilspor er það hið dularfulla djúpríki sem er sökudólgurinn. Saklausum áhorfanda gæti að vísu virst þeir vinirnir fullfærir um það sjálfir að skutla sér í pyttinn, verði hann á vegi þeirra, jafnvel að þeir taki glaðir á sig krók til þess að stökkva í kelduna. En nei, allt er þetta samsæri djúpríkisins.

Íslendingar eru gjarnir á að taka upp erlenda siði og ósiði – alvöru og ímyndaða. Ólafur Jóhannesson talaði á sínum tíma um íslensku mafíuna sem að sögn hótaði honum. „Mafía er hún og mafía skal hún heita“, sagði hann svo eftirminnilega. Síðar dró hann í land og sagði að með orðinu mafía hefði hann átt við klíku eða hóp.

Hérlendur áhrifavaldur hefur íslenskað kenninguna og tekið upp á arma sína: „Með „djúpríki“ er átt við eins konar ósýnilegt og leynilegt bandalag hagsmunaafla innan og utan stjórnkerfisins til þess að koma í veg fyrir að kjörnir fulltrúar þjóðar hverju sinni geti ráðið gangi mála,“ sagði Styrmir Gunnarsson, sem um árabil var ritstjóri Morgunblaðsins.

Hann telur að hin síðari ár hafi vaknað spurningar um „hvort til hafi orðið eins konar ósýnilegt og andlitslaust bandalag þar sem valdamestu stjórnmálamenn, æðstu embættismenn, sérfræðingar svo og hagsmunaöfl utan stjórnkerfisins, bæði í atvinnuvegasamtökum og fjármálageira, komi við sögu sem hafi það að markmiði að tryggja eigin stöðu umfram aðra þjóðfélagsþegna en á kostnað þeirra.“

Fulltrúar djúpríkisins köstuðu grímunni að sögn Styrmis í orkupakkamálinu svonefnda, þegar fulltrúar margra hagsmunasamtaka komu fram undir nafni og hvöttu til þess að pakkinn yrði samþykktur.

„Sjáið bara hvernig þetta hefur snúist í höndunum á hinu glæpsamlega djúpríki. Það reynir að elta falsað samráð við Rússa, uppskáldað svindl, og er síðan gripið glóðvolgt í risavöxnu NJÓSNAhneyksli af stærðargráðu sem þetta land hefur jafnvel aldrei séð áður,“ tísti Trump og hélt áfram: „SPYGATE gæti orðið eitt stærsta pólitíska hneykslismál allra tíma.“ Hann hefur gefið í að undanförnu. Þeir sem bera vitni gegn honum eru fulltrúar djúpríkisins.

Djúpríkið er í raun svo ósýnilegt og leynilegt að þeir sem eru hluti af því hvorki sjá það sjálfir né vita af því. Það virðist vera bandalag þeirra sem þora að segja sannleikann þegar öfgaíhaldsmenn vilja búa til hliðstæðan veruleika.

Takk djúpríki!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.