Jónas Haralz um efnahagsmál og hagstjórnarmistök

Í jólablaði Vísbendingar árið 2007 ræddi Ólafur Hannibalsson við hagfræðingana Jónas H. Haralz og Jón Sigurðsson um helstu hagstjórnarmistök á 20. öldinni. Hér er gripið niður í svör Jónasar, en hann fór bæði yfir söguna og kom að ýmsu sem veikti stöðu Íslands þegar erfiðleikarnir í aðdraganda hrunsins dundu yfir. Menn hafa gott af því að rifja ummæli Jónasar upp reglulega.

Einar Olgeirsson vantaði veruleikasans

„[Nýsköpunarstjórnin] var engin tilraun til áætlunarbúskapar, það er nafnið tómt. Það var engin áætlun, ekki nokkur. Þegar menn hafa talað um áætlunargerð á Íslandi mest, hefur áætlunin verið minnst. Sú eina ríkisstjórn sem hefur haft skipulag á áætlunargerð var Viðreisnarstjórnin. Nýbyggingaráð var bara úthlutunarráð, skömmtunarskrifstofa. [R]áðið var með alls kyns plön og var með myndir uppi á veggjum. Hörður Bjarnason hafði gert skipulagsuppdrátt af Skagaströnd, þetta var allt út í bláinn. Einar Olgeirsson gerði okkur þátttakendur í draumsýn sinni. Það var á sunnudegi og hann tók starfsmennina austur fyrir fjall og hann var mjög mikið á móti uppbyggingu Selfoss og Hveragerðis, sem voru þá sjálfsprottnir þéttbýliskjarnar að vaxa úr grasi og taldi að þetta ætti að vera eitt sveitarfélag, ætti að vera á einum stað mitt á milli Selfoss og Hveragerðis. Hann fór með okkur upp á hæð þarna við Kotströnd, þar er hóll vinstra megin við veginn á leið austur, og benti: „Hérna á bærinn að vera.“ Einar hafði engan skilning á kringumstæðunum. Hann hafði sáralítinn veruleikasans.“

Stjórnmálamenn taka alltaf framkvæmdir fram yfir stöðugleika

„Þótt tækifærið til að færa hagstjórnina í frjálsræðisátt í stríðslokin væri látið ónotað kemur annað lag með tillögum Benjamíns [Eiríkssonar], 1949 og gengislækkuninni 1950. Þar eru mikil mistök gerð. Tillögurnar voru upphaflega lagðar fram af hálfu minnihlutastjórnar Ólafs Thors og gengu þó ennþá talsvert í áttina, en svo þegar Framsókn kom inn í þetta, var þetta allt þynnt út; ekkert orðið eftir annað en gengislækkunin. Þegar þessari tillögu Benjamíns er hafnað, gerist það sama sem hafði gerst áður og heldur áfram að gerast, að þegar valið stendur á milli annars vegar stöðugleika og frjálsrar verslunar öðrum megin og hinum megin framkvæmda, þá taka stjórnvöld alltaf framkvæmdirnar fram yfir. Það er fyrir öllu. Þannig að Marshallaðstoðinni er varið í jafn „skynsamlega“ hluti og áburðarverksmiðju, og sementsverksmiðju, sem aldrei hefði átt að byggja, en að vísu líka í mjög góða hluti eins og Sogs- og Laxárvirkjanir, fiskimjölsverksmiðjur. Þá var röksemdin: Ja, hér vantar allt til alls. Þetta var land sem var um aldamótin að byrja sinn þróunarferil, það vantaði samgöngur og það vantaði allt og þess vegna er þetta allt mjög skiljanlegt. Gegnumgangandi sjáum við að þessi ákvörðun er tekin, að velja framkvæmdir umfram stöðugleika og það hefur í för með sér sífellda efnahagsörðugleika, minni hagvöxt en annars hefði getað orðið og sóun á verðmætum að því leyti að það var farið oft of fljótt af stað og með lítilli yfirvegun. Framkvæmdastefnan, sem nefna má svo, hefur haft slæm áhrif að ýmsu leyti með því að við höfum lent út í ýmsar framkvæmdir sem ekki voru of æskilegar og arðbærar, og þar með höfum við fórnað stöðugleika og þar með hagvextinum yfir lengra tímabil.“

Reynslan refsar göslaratýpum

„Það hafa alltaf verið til afskaplega gætnir og skynsamir stórkapítalistar og svo líka þessar ofsafengnu göslaratýpur sem koma upp og kunna sér ekkert hóf og enga mannasiði og þeir hafa borist ansi mikið á og verið fyrirferðamiklir í fjölmiðlum. Mér finnst alveg ótrúlegt að þessir menn skuli ekki skilja það sjálfir, hvað þeir gera sjálfum sér og öðrum og öllu kerfinu illt með svona háttalagi. Við höfum menn eins og bandaríska auðjöfurinn Warren Buffet, menn sem lifa í íburðarlausum íbúðum og berast ekkert á og keyra í gömlum bílum og svoleiðis. Maður sér muninn á þessu. Þetta eru menn, sem kunna að haga sér skynsamlega og vekja traust. En það er bara reynslan sem refsar hinum.“

Fjármálaeftirlit í höndum reynslulausra manna

„Ég held að hafi orðið slys í sambandi við bankana og fjármálakerfið þegar Fjármálaeftirlitið var tekið frá Seðlabankanum og gert að sjálfstæðri stofnun, og sett í hendurnar á mönnum sem ekki höfðu reynslu og það er gert á versta tíma, það er gert á þeim tíma þegar verið er að einkavæða bankana. Það er ábyggilega komið í betra lag núna, en ég held þetta hafi verið mikil mistök á sínum tíma.“

Óheillaþróun að afskrá fyrirtæki

„Nú hefur orðið þessi mikla þróun yfir í það að taka fyrirtækin út af hlutabréfamarkaðinum og þetta er þróun ekki einungis hér á landi heldur í umheiminum líka, sem hefur byggst mikið á þessum óvenjulega lága vaxtastigi í heiminum á þessum árum. Það hefur verið mikil freisting að taka eigið fé út úr fyrirtækjunum og setja lánsfé inn í staðinn. Þetta held ég hafi ekki verið gott, það er óheppilegt að þetta skyldi akkúrat byrja þegar hlutabréfamarkaður hér er að komast til nokkurs þroska. Kannski snýst þetta við þegar vaxtastigið verður eðlilegra og ekki verður hægt að maka krókinn á þennan hátt. Það hefði verið heilbrigðari þróun ef fyrirtækin hefðu haldið áfram á markaði.“

Greiningardeildir bankanna eru einskis virði

„Ég er afskaplega krítískur á greiningardeildir bankanna, ég sé ekki al mennilega tilganginn í þessu. Þær eru mikið í fjölmiðlunum; það sem þær segja um almenna efnahagsþróun er einskis virði. Það eru ekki nema sjálfsagðir hlutir, sem allir geta sagt sér sjálfir. Og analysan hjá þeim er mjög grunnfærin. Og svo eru þeir allir með þetta sama, allir í bönkunum á sama tíma. Okkur vantar óháða stofnun, hugveitu. Þjóðhagsstofnun var lögð niður og ég held það hafi verið mikil mistök. Það var ýmislegt þar sem má segja að hafi ekki verið á réttri braut eins og komið var, en þarna er bara gat í þessu og vantar alveg ríkisstjórnina sjálfa. Þar vantar alla leiðbeiningu, ráðgjafa sem hefðu einhvern snefil af skynsemi. Eitthvað um málið að segja, því þeir þora ekkert að segja út af margvíslegum viðskiptatengslum sinna stofnana.“

Mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun

„Það eru alls staðar til í löndunum sem við þekkjum til, bæði opinberar stofnanir og einkastofnanir sem eru með góða analysu á efnahagsmálin, en hér bara er þetta eins og tómarúm og greiningardeildirnar megna ekkert að ráða við þetta, þær geta það ekki. [Hagfræðistofnun Háskólans] er ekki af þessu tagi, hún er af allt öðru tagi. Hún tekur að sér ákveðin rannsóknarefni, sem hún vinnur bæði fyrir opinbera aðila og aðra, en hún leysir ekki þetta vandamál, það er tómarúm sem hefur skapast við það að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Á hinn bóginn voru endurbætur á henni eðlilegar.“

Stjórnmálamenn í lausu lofti

„Þetta er í raun og veru komið í heilan hring frá tíma Eysteins Jónssonar [ráðherra og síðar formanns Framsóknarflokksins]. Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Nei, þetta kemur ekki til greina. Það er ágætt að hafa hagfræðinga sem við getum kallað til, sett í nefndir eða eitthvað svoleiðis og fengið ráð hjá, en það má ekki vera stofnun, ekki ráðuneyti eða stofnun sem fjallar um þessi mál. Það verður að vera algerlega á hendi stjórnmálamannanna, ráðherranna sjálfra, og hagfræðingarnir mega ekki koma þar að öðruvísi en þeir séu kallaðir til að gefa álit á einhverjum vissum málum.“ Þannig stóðu málin þegar ég kom heim [frá Alþjóðabankanum]; ég greip þá nánast í tómt. Ég var búinn að segja upp og gat ekki snúið við. Þegar minnihlutastjórn Alþýðuflokksins kemur standa þeir við þessa gömlu hugmynd og fyrirheit og þá er sett á laggirnar efnahagsráðuneyti sem verður svo Efnahagsstofnun nokkrum árum seinna. En í raun og veru er þetta ástand sem er núna, akkúrat það sem Eysteinn vildi hafa fyrir 60 árum síðan. En það hefur í för með sér að stjórnmálamennirnir eru í lausu lofti.“

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.