Merkasti hagfræðingur Íslands?

Jónas Haralz fæddist 6. október árið 1919. Greinina hér á eftir skrifaði ég í Vísbendingu þegar hann lést árið 2012.

Jónas H. Haralz hagfræðingur var einstakur maður. Fáir menn á 20. öldinni kynntust mönnum af bæði vinstri og hægri væng stjórnmálanna eins vel og Jónas. Jónas hafði líka frábært minni sem helst mátti líkja við það að á unga aldri hefði verið kveikt á myndbandstæki í heilanum á honum og hann gæti svo rifjað upp af mikilli nákvæmni löngu liðna atburði, þar með talin ýmis smáatriði, áratugum seinna.

Kommúnisti sem snerist

Faðir hans, séra Haraldur Níelsson prófessor, var einn af fremstu áhugamönnum um tengsl við látna. Jónas lét þess getið síðar á lífsleiðinni að öllum þeim tíma sem faðir hans hefði varið í sálarrannsóknir og spíritisma og deilur sem að þeim málum hlutust hefði verið betur varið á annan hátt. Móðir Jónasar, Aðalbjörg Sigurðardóttir, var sósíalisti og Jónas var kommúnisti á yngri árum. Einar Olgeirsson þóttist hafa fengið góða liðsmenn þar sem Benjamín Eiríksson og Jónas voru, greindir ungir hagfræðingar sem báðir studdu sósíalista. Svo fór þó að báðir snerust algerlega á sveif með markaðshyggjunni. Þó svo að vitað væri að Jónas væri orðinn afhuga vinstri stefnu vakti það samt mikla athygli árið 1969 þegar Sjálfstæðismenn ákváðu að skipa Jónas í autt sæti bankastjóra sem losnaði við fráfall Péturs Benediktssonar, en Gunnar Thoroddsen sóttist eindregið eftir þeirri stöðu. Jónas var ekki yfirlýstur sjálfstæðismaður á þessum tíma og margir undruðust að flokkurinn skyldi skipa utanflokksmann í embættið, mat eingöngu byggt á hæfileikum mannsins.

Í forsíðugrein Þjóðviljans 4. september 1969 mátti sjá biturð yfir því að gamall félagi væri genginn af trúnni: „Jónas hefur til skamms tíma ekki verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum, en vera má að hann sendi inntökubeiðni um leið og hann hreppir embættið. Hins vegar hefur Jónas verið hægri hönd Sjálfstæðisflokksráðherranna undanfarna áratugi, og það var öðrum fremur hans verk að móta viðreisnarstefnuna á sínum tíma. Skipun hans í bankastjóraembættið á þá væntanlega að vera vísbending um það að við þá stefnu verði haldið — þótt hún hafi nú leitt allsherjar ófarnað yfir efnahagskerfi Íslendinga, óðaverðbólgu, atvinnuleysi, niðurlægingu íslenskra atvinnuvega og innrás erlends fjármagns.“

Upphafsmaður viðskiptafrelsis

Faðir minn hafði mikið álit á Jónasi Haralz og vitnaði oft til hans meðan ég var ungur maður. Á þeim árum fannst mér eins og Jónas væri formlegur og heldur þurr á manninn. Líklega hefur Jónas verið kominn yfir áttrætt þegar ég kynntist honum persónulega en þau kynni urðu til þess að ég áttaði mig á því hvílíkur yfirburðamaður hann var. Hann skrifaði stundum greinar í Vísbendingu og ég átti því láni að fagna að bæði heyra hann flytja fyrirlestra og spjalla við hann um ýmis mál.

Einhverju sinni var Jónas að segja frá ferðum sínum til Afríkuríkja á vegum Alþjóðabankans. Sjálfur man ég ekki einu sinni hvaða staði hann nefndi, en hann gat tilgreint viðmælendur sína með fullu nafni, starfsheiti þeirra og vitnað í samræður sem hann átti fyrir mörgum áratugum. Hann hafði líka komið í Herdísarvík og hitt Einar Benediktsson og Hlín sambýliskonu hans fyrir 1940. Jónas bjó í húsnæði spítalans í Laugarnesi þegar Hlín kom með Einar þangað nokkru fyrr til að afvatna hann. Þeir gistu því í sama húsi um tíma.

Jónas kynntist mörgum kynslóðum, kynslóðum sem hver um sig voru fulltrúar fyrir nýtt Ísland. Eina svar mitt gagnvart þessum frásögnum Jónasar af löngu liðnum atburðum var að rifja upp að ég kynntist frú Aðalbjörgu móður hans þegar ég fór sem barn í Lönguhlíðina til hennar með Guðrúnu ömmu minni, en hún heimsótti margar merkiskonur. Síðar kynntist ég frásagnargáfu Jónasar enn þegar ég snæddi kvöldverð með honum og fleirum nokkrum dögum eftir vel þekkta ræðu Geirs H. Haarde daginn sem neyðarlögin voru sett. Jónas lagði einmitt gott til mála eftir að ljóst var að bankakerfið var hrunið og hvatti eindregið til þess að leitað yrði aðstoðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hann óttaðist ekki að sækja góð ráð þó að þau kæmu frá útlendingum. Eins og gefur að skilja hafði oft verið meiri gleði yfir mönnum en þessa kvöldstund. Til þess að leiða talið frá aðsteðjandi hörmungum spurði ég Jónas að því hvers vegna hann hefði snúist frá kommúnisma. Hann sagði þá frá því hvernig hann hefði komið til Svíþjóðar og verið í sambandi við ýmsa menn sem þá voru mjög róttækir. Innan þessa hóps ungs fólks komu upp efasemdir um að hinar kommúnísku kenningar væru vænlegar til þess að ná markmiðum um almenna velsæld. Alla nefndi Jónas með nafni og lýsti afdrifum margra síðar meir. Sumir urðu seinna jafnaðarmenn, aðrir héldu áfram að vera róttækir vinstri menn allt sitt líf.

Jónas sagðist sjálfur hafa verið orðinn mjög efins um sósíalisma þegar hann kom aftur til Íslands frá Svíþjóð en féllst þó á að starfa sem hagfræðingur Nýbyggingarráðs árin 1945-7 og sitja í bankaráði Landsbankans fyrir Sósíalistaflokkinn á árunum 1946-50. Hann starfaði svo fyrir Alþjóðabankann í nokkur ár en sneri aftur til Íslands árið 1957. Ekki er umdeilt að hann lagði drjúgan skerf til Viðreisnarinnar en hann var forstöðumaður Efnahagsstofnunar frá 1962 til 1969. Hann taldi ásamt fleiri af helstu hagfræðingum þjóðarinnar að heill áratugur hefði glatast við það að ekki hefði verið horfið frá innflutningshöftum strax um miðja 20. öldina.

Svona umræður heyrast ekki lengur

Jónas taldi að sagan sannaði að Íslendingum farnaðist best í samvinnu við erlendar þjóðir. Hann var mikill talsmaður þess að landið gengi til viðræðna við Evrópusambandið um inngöngu og upptöku annars gjaldmiðils. Hann var meðal stofnfélaga í Sjálfstæðum Evrópumönnum og flutti ræðu á stofnfundi samtakanna [vorið 2010]. Eftir að Jónas veiktist sumarið 2010 átti hann erfiðara um mál og hreyfingar en áður. Hann hélt þó góðu minni. Hann sagði okkur þá meðal annars sögur af Þórbergi Þórðarsyni og Halldóri Laxness.

Þórbergur var trúaður á yfirskilvitleg fyrirbæri eins og flestum er kunnugt. Hann hafði talsvert saman við þau hjón, foreldra Jónasar saman að sælda. Haustið 1968 var Jónasi boðið í sendiráð Sovétríkjanna í veislu. Þetta gæti hafa verið 7. nóvember 1968, en mér láðist að spyrja um það. Meðal þeirra sem Jónas hitti voru þeir Halldór og Þórbergur, ásamt Magnús Kjartanssyni, ritstjóra Þjóðviljans, þingmanni og síðar ráðherra. Þeir voru að ræða um Kristnihald undir jökli, sem kom út þá um haustið og Þórbergur var æstur mjög. Jónas heyrði ekki hvers vegna, en þegar hann yfirgaf samkvæmið hittist svo á að Þórbergur og Magnús eru líka á förum. Heyrir Jónas þá að Magnús heldur uppi vörnum fyrir bókina en Þórbergur gefur sig ekki og segir: „En hann Halldór á ekki að stela.“ Þórbergur taldi sem sé að Halldór hefði stolið Úu, aðalpersónu bókarinnar, úr Ævisögu séra Árna Þórarinssonar. Þetta var rétt og ekki þarf að efast um að Jónas hefur sagt rétt frá viðbrögðum Þórbergs.

Jónas var afar skýr og skipulegur ræðumaður. Hann gat haldið langa fyrirlestra blaðalaust og talið upp hvert einasta atriði sem máli skipti. Hann hafði sjálfur miklar áhyggjur af því hve rökræðum hefði hrakað meðal stjórnmálamanna. Því til sönnunar vitnaði hann í viðræður um seðlabanka á Íslandi á Alþingi seint á þriðja áratug aldarinnar sem hann kynnti sér fyrir nokkrum árum. Allir þingmenn sem tóku til máls höfðu kynnt sér málefnið og ræddu um það með skynsamlegum hætti, þó að ekki kæmust allir að sömu niðurstöðu. „Svona umræður heyrast ekki lengur á Alþingi“, sagði Jónas.

Með Jónasi H. Haralz hverfur einstakur maður sem var tengiliður 21. aldarinnar við löngu liðna atburði og einstaklinga sem hann kynntist vel og gat lýst af eigin raun.


Birtist í Vísbendingu 13. 2. 2012.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.