Skiljið’i ekki hvað við erum góð?

Forsætisráðherra hefur orðið tíðrætt um samráð ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna. „[E]itt af forgangsmálum mínum sem forsætisráðherra [var] að slá nýjan tón í samskiptunum og sýna strax að þessi ríkisstjórn hafi skýran vilja til að hlusta eftir óskum og áhyggjum bæði verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa atvinnurekenda og bregðast við þeim eins og helst er unnt.“

Já, það er gott að hlusta og enginn efast um að ráðherrann vill vel. Nú átti að sýna hvernig á að gera hlutina. Einar Benediktsson sagði á sínum tíma: „Vilji er allt sem þarf.“ Margir hafa rekið sig á það, eins og forsætisráðherra nú, að ljóðahendingar og spakmæli verða ekki alltaf að áhrínisorðum.

Í gær spiluðu stjórnarflokkarnir út sínu trompi í skattamálum, fjögra þrepa skattakerfi, þar sem þrepin fara frá núlli upp í rúmlega 46%. Mér fannst athyglisvert hve fjármálaráðherra skýrði glaðbeittur frá „nýja“ kerfinu, svo mikla áherslu sem hann lagði á það fyrir tveimur árum að fækka þrepunum, fækkun sem kom til framkvæmda í upphafi árs 2017. Kannski þurfti þetta ekki að koma á óvart. Áður hafði ríkisstjórnin horfið frá áformum fyrri stjórnar um að lækka virðisaukaskatt í 22% með fækkun undanþága og hennar fyrsta verk var einmitt að hækka fjármagnstekjuskatt um 10%.

Forgangsmál forsætisráðherra var að slá nýjan tón, láta vita að nú væri góða fólkið komið til valda. Í stjórnarsáttmála er talað um aðgerðir í tengslum við væntanlega kjarasamninga. Engum þurfti að koma á óvart að verkalýðsforystunni þætti lítið til tillagnanna koma. Þjóðskáldið sagði: „Líttu út og lát þér segjast, góður“. Með því að gægjast út um gluggann á stjórnarráðinu hefði ríkisstjórnin áttað sig á því að með því að vekja miklar væntingar frá fyrsta degi var útilokað að uppfylla þær.

Þegar lítið heyrðist af fögnuði verkalýðsins lýstu flokksmenn ráðherrans því yfir að tillögurnar væru „afskaplega góðar“. Best er að hrósa sér sjálfur, þegar ekki verða aðrir til þess.

„Við kynntum þær í gær.“ sagði forsætisráðherra, aðspurð um hvort frekari tillagna væri að vænta frá ríkisstjórninni. Síðastliðið haust skrifaði ég í grein: „Allir sem til samningatækni þekkja vita að svona yfirlýsingar eru lítils metnar. Verkalýðsforingjar eru líkir stjórnmálamönnum að því leyti að þeir vilja eigna sér sigrana. Réttir sem koma fullmatreiddir af borði stjórnmálamanna bragðast ekki eins vel og þeir sem allir elda saman. Þær bætur sem búið er að lofa verða hinn nýi grunnur sem bæta þarf ofan á.“

Svigrúmið er ekkert, segir ríkisstjórnin. Og líklega er það rétt. Svigrúmið var fullnýtt þegar veiðigjöldin voru lækkuð um marga milljarða króna að frumkvæði VG. Láglaunafólkið verður að skilja að það eru ekki meiri peningar til. Ráðherrar geta auðvitað fundið meiri boðskap til verkalýðsins í brag þjóðskáldsins: „Tjón þitt, tár þín tíndi í maura sjóð. Skildu rétt, hvar skórinn að þér kreppir.“

Gallinn við verkalýðshreyfinguna er að hún skilur alls ekki hvað ríkisstjórnin er góð.

Það var ábyrgðarhluti af hálfu ríkisstjórnarinnar að vekja óraunhæfar væntingar verkalýðsins á sama tíma og hún deildi út gjöfum til útgerðarinnar. Þannig hefur hún hert hnútinn í samningaviðræðunum.

One comment

  1. Undanfarin ár hefur verið margsagt af hálfu ríkisstjórna að árið 2018 eigi frítekjumark öryrkja og aldraðra að vera 300.000 krónur. Núna er 2019 og frítekjumarkið er 100.000 krónur? Hvað átti það að þýða að vera að segja 300.000 krónur. Hverskonar bull er þetta eiginlega?

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.