Land allra bankamanna

Há laun bankastjóra ríkisbankanna og sérstaklega hækkun launanna að undanförnu vekja úlfúð. Heppilegast er að laun séu ákveðin í frjálsum samningum og það er sannarlega ekki markmið að laun séu almennt lág. Þaðan af síður hef ég ástæðu til þess að efast um hæfni þeirra sem nú eru í æðstu stöðum bankanna.

Um mörg störf gildir lögmál framboðs og eftirspurnar. Geta fyrirtækja til þess að greiða laun fer eftir afkomu. Oft þurfa þau að keppa við erlenda markaði, t.d. vegna heilbrigðisstarfsmanna, iðnaðar- og tæknimanna. Ef laun þeirra verða of lág leita þeir einfaldlega og auðveldlega annað.

Um bankamenn gilda þeirra eigin lögmál. Frank Partnoy, prófessor í lögum og fjármálum hjá Háskólanum í San Diego skrifaði bókina Infectious Greed. Hann var spurður um himinháa starfslokasamninga tveggja erlendra bankastjóra fyrir um 15 árum. Svarið kom á óvart: „Hið raunverulega hneyksli er ekki of há laun þessara tveggja manna, heldur of há laun næstum allra annarra. … Ef hluthafar veltu viðskiptalíkani bankastarfsemi rækilega fyrir sér myndu þeir reyna að telja bankaráðin á að fækka starfsmönnum eða borga þeim að minnsta kosti minna.“

Skilvirk bankastarfsemi er stórmál. En á Íslandi er hún dýr. Vextir á bankabókum eru lágir og vextir á lánum háir. Þjónustugjöld eru há og svo flókin að doktorsgráða nægir ekki til þess að skilja þau.

Há laun bankastjórnenda eru ekkert nýtt á Íslandi. Árið 2008 voru 40 íslenskir bankastarfsmenn með yfir 5 milljónir króna á mánuði, um 7,5 milljónir að núvirði. Bankastjórarnir vísuðu til mikillar ábyrgðar, árangurs og alþjóðlegrar samkeppni um bankamenn, þegar rætt var um laun þeirra. Í október 2008 svaraði einn þeirra blaðamanni: „Ég vil ekki tala um þessa hluti“.

En við þurfum að tala um þessa hluti. Bankakerfið á Íslandi er ekki í alþjóðlegri samkeppni, engir bankar úti í heimi bíða eftir því að snillingar frá Íslandi verði á lausu. Þegar talað eru um samkeppnishæf laun er eina samkeppnin launamarkaður sem bankamenn skapa sjálfir. Bankastjórnendur geta aukið þrýsting á hækkun eigin launa með framsækinni hækkun launa næstráðenda. Dettur einhverjum í hug að ekki sé hægt að fá góðan bankastjóra fyrir þrjár milljónir á mánuði?

Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri nefndi nauðsyn fjárhagslegs sjálfstæðis bankastjóra: „[Að] það komi einhver spillingarmál þar sem bankastjórinn er að fá einhverjar þóknanir eða að liðka fyrir einhverjum viðskiptum sem annars hefðu ekki komið í gegn.“

Bendir fjöldi dóma yfir bankamönnum eftir hrun til þess að há laun tryggi að bankamenn eða aðrir séu heiðarlegir? Þeir sem taka við þóknunum eða öðrum greiðum til þess að liðka fyrir viðskiptum gera það líka, þó að launin séu há. Ágirnd vex með eyri hverjum, segir máltækið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.