Sannleikurinn versnandi fer

Létt spurning: Hvenær á árunum 2004-14 liðu fæstir Íslendingar skort samkvæmt lífsgæðakönnun?

Náttúruhamfarir, hryðjuverk, hungursneyð og misskipting gæða blasa við okkur á hverjum degi. Vinir mínir í Samfylkingunni tala oft um sex þúsund fátæk börn í þingræðum. Skattbyrði þeirra sem lægst hafa launin á Íslandi hefur aukist.

Bandaríkjaforseti sendi frá sér tíst 27. janúar með staðreyndum um ólöglega innflytjendur: „Febrúar er ekki einu sinni byrjaður og kostnaðurinn í ár við ólöglega innflytjendur fram að þessu er 18.959.495.168 dalir. Kostnaðurinn á föstudaginn var 603.331.392 dalir. Það eru að minnsta kosti 25.772.342 ólöglegir innflytjendur, ekki þessar 11.000.000 sem hefur verið talað um í mörg ár, í landinu okkar. Svo fáránlegt!“

Trump er með puttann á púlsinum, hefur kostnaðinn á hreinu upp á dollar. Tók að vísu ekki eftir því að kostnaðurinn þennan umrædda föstudag var minni en meðalkostnaðurinn í mánuðinum, en hey, hver tekur eftir því þegar við erum að tala um 18.959.495.168 dali (2.279.500.104.048 kr.)?

Ég reikna með að flestir lesendur þessa pistils, að tveimur undanskildum, hristi nú hausinn og segi: Hver tekur mark á Trump? Svar: Nærri 50 þúsund manns áframtístu staðreyndum Trumps.

Í bókinni Factfulness eftir sænska lækninn Hans heitinn Rosling er rauði þráðurinn að þrátt fyrir allar sögur af hörmungum heimsins horfi flest til betri vegar. Fólk lifir lengur, barnadauði minnkar, stærri og stærri hluti mannkyns færist úr sárri fátækt í það sem Rosling kallar millitekjur. Kannski kemur mest á óvart hve stutt er síðan okkar vestrænu samfélög voru á svipuðum stað og lönd sem við teljum fátæk núna.

Við teljum flest að heimurinn sé verri en hann er. Leiðtogar í stjórnmálum og viðskiptum kolféllu á einföldum spurningum sem Rosling lagði fyrir þá um heiminn. „Apakettir hefðu náð betri árangri“, segir hann. Apar hefðu nefnilega valið svör af handahófi, en jafnvel sérfræðingar völdu yfirleitt helst þau svör sem versta útkomu gáfu fyrir mannkynið.

Íslendingar hljóta samt að rökræða út frá staðreyndum. Skattbyrði þeirra 10% sem hafa lægst laun er meiri núna en þeirra tekjuminnstu fyrir 20 árum, svo dæmi sé tekið. Skýringin er sú að laun eru almennt hærri núna en þau voru fyrir 20 árum að raungildi. Ættum við að fella niður skatta af lægstu launum, ef allir væru komnir með að minnsta kosti milljón á mánuði?

Samkvæmt nýjustu lífsgæðakönnun Hagstofunnar árið 2014 líða tæplega 8% barna skort á efnislegum gæðum, ekki fjarri sex þúsund börnum. Hvenær á áratugnum þar á undan sögðust fæstir hafa það svo slæmt? Ekki árið 2007 heldur árin 2008-9. Þegar verst áraði gerðu svarendur minnst úr erfiðleikum sínum.

Staðreyndir eru mikilvægar, en samhengi hlutanna skiptir máli.

———

Birt í Morgunblaðinu 7. febrúar 2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.