Fegurðin í ágreiningnum

Einu sinni var sagt frá ungum pilti sem sótti menntaskólaböll, en ekki til að skemmta sér eða hitta stúlkur eins og flestir skólabræður hans. Nei, markmiðið hjá honum var að fá tækifæri til þess að berja einhvern. Mér verður stundum hugsað til þessarar frásagnar þegar ég fylgist með átökunum í þjóðlífinu.

Í lýðræðissamfélagi er ekkert mikilvægara en að fólk ræði saman með rökum. Staðreyndir þurfa að liggja á borðinu og allir þurfa að viðurkenna þær. Um hvað snýst ágreiningurinn? Ef það er ekki vitað næst auðvitað aldrei árangur.

Hjá sumum er ágreiningurinn markmið í sjálfu sér. Fyrrverandi forsætisráðherra orðaði það svo að fólk væri hætt að sjá „fegurðina í ágreiningnum.“

Annar fyrrverandi forsætisráðherra sagði: „Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Reynslan sýnir að pólitík af þessu getur verið vænleg til fylgis. Kjósendur kippa sér ekki upp við það að stjórnmálamenn segi eitt í dag og annað á morgun. Öll mál á að gera tortryggileg, jafnvel þau sem maður er í hjarta sínu sammála. Fjölmörg dæmi eru til um það að flokkar hafa barist af hörku fyrir einhverju máli eða gegn því fyrir kosningar, en snúa blaðinu algerlega við eftir að kjósendur hafa kveðið upp sinn tímabundna dóm.

Staðreyndum er neitað og jafnvel látið eins og lög og reglur skipti engu. Í Bandaríkjunum kalla óprúttnir stjórnmálamenn rangfærslur hliðstæðan veruleika og sannleikann falsfréttir.

Hvernig stóð á því að svo margir villtust út af braut réttvísinnar í Hruninu? Það er hægt að trúa því að einhverjir sem náðu frama í bönkum hafi verið óheiðarlegir að upplagi, en afar ósennilegt að tugir óprúttinna glæpamanna hafi náð bönkunum undir sig, eins og fjöldi dómsmála gæti bent til. Miklu líklegra er að siðferðisviðmiðin hafi færst til eins og einn bankastarfsmaður sagði: „Við höldum áfram þangað til dómarinn flautar.“

Það sama hefur gerst í samfélagsumræðunni. Hún verður hömlulaus. Óhikað er farið í manninn, hvort sem hann er með boltann eða ekki. Gefið er í skyn að annarlegir hagsmunir ráði ef einhver leyfir sér að benda á afbakanir eða útúrsnúninga. Um hagfræðing sem sagði óþægilegan sannleika var sagt: „Hann lýgur með lokaðan munninn.“ Rökþrotið í umræðunni er algert þegar andstæðingurinn er kallaður fasisti.

Öfgamenn, ómerkingar og virkir í athugasemdum verða alltaf meðal okkar, en þegar gott fólk og réttsýnt þorir ekki lengur að tala af ótta við að tuddinn á ballinu berji það, þá erum við í vanda stödd.


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 26. 2. 2019. Verkið Politicos er eftir Pálma Arngrímsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.