„Stjórnvöld ætla sér og hafa skyldu til þess að vinna að stöðugleika hér í efnahagsmálum og við munum ekki skilja Seðlabankann einan eftir í að vinna að því hlutverki,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skömmu fyrir jól. Þessi yfirlýsing hefði ekki átt að koma neinum á óvart, því að flestir stjórnmálamenn segjast vilja stöðugleika.
Á árunum 1965-6 var mikill uppgangur á Íslandi. Ísland var í lífskjarasamanburði sagt vera í fjórða sæti í heiminum. Þremur árum seinna var landið komið aftur í kjallarann. Bandaríkjadalur hafði hækkað úr 43 krónum í 88 á tæplega ári. Um mitt ár 2007 var gengi dollars rúmlega 60 krónur. Hann kostaði 148 krónur í desember 2008. Hvar var stöðugleikinn þá?
Lífskjör á Íslandi eru núna með því besta sem þekkist í heiminum. Almennt hefur þjóðin núna meira milli handanna en oftast eða kannski alltaf áður. Lífaldur hefur líka hækkað, húsnæði batnað, utanlandsferðum fjölgað og fleiri Íslendingar eiga bíla en nokkru sinni fyrr. Þetta þýðir auðvitað ekki að allir hafi það gott, en efnahagslegur samanburður er okkur hagstæður í mars 2019. Hver verður staðan 2020? Það veit enginn.
Fyrirsögn greinarinnar er svar seðlabankastjóra Englands við því hvaða kostir fylgdu falli pundsins eftir Brexit.
Óstöðugleiki krónunnar hefur valdið fólki og fyrirtækjum á Íslandi miklu tjóni. Stöðugur gjaldmiðill og lægra vaxtastig væri besta og varanlegasta kjarabótin sem þjóðin ætti að sameinast um. Á tíunda áratug síðustu aldar héldu ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar gengi krónunnar stöðugu árum saman. Verðbólgan fór í 2% og hagur almennings batnaði. Opnun landsins með aðild að fjórfrelsi Evrópusambandsins örvaði efnahagslífið á sama tíma. Þeim ávinningi má ekki glutra niður með óábyrgu lýðskrumi. Við höfum því eftirsóknarverða reynslu af stöðugleika með föstu gengi og opnu hagkerfi.
Í ágúst síðastliðnum skrifaði ég í pistli í Mogganum: „Fyrir þá sem geta lagt eitthvað fyrir er skynsamlegt að færa hluta af sínum sparnaði í erlenda mynt. … Gengi krónunnar fellur fyrr eða síðar.“ Ég veit að nokkrir fylgdu þessu ráði og hafa bætt sinn hag í krónum talið um nálægt 12%. Krónan er enn völt, sveiflan heldur áfram.
Óréttlætið er að margir eiga engan sparnað sem þeir geta skipt í gjaldeyri. Fólkið sem sendir mánaðarlega hluta af laununum heim til Póllands hefur enga vörn þegar krónan fellur.
Lífskjör eru góð á Íslandi núna, þrátt fyrir óstöðugleikann, ekki vegna hans. Danir hafa haldið sér við toppinn í áratugi með stöðugri mynt, meðan Íslendingar fara upp og niður milli deilda. Sagt er að það eina sem þurfi til þess að vernda stöðugleikann sé góð hagstjórn. Umorðum því orð skáldsins og spyrjum: „Hvenær koma, kæri minn, hagstjórnin góða og stöðugleikinn?“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7.3. 2019.