Óttavitinn

Kosturinn við pólitíska sannfæringu er að sá sem er sjálfum sér samkvæmur á auðvelt að taka afstöðu til nýrra álitamála í samræmi við sína grundvallarskoðun. Hafi maður slíka sýn segir hann ekki eitt í dag og annað á morgun. Áttavitinn beinir honum í rétta átt.

Sumir nota annað tæki, óttavitann. Hann virkar eins og segull á kompás og leiðir þá sem eftir honum fara í hverja hafvilluna á fætur annarri. Skynsamir stjórnmálamenn rata verr eftir því sem notkunin á óttavitanum vex. Þeir sem fylgja óttavitanum kúvenda stundum á einni nóttu frá sínum fyrri málflutningi og halda hinu gagnstæða fram.

Óttavitinn er ekki nýr af nálinni. Honum hefur lengi verið beitt til þess að kalla fram andstöðu við framfaramál. Merkur stjórnmálamaður sagði:

„Hingað til hefur það dregist um of af því, að við höfum verið hræddir um, að samvinna við aðra yrði okkur ofvaxin. Ef við látum þann ótta vera okkur lengur fjötur um fót, fer ekki hjá því, að við drögumst aftur úr. Hinir óttaslegnu menn verða að gera bæði sjálfum sér og öðrum grein fyrir hverjar óhjákvæmilegar afleiðingar óttans eru:

Sífelldar sveiflur í lífskjörum og hægari og minni framfarir til lengdar í okkar landi en öðrum, sem búsettar eru af þjóðum á svipuðu menningarstigi og við. Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir standa uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara.

Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slíkt þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn. Auðvitað verður að hafa gát á. En eðlilegt er, að almenningur spyrji: Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Svo mælti Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðismanna 1969.

Valdamiklir aðilar nýta líka sumir óttavitann til þess að leggja þá sem fylgja ekki línunni sem gildir þann daginn í einelti, samherja jafnvel fremur en andstæðinga. Félagar eru rassskelltir opinberlega og fá ekki aflausn nema þeir komi og kyssi vöndinn. Aðrir eru settir í frysti og fá ekki áheyrn meðan þeir hafa sjálfstæða skoðun.

Hvorug notkunin skilar farsælli niðurstöðu. Best væri þó að skátarnir segðu þeim mönnum afturhalds og úrtölu sem slíkum aðferðum beita að óttavitar hafi aldrei náð nokkurri átt.

Aldrei.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.