Bensi á mjólkurbílnum

„Ég kannast við þig.“ Vingjarnlegur roskinn maður rölti í áttina til mín.

Hann hélt áfram: „Samt kem ég þér ekki almennilega fyrir mig.“

Ég var nýsloppinn frá öðrum sem spurði mig hvort ég væri ekki örugglega úr Mosfellssveitinni. Mér datt í hug að segja að eiginlega væri ég þaðan því að ég væri svo oft á Úlfarsfellinu, en hætti svo við. Maður á ekki að snúa út úr fyrir fólki.

Þessi nýi kunningi minn var enn með spurnarsvip: „Ég er nú alveg viss um að við höfum sést. Ég þekki svo marga, keyrði mjólkurbíl í Borgarnesi í meira en þrjátíu ár.“

En nei, ég hafði aldrei verið á mjólkurbíl. Samt væri það svolítið flott, Bensi á mjólkurbílnum. Stóðst aftur freistinguna og gaf vísbendingu: „Ætli þú hafir ekki séð mig í sjónvarpinu?“

Hinum létti greinilega: „Jú, jú, nú átta ég mig. Þið eruð eins og heimilisvinir. Á hvaða stöð ertu aftur?“

Ekki get ég hrósað mér af því að vera sérstaklega mannglöggur sjálfur. Nokkrum sinnum á undangenginni viku vatt sér fólk að mér uppi á reginfjöllum og kynnti sig sem gamla kunningja. Ég kom af fjöllum, þó ekki reginfjöllum.

Tveimur hafði ég kennt í Versló, en ég hefði ekki getað unnið mér það til lífs að þekkja þá. Þeir mundu þetta ekki sérlega vel heldur, töldu að ég hefði kennt þeim í tvö ár, en það fannst mér ólíklegt á þeim tíma sem þeir tilgreindu. Það eru líka 30 ár síðan – eða rúmlega það.

Fyrstu árin sem ég kenndi þekkti ég alla mína nemendur með nafni og marga sem ég ekki kenndi. Ég kenndi tíu bekkjum á þessum tíma. Kannski hef ég fyllt harða diskinn, því að eftir það snarversnaði minnið. Auðvitað þekki ég ekki alla þessa nemendur ennþá, þau eru sum komin á sextugsaldur, en öðrum man ég vel eftir og fyllist stolti þegar þau ná góðum árangri í lífinu.

Fyrst reyndu nemendur svolítið á það hve langt þeir kæmust með mig og nokkra rak ég út. Þeir hafa að minnsta kosti komið þrír til mín á förnum vegi og þakkað mér fyrir að hafa snúið sér til betri vegar, þeir hafi svo sannarlega átt skilið að vera reknir úr tíma. Þetta var ágætisfólk og ég held að hafi mátt telja þau á fingrum annarrar handar. Svo sagði Úlfar Kristmundsson, guðfræðingur og stærðfræðikennari, mér að hann hefði það fyrir prinsipp að reka aldrei nemanda úr tíma og ég ákvað að taka upp sömu reglu.

Úlfar átti það reyndar til að brjóta kennaraprikið þegar fauk í hann. Hann var svo strangur að allir nemendur voru dauðhræddir við hann. En í prófunum gekk hann á milli kennara og reyndi að fá einkunnir hækkaðar til þess að tosa nemendur sem tæpt stóðu milli bekkja. Úlfar hafði sína galla, en hann var gull af manni.

Ég notaði ekki kennaraprik, hvorki til þess að benda eða brjóta. Eftir að ég tók upp Úlfarsregluna ákvað ég að spjalla við nemendur eftir tíma ef þeir fóru yfir strikið. Ég held ég hafi oftast ekki skammað þá heldur spjallað um hvað væri að. Það fannst þeim miklu verra en vera rekin út og yfirleitt gekk mér vel. Engir nemendur voru eins erfiðir og ég sjálfur gat verið á mínum námsárum.

Þessir tveir mundu að minnsta kosti eftir mér og voru sæmilega sáttir, en líklega hefðu þeir ekki farið að skamma mig mikið uppi á fjöllum.

Svo kom til mín kona sem vann hjá mér í skamman tíma. Mig rámaði í hana, en þó ekki nema rétt svo. Ég hafði tekið hana á teppið sagði hún út af grein sem hún skrifaði um hvalveiðar á Iceland Review vefinn. Ekki man ég það, enda hafði það allt verið friðsamlegt, sagði hún. Hvalveiðagreinar hafa örugglega vakið mikil viðbrögð, bæði með og á móti – mest á móti frá útlendingum. Ég er ekki viss, en mig minnir að hún hafi sagt að hvalkjöt væri gott á bragðið. Kannski er það misminni. Mér finnst það ágætt.

Ýmislegt er spjallað á fjöllum. Ég fékk eftirfarandi athugasemd á FB: Eysteinn Jónsson sagði eitt sinn: „Ég hef aldrei kynnst svo leiðinlegum manni, að væri ekki skemmtilegur þegar hann var kominn upp í fjöll.“ Eysteinn var formaður Framsóknarflokksins og þingmaður flokksins í áratugi. Engum sögum fór af fjöri Eysteins á láglendi. Kannski hann hafi verið líflegri í óbyggðum.

Við nokkra kannaðist ég í fjallgöngunum, en ekki marga, og get greinilega sjálfum mér um kennt að hluta. Göngur eru ágætis vettvangur til þess að kynnast fólki, annað hvort í fyrsta sinn eða aftur eins og dæmin sanna. Ef ég fer aftur næsta ár þarf ég eflaust að byrja upp á nýtt því ég verð ómanngleggri með aldrinum.

Frændfólk mitt á Norðfirði fékk samt stöðugt fréttir af mér á tindunum, hvernig sem þær bárust. Pabbi fæddist á Norðfirði og ég hef alltaf talið mig Norðfirðing, þó að ég hafi aldrei búið fyrir austan. Þar á ég margt góðra ættingja, sem ég hitti suma í ferðinni. Annars hitti ég ekkert þeirra nema fyrir austan. Það er greinilega lengra suður en austur.

Pabba og Reyni bróður hans leiddist alltaf þetta Neskaupstaðarnafn. Fannst fullsæmandi að bærinn héti Norðfjörður. Svo fór það sérstaklega í taugarnar á báðum foreldrum mínum þegar sagt var „á Neskaupstað“ því fólk býr í kaupstað en ekki á honum (þó að sumir séu „á bænum“ en það annað mál). Nú er Neskaupstaður ólöglegur, því staður má ekki heita kaupstaður nema vera það, en Norðfjörður er hluti af Fjarðabyggð (sem er  hið besta mál og eflir firðina). Þá er bara Nes eftir, sem er heldur snubbótt.

Í stuttu máli: Ég var lengi búinn að stefna að því að ganga á fjöll fyrir austan, hafði áður bara farið á þau frægustu, Herðubreið, Snæfell og Hvítserk. Vikan gat ekki orðið skemmtilegri, en eftir sex daga er ég nánast genginn upp að hnjám.

Dótturdætur mínar voru með okkur og við fórum með þær á skemmtilegar slóðir, þó að þær fylgdu afanum ekki á tinda í þetta sinn. Það var svo gaman að Vigdís, níu ára, sagði: „Hvers vegna flytjum við ekki hingað? Við getum gert það í eitt ár til prufu.“

Viðmælandi minn sagði mér að hann væri mættur á Ungmennafélagsmót. Hann var ekki nema 76 ára, sannkallað ungmenni. Hann hafði byrjað að stunda íþróttir þegar hann hætti að vinna.

Ég varð að hryggja hann með því að ég væri ekki starfsmaður á sjónvarpsstöð. Ég var auðvitað kominn í Veistu hver ég var? fíling, en það var greinilegt að hann myndi aldrei hitta á það, þannig að ég sagði til nafns og fyrri starfa.

Þá tók hann við sér og sagði: „Já ert þú Benedikt? Ég áttaði mig ekkert á því. Þú ert svo miklu unglegri en í sjónvarpinu.“

Mér þykir vænt um þennan mann og vona að hann hafi unnið til verðlauna á mótinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.