Fyrir tæplega ári skrifaði ég greinaflokk um bestu bítlalögin. Það var svolítið erfitt að skrifa hana vegna þess að lögin eru svo mörg og svo góð. Samt veit ég að margir eru þakklátir að vera ekki lengur í vafa um bestu lög þessarar merkustu hljómsveitar sögunnar.
Svona grein er hægt að skrifa með ýmsum hætti, til dæmis með því að vitna í þær fjölmörgu bækur sem skrifaðar hafa verið um hljómsveitina eða segja frá viðtölum sem til eru um nánast hvert einasta lag. Ég valdi þá leið að segja einfaldlega mína skoðun. Hún var tiltölulega óumdeild. Tveir söknuðu einhvers lags sem er ágætt, en einfaldlega ekki eitt af þeim bestu, að sögn vegna þess að þeir áttu rómantískar minningar tengdar því, sem vissulega eru rök, en slær ekki út óbrigðula dómgreind mína.
Síðan þessi dómur var skrifaður höfum við Vigdís séð Paul McCartney á tónleikum í París. Jú, hann er farinn að eldast, en það var samt mjög gaman að sjá hann. John Lennon var samt alltaf uppáhaldsbítillinn minn og mér fannst lög Pauls eftir að Bítlarnir hættu hálfgert kúlutyggjópopp, þó að hann hafi auðvitað samið ágæt lög inn á milli. Þau eru bara svo lágt hlutfall.
Hvað með lög Lennons eftir að Bítlarnir lögðu upp laupana? Hann samdi vissulega mörg frábær lög, en hvað voru þau góð? Og hver eru best? Þetta eru mikilvægar spurningar sem allt of lengi hefur verið ósvarað.
Við vinirnir vorum allir sammála um að Lennon stæði McCartney langt framar. Ég þekki bara einn mann með sæmilegu viti sem heldur hinu gagnstæða fram. Á því er enginn vafi að Bítlalögin eru samt miklu fjölbreytilegri en lögin sem að minnsta kosti Lennon samdi eftir að hljómsveitin leystist upp. Þeir hafa örugglega bætt hver annan upp.
Ég skrifaði um Lennon og Bítlana fyrir tíu árum þegar ég las sjálfsævisögu hans. Þar segi ég frá fyrstu skrifum hér á landi um hljómsveitina og gef plötum stjörnur (fimm mest). Þjóðviljinn var ekki hrifinn af þessari hljómsveit og skrifaði:
„Um fátt er nú meira rætt og ritað í Bretlandi, — ekki einu forsetaheimsókn — en þessa fjóra lubbalegu pilta sem eru á myndinni hér að ofan. Enginn veit eiginlega hvernig á frægð þeirra stendur, en þeir eru sagðir geta búið til meiri hávaða en nokkur annar hópur jafnfjölmennur. Þeir kalla sig „The Beatles“ (framborið Bítils) og helzta auðkenni þeirra auk háralagsins og annarlegs klæðaburðar er sagt það að hljóðin úr þeim séu svo ferleg að annað eins hafi ekki heyrzt á Bretlandi síðan loftvarnalúðrarnir þögnuðu í stríðslok.“
Lennon sendi frá sér fjórar og hálfa alvöru plötu. Svo var ein, Some Time in New York City, sem á að vera einhvers konar pólitísk yfirlýsing og ekki mikið vandað til hennar, ein eða fleiri hljómleikaplötur, ruglplötur með stunum og hjartslætti hans og Yoko. Árið 1980 gáfu þau út plötu saman þar sem Yoko átti helming laganna og fjórum árum eftir að hann var myrtur kom út önnur slík þar sem Lennon átti helming, líklega lög sem hann hefði viljað vinna betur áður en þau komu út. Auk alls þessa hafa svo komið út Anthology plötur með upptökum sem ekki voru notaðar. Ég gleymi næstum plötunni með gömlu rokkslögurunum. Hún var ekkert sérstök.
Mér sýnist að á þessum alvöruplötum séu milli fimmtíu og sextíu lög. Auk þess gaf Lennon út nokkur lög á tveggja laga plötum.
Hefst nú leikurinn. Rétt að tilkynna strax að Oh Yoko og Beautiful Boy komust ekki á blað. Það fyrra finnst mér leiðinlegt og það seinna væmið. Svo gerði Lennon nokkur þemalög: Give Peace a Chance, Power to the People og Happy Xmas (War is Over). Það síðasta er þokkalegt, en hin hefðu ekki náð langt nema fyrir höfundinn og tíðarandann.
Á plötunni Some Time in New York City eru þrjú lög sem mér fannst ná því að vera ekki rusl: Angela, Woman is the Nigger of the World og John Sinclair. Ekkert er í hópi hans bestu laga.
Líklega er fyrsta plata Lennons, Plastic Ono Band, best. Þar er hann með mörg falleg lög og ég valdi fimm þeirra í hóp 20 bestu. Sleppi ég þó nokkrum ágætum. Þegar ég mat plöturnar á sínum tíma fékk hún hæsta einkunn.
Imagine platan er kannski frægust vegna titillagsins. Líka mörg góð lög þar og fjögur sem lentu á mínum lista. Það dregur hana niður að hann er með mikið af leiðinlegum lögum, röff með einhvern boðskap sem manni finnst heldur þvingaður. Ég fell fyrir rómantísku melódíunum.
Mind Games kom næst. Þegar ég hlusta á hana núna finnst mér eins og hún hafi verið vanmetin, bæði af mér og öðrum. Að vísu komust bara þrjú lög á listann, en lög númer 21, 23 og 25 voru líka á henni.
Walls and Bridges var síðasta platan fyrir fimm ára hlé. Hún var í miklu uppáhaldi hjá mér á sínum tíma, en nú komust bara þrjú lög af henni á topp 20.
Síðasta alvöru platan var Double Fantasy, þar sem Lennon á ekki nema sjö lög. Ég valdi fjögur þeirra á listann. Kannski njóta þau þess að vera það síðasta sem Lennon gaf út sjálfur.
Þá eru það lögin. Valið segir auðvitað eitthvað um mig og mitt líf. Efst eru fallegu og rómantísku ástarlögin:
Look at me af POB er í 20. sæti, í því 19. er One Day at the Time af MG, hvorugt sérstaklega þekkt. Í 18. sæti setti ég Working Class Hero (POB), sem margir segja Dylan stælingu, en ég er ekki sannfærður um það. Bara ágætt lag með söng og gítarspili. Í 17. sæti kemur Aisumasen (I’m Sorry) af MG. Líka fallegt melódískt lag. Ég sleppti titillaginu, Mind Games, sem er í sjálfu sér allt í lagi, en ekki í toppflokki hjá mér. Hann var byrjaður á því meðan Bítlarnir voru að taka upp Let it Be, en kláraði það síðar. Varð aldrei nógu gott. Svo í 16. sæti er Mother. Það má vissulega spyrja sig að því hvort það sé skemmtilegt lag. Ég ákvað að hafa það inni. Það er fyrsta lagið á fyrstu plötunni (POB).
Í 15. sæti er eina lagið sem ég hef skrópað í skóla til þess að taka upp, Instant Karma, sem ég hélt reyndar að héti Instamatic Camera, því ég vissi ekkert um hvað Karma væri. Það er í flokki með þema lögunum sem ég nefndi áður, en mér finnst það langbest gert. Næst fyrir ofan það er lag af WAB, Scared, angurvært og fallegt lag. Watching the Wheels var fyrsta lagið á hlið tvö á DF. Þægilegt lag sem lýsir lífi hans frá síðustu plötu. Mér finnst lagið I‘m Losing You af DF líka fallegt. Auðvitað eru mörg laganna á listanum með nokkurn veginn sama texta; skyldi Yoko vera að hætta við hann? Í 11. sæti setti ég svo lagið fræga um Paul: How do You Sleep? Paul hafði eitthvað verið að hnýta í John og Yoko á plötunni Ram. Ég hlustaði svo lítið á Paul og Lindu að þessi árás fór framhjá mér á sínum tíma.
Í 10. sæti setti ég svo fyrsta lagið af DF, (Just Like) Starting Over. Enn einn mansöngurinn til Yoko. Næst þar fyrir ofan er stutt og fallegt lag af POB, Isolation. Það var einhver hreinn tónn í sumum þessum fyrstu lögum. Í 8. sæti setti ég lagið Nobody Loves You af WAB. Sú plata kom út meðan þau Yoko voru hvort í sínu lagi og Lennon með May Pang, sem hafði verið aðstoðarmaður þeirra, allt hið undarlegasta mál. Mogginn skrifaði á sínum tíma í fyrirsögn: Frá þeirri japönsku til þeirrar kínversku.
Í Alþýðublaðinu kom frétt í október 1973: „Vinir þeirra í USA létu í það skína, að þau væru skilin að skiptum — en allavega vildi John ekki horfa á konu sína lesa afstæð ljóð og veifa nærbuxum sinum yfir höfði sér.“
Lagið Woman (af DF) var einhvern tíma valið besta rokklag allra tíma. Það er vissulega fallegt lag en nær samt ekki nema 7. sæti. Annað lag sem oft hefur verið valið besta lag allra tíma, Imagine, náði ekki nema 6. sæti hjá mér. Kannski er ég búinn að heyra þessi lög allt of oft. Yesterday komst ekki á lista yfir 80 bestu bítlalögin.
Í 5. sæti setti ég einfalt og fallegt lag sem ég raula oft á morgnana, Out the Blue af MG. Þar fyrir ofan er lag af WAB, #9 Dream. eitt af best þekktu lögum Lennons. Eins og nafnið bendir til byggir það á draumi. Árum saman velti ég því fyrir mér hvað Ah! Bowakawa, pousse pousse þýddi. Þetta er þá eitthvað sem andarnir sögðu í draumnum. Ég skrifaði tvær smásögur sem byggðu á draumum, sögur sem auðvitað enginn skildi, en þannig eru draumar.
Jealous Guy af Imagine er í 3. sæti. Það er endurvinnsla frá Hvítu plötu Bítlanna, frábært lag með fallegum texta. Næstefst er svo einfalt og gullfallegt lag af sömu plötu, Oh My Love. Einfaldar melódíur eru tærastar.
Besta Lennon lagið eftir að Bítlarnir hættu? Engin spurning. Love. Það er kannski fallegasta ástarljóð og -lag allra tíma. Á fyrstu plötunni var besta lagið. Hvað hefði gerst síðar? Það veit auðvitað enginn.
The Dream is Over.
- Love
- Oh my Love
- Jealous Guy
- #9 Dream
- Out the Blue
- Imagine
- Woman
- Nobody Loves you
- Isolation
- (Just like) Starting Over
- How do you Sleep?
- I’m Losing you
- Watching the Wheels
- Scared
- Instant Karma!
- Mother
- Aisumasen (I’m Sorry)
- Working Class Hero
- One Day (at the Time)
- Look at me