Stundum gleymist að þakka það sem vel er gert. Gunnar Bragi Sveinsson var ráðherra í ríkisstjórn undir forystu Framsóknarmanna árin 2013 til ’16. Björn Bjarnason hefur rakið skilmerkilega hvernig Gunnar Bragi sem utanríkisráðherra undirbjó feril 3. orkupakkans, m.a. með minnisblaði sem staðfestir áframhaldandi sjálfstæði Íslands í orkumálum.
Jafnframt má minna á samning við Evrópusambandið um landbúnaðarmál sem var frágenginn í tíð Gunnars Braga sem utanríkisráðherra árið 2015. Meginefni samningsins er að tollfrjálsir innflutningskvótar Íslands fyrir skyr og lambakjöt til sambandsins voru stórauknir, auk nýrra kvóta fyrir aðrar kjöttegundir. Jafnframt jukust gildandi tollfrjálsir kvótar til innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu til Íslands. Einnig falla allir tollar niður nema á jógúrt, smjörva og ís. Þessi samningur Gunnars Braga felur í sér mikla kjarabót fyrir neytendur, þegar áhrif hans koma fram.
Ríkisstjórnin sem Gunnar Bragi sat í felldi líka niður hinn svonefnda sykurskatt sem vinstri stjórnin 2009-13 setti á og núverandi vinstri stjórn hyggst nú innleiða á ný.
Allt hin bestu mál. Takk fyrir það.
Samkvæmt nýlegri grein Gunnars Braga hafa viðhorf hans þó breyst nokkuð síðan hann var ráðherra.
Til dæmis segir hann nú: „Spá fræðimanna um að sýklalyfjaónæmi eitt og sér verði stærri valdur að dauða en krabbamein eftir um þrjátíu ár virðist altént ekki ná þeirra athygli. Það mætti segja að hægt hefði verið að sjá þetta fyrir.“ Sú spurning hlýtur að vakna hvort þessi „spá fræðimanna“ kom eftir að utanríkisráðherrann gekk frá áðurnefndum samningi árið 2015. Jafnframt gleymir hann viðvörun formanns síns um bogfrymil í útlendum mat, veiru sem „getur leitt til breytinga á hegðunarmynstri, þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað hvort þetta kunni að vera breyta hegðun heilu þjóðanna.“
Ekki kom fram í greininni að nýlegar rannsóknir á íslensku kjöti sýna að shigatoxín-myndandi E. coli sé hluti af náttúrulegri örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár. STEC fannst í 30% sýna af lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti. Bendir þingmaðurinn þó réttilega á að hagsmunir neytenda felast á endanum ekki í ódýrum vafasömum matvælum heldur heilbrigði og langlífi, en tekur ekki fram hvort dýr og vafasöm matvæli séu neytendum hagfelld.
Athygli vekur að ráðherrann fyrrverandi vefengir sjónarmið heilbrigðis- og lýðheilsusérfræðinga sem hvetja til sykurskatts á sama tíma og hann gagnrýnir aðra sem eru ósammála þessum nýju álögum. Hann er þó samkvæmur sjálfum sér í sykurskattsmálinu, ólíkt hinum sem hér eru nefnd.
Sérstaklega verður að fagna hræsnislausum varnaðarorðum í greininni gegn aukinni áfengisneyslu. Takk fyrir þau.
Birtist í Morgunblaðinu 9. 7. 2019