Í fylgd með fullorðnum

Frændi minn einn beið í nokkur ár með að kaupa sér úlpu þangað til hann varð sextugur, en þá gat hann gengið í Félag eldri borgara og fékk tíu prósent afslátt. Það fannst mér mikil hagsýni.

Annar frændi minn sá aftur á móti enga ástæðu til þess að ganga í slíkan félagsskap meðan hann væri enn í fullu fjöri, enda varð hann ekki nema 96 ára. Hann sagðist ekki finna mikið fyrir aldrinum, en „ég sé að synir mínir eru orðnir asskoti karlalegir.“

Pabbi kom einu sinni heim úr sundi og sagði frá því að konan í afgreiðslunni hefði spurt hann hvað hann væri gamall og hann svaraði sannleikanum samkvæmt:

„Sjötíu og eins árs.“

„Þá átt þú að fá ókeypis í sund.“

Ég hélt að hann yrði glaður við að vera svona unglegur að enginn hefði tekið eftir því að hann væri ellilífeyrisþegi, en þvert á móti, hann var hundfúll og skipti þó ekki oft skapi. Hann var búinn að borga sig inn í fjögur ár að þarflausu.

Ég vil gjarnan fá afslátt af fatnaði, en mér finnst ég ekki hafa beinlínis til hans unnið vegna aldurs. Mér finnst eiginlega ósanngjarnt að fólk eins og ég (sem telur sig vera í fullu fjöri) borgi ekki jafnmikið og hinir.

Í útlöndum fá margir afslátt vegna aldurs. Mig minnir að grískar konur og kannski ítalskar líka hafi til skamms tíma komist á ellilífeyri fimmtugar. Á sínum tíma fannst mér sjálfum fimmtugt vera inngangur í ellina. Í afmælisræðu fyrir einn félaga minn sagði ég:

„Við höfum öll heyrt fimmtugt fólk segja að nú sé seinni hálfleikurinn að byrja.“

Þögn.

„En við hin vitum að í raun er þetta framlengingin.“

Þegar ég hafði nokkur ár um fimmtugt hafði viðhorfið auðvitað breyst. Ég áttaði mig á að spekiorðunum: Allt er fertugum fært fylgja að minnsta kosti tveir viðaukar.

  1. Flest er fimmtugum fært
  2. Sumt er sextugum fært

Nýlega var ég í margra daga göngum. Göngugarparnir voru á ýmsum aldri, í margs konar formi og með margvíslega lögun. Allir kláruðu þó nánast öll markmið, sumir hratt, aðrir hægar. Og allir komu niður aftur sem er mikilvægasti þáttur hverrar vel heppnaðrar göngu. Í hópnum var einn gamall karl sem mér fannst fjasa svolítið um að hraðinn skipti ekki máli, -kemst þótt hægt fari- og svo framvegis. Ég setti mér það markmið að vera alltaf vel á undan þeim gamla, sem var alls ekki alltaf auðvelt. Það var ekki fyrr en á síðasta degi að ég áttaði mig á því að öldungurinn er ári eldri en ég. Bráðhress maður á besta aldri.

Í nýlegri Portúgalsreisu okkar hjóna fórum við á mörg söfn og skoðuðum fjölmarga kastala. Förunautar okkar voru hjón sem kalla sig pensjónista, eru bæði nýlega löggilt á Íslandi sem kallað er. Í fyrstu höll fengu þau að sjálfsögðu elliafslátt og Vigdísi fannst mjög freistandi að fá þessar tvær evrur sem afslátturinn var, þó að okkur skorti heilt ár í að ná þessum eftirsóknarverða aldri.

Ég þverneitaði. Vigdís reyndi að sannfæra mig með því að þetta væru tveir bjórar, en af því að ég drekk ekki bjór höfðu þau rök engin áhrif á mig. Hvort sem við ræddum þetta lengur eða skemur varð niðurstaðan sú að við borguðum fullt verð.

Þetta var skynsamleg stefna. Í næstu höll fór allt á sömu lund, við borguðum fullt gjald og vinir okkar fengu afsláttinn. Nema hvað í þetta sinn þurftu þau að sýna skilríki sem þau gerðu auðvitað með glöðu geði og fannst ánægjulegt að hafa verið spurð.

„Þarna sérðu,“ sagði ég. „Nú værum við á leið út í fylgd öryggisvarða, ef við hefðum svindlað.“

Vigdís þóttist vera að skoða bæklinga og lét eins og hún heyrði ekki í mér.

Í síðustu höll dagsins var flóknari verðskrá á töflu yfir miðasölunni.

Fullt gjald fyrir sextíu og fjögra ára og yngri. Þá tók við fjórðungsafsláttur. En það var ekki allt búið enn.

Áttatíu og fimm ára og eldri fengu ókeypis inn.

Félagi minn horfði íhugull á töfluna og sagði svo við mig:

„Við ættum kannski að koma hingað seinna.“

 

 

One comment

  1. Þakka þér fyrir góða grein. Ég velti því fyrir mér hvort afsláttur til þeirra sem eru orðnir 67 ára eða jafnvel yngri sé ekki byggður á misskilningi. Mér finnst eins og forsendurnar séu þær að megin þorri þeirra sem eru á þessu aldri séu á grunnellilífeyri. Svo er sem betur fer ekki. Ég held að við eigum frekar að styðja við barnafólk, sem þarf að greiða fyrir barnapössun, koma sér þaki yfir höfuðið og fl. Svo er kvartað yfir því að barneignum fækkar.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.